órans vængir

Órans vængir 2006.
Útgefandi GB útgáfa.
93 bls.
Mynd á kápu: Garibaldi.

Órans vængir skiptist í fjóra kafla og fjalla um ýmsa óra, myndlist og tækni.
Fyrirbærið dárabátar er aldagamalt og fólst í að í evrópskum borgum var fólk sem sagt var tala tungum eða vitleysu flutt á sérstökum bátum burt frá hinni viðkvæmu byggð og menningu hennar út í náttúruna, sem lengst í burtu. Þetta var síðar einnig gert við geðsjúka og holdsveika. Einn kafli bókarinnar heitir „dárabátar“ og rennur það minni um flest ljóð bókarinnar til að efla kenndina um hið undarlega, ótrúlega og það sem gengur gegn hefðbundnum skilningi á menningu. Michel Foucault fjallar nokkuð um þetta myndmál, t.d. í bókinni Útisetur. Samband geðlækninga, bókmennta og siðmenn­­ingar (Matthías Viðar Sæmundsson ritstj., þýð. Ólöf Pétursdóttir og Garðar Baldvins­son, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1998).

Verð kr. 2.490.-

Panta órans vængi

Dárabátur (Stultifera Navis) var þýtt á latínu 1497 en sumar tréristurnar í bókinni kunna að vera eftir Albrecht Dürer.

Dárabátur.
Titilsíða útgáfunnar frá 1549.

Dárabátur
eftir Hieronymus Bosch, 1490-1500
Olía á við
Stærð: 58 cm × 33 cm
Staðsetning: Louvre, Paris.

Dárabátur (nútímaþý. Das Narrenschiff, lat. Stultifera Navis, á miðaldaþý. Daß Narrenschyff ad Narragoniam) er skopleg táknsaga sem skrifuð var á þýsku og gefin út 1494 í Basel í Sviss og var höfundur  húmanistinn og guðfræðingurinn Sebastian Brant. Frægust er þessi bók fyrir dárabátana en hún var þýdd á fjölda tungumála. Bókin var þýdd á fjölda tungumála og er frægust fyrir lýsingar á dárabátum. M.a. er sagt frá því hvernig yfirvöld fluttu geðveikt fólk burt úr samfélaginu út í óbyggðir og jafnvel til annarra landa eftir fljótum Evrópu með skipum sem á íslensku hafa verið kölluð dárabátar.

Hugmyndin um fíflsskap var oft notuð fyrir siðskiptin til að gera gagnrýni hærra undir höfði. Myndmálið notuðu t.d. þeir Erasmus frá Rotterdam í Lofi heimskunnar frá 1509 (þýð. 1990) og Marteinn Lúther í bókinni Til hins kristna aðals þýskrar þjóðar. Um siðbót þeirrar kristilegu stéttar árið 1520  (þýð. 2012). Við konungshirðir var fíflum einatt leyft að segja nánast hvað sem er. Í þessum anda leyfðist Brant að skrifa snarpa gagnrýni á kirkjuna og Lútheri að gagnrýna aðalinn. William Shakespeare notaði iðulega fífl í leikritum sínum en frægast er það líkast til í verkinu Lér konungur.

Ljóðin voru upphaflega ort í tilraunaskyni út frá gömlum hugmyndum um að fanga umhverfishljóð og myndir inn í ljóðlínurnar. Skáldið teiknaði einnig myndir inn í drögin og fylgja þær hér að gamni á víð og dreif.

órans vængir

 

Eftir að setja inn ljóðin, bara búinn að kópera „section“ með „efnisyfirliti“ eða sidebar.

drengjakollur

á rauða veggnum í stofunni
er mynd sem mér er afar kær

af ömmu minni með drengjakoll
hún er svo frískleg og ung
með þessa frönsku greiðslu
og nefið eins og á frönskum kóngi
eða Goldu Meir hún amma
hafði stundum tíma til að spjalla
við mig barnungan þegar ég
hélt í hespu fyrir hana
eða hjálpaði henni að binda á öngul
og fannst ég fullorðinn og hún
sagði mér að þær systur hún og Eyja
hefðu borið fimmtíu kílóa
kolapoka á bakinu og fengið
fimmaura um tímann
en karlarnir tíu

í stríðinu sem fór framhjá landinu
þegar hún var að eignast
fyrstu börnin og myndin af afa
með barðastóra Stetson hattinn
og yfirskeggið minnir mig á
að löngu síðar skildi ég
af hverju hún gerðist aðventisti

það var ekki bara trúin
og ekki heldur kvenfrelsi
drengjakollsins eins og í París

hann missti pabba sinn
fyrir fæðingu og mömmu sína
nokkrum árum síðar og svo
bara var hann allt í einu
fullorðinn og búinn að þvælast
frá Mýrum suðrí Garð og
til Reykjavíkur lúbarinn
hér og þar og orðinn
ástfanginn af þessari
fögru snót með drengjakollinn
og farinn að drekka og vissi
alltaf hvað hann gerði
svona nautsterkur sem hann var

amma prjónaði sokka og vettlinga
í ellinni handa barnabörnunum
í jólagjöf uns hún gat ekki meir

amma bowie metall
 
hún ber höfuðið hátt
með hægri höndina
á öxl mannsins
sem sagði við hana
fjórtán ára
nýkomna til borgarinnar
í byrjun aldarinnar
þú verður konan mín

efri vörin mjó og inndregin
eins og á mér
ég hef líka frá henni fellingaraugun
eins og Gúndi frændi

tvítug hafði hún fætt tvö börn
fæddi níu börn um ævina
drengur andvana
dóttir lést fyrir aldur fram
tæplega þrítug

og líkvakan
með andaktinni
dró mömmu mína næstum
til dauða

árið sem hún sá Sigurjón sterka
lyfta stóra eikarborðinu
með annarri hönd
á öðrum enda þess
áður en hann gekk
yfir Rauðarána og Háaleitið
niður Sogamýrina
yfir Elliðaárnar framhjá Ártúni
fyrir Grafarvoginn allt upp í Gufunes

hún amma átti þrjú í fertugt
þegar hún hafði fætt öll sín börn
það elsta tæplega tvítug mær
og skýlið já skýlið
ekki beint skýli
fyrir börn og mamma yngst
alin upp með rónunum
sérvitringunum og þeim sem
ekki gengu alfaraveg
fátæklingum og erfiðismönnum

fyrsta minning hennar um strák
með svarbrún gleraugu og mjóa rödd
sem hrópaði út á sjóinn
nei sko rauða boltann
þegar það var hún
sem hafði dottið í sjóinn
tæplega þriggja ára
í uppáhaldsbuxunum
eldrauðum með axlaböndum
og smekk
beint ofan úr glugganum sínum
uppi á lofti skýlisins

og afi þurfti að stilla
til friðar í matsalnum
í skýlinu
er Oddur af Skaganum
ókyrrðist í sínum hnjávöfðu skóm
og víkingaklæðum
og Jóhannes á Borginni
stjakaði við mönnum
og allt í steik

og bróðir hennar lá síðar
áratugum saman
lamaður af áfengiseitrun
og konan hans hjúkraði honum
fórnaði lífi sínu
fyrir ástina í lífi sínu
í aldarfjórðung
hann lá í rúmi sínu
gat ekki reist sig upp við dogg
lítillega hreyft hendurnar
en brast athygli
eftir fimm mínútur
og þurfti svefn
greipaldinið smakkaði ég þar
svo súrt svo súrt
en hann drakk sko annað
líklega tréspíra sem getur
banað manni

amma hrósaði mér fyrir
að heimsækja hann
mér fannst hún eins
geta hrósað mér
fyrir að draga andann
og var svo fegin að ég
skyldi fara með henni í strætó
það var mér heiður
og hún keypti af mér blöð
kristilegs stúdentafélags
sem ég notaði í annað
keypti mér fótbolta
og strengurinn brast
var hægt að tala í einlægni
þegar maður var syndugur
í augum sjálfs sín
sá ekki guð allt
og tilkynnti ömmu
sem var í sérstöku sambandi

stundum skildi ég ekki ömmu
hvað hún var fegin
alls konar sjálfsögðum hlutum
heitu vatni eða þvottavél
stígvélum og hlýjum peysum
voru þetta ekki mannréttindi
eins og jöfn laun fyrir sömu vinnu
kannski ekki hjá koli og salti hf
en allavega í nútímanum
kalkofninn löngu horfinn
og kalkofnsvegur búinn að glata
tengslum við fortíðina
þegar hún bjó við sjóinn
hjá bæjarins bestu
hefði Clinton þorað þangað
sjálfur Tryggvi Gunn jafn fjarri
og Skálavíkin hennar Júlíönu í Seattle
í Washington í Bandaríkjunum
allt hendingu háð

og amma táraðist
þegar ég laug um heimilið
sagði allt fínt
og ég gæti vel lært
eins og hún vissi betur
grunaði kannski kuta um nætur
og öskur og hvæs
eins og hún þekkti heiminn

ég skildi ekki ömmu
jafnvel þegar hún sagði að karlar
hefðu tvisvar sinnum hærra kaup
við kolaburð á eyrinni
eða þegar hún batt öngla
eða bað mig að heimsækja
systurdóttur sína
og sagðist svo þreytt svo þreytt
þegar hjónin töluðu saman
á hærri nótunum
inni í stofu

það var erfitt að neita ömmu
um nokkurn hlut
svo ég hætti að heimsækja hana
eða tala við hana

hún var ekki fulltrúi guðs
hann var fulltrúi hennar
og alsjáandi auga hans
sagði hennar allt af létta
hverja stund

þegar deilur spruttu
um framtíð bróður míns
sem var sendur í fóstur átta ára gamall
fyrir óknytti og stelsýki
og hann þá átján ára
og mæðurnar deildu
eins og fyrir botni miðjarðarhafs
þá var vitnað í ömmu
eins og hún væri guð
eitt var að venjuleg manneskja brygðist
en að amma brygðist
var sem sjálft syndaflóðið
steinn stóð ekki yfir steini
grundvöllur lífsins
ekki neinn

jólin sem amma sendi ekki gjöf
brugðust jólin
pabbi og mamma með hnífinn
hurfu í skuggann

ég var tólf ára og andlitið hljóp upp
með ofnæmisskellum og kláða
af því ég sagði henni ekki satt
seldi ættinni blöð
og keypti fótbolta
alltaf sami svindlarinn
guð minn amma
Alla gef mér rúgbrauð
sagði ég við ömmu vinar míns
á Skúlagötunni
af því hann sagði það alltaf
en henni var ekki skemmt

og Hörður Torfa var dæmdur
til dauða
af dómstóli alþýðunnar
og mér fannst flott er hann
sagðist hommi

ég meina hvað er það
mér fannst hann gunga að flýja
til Köben
þótt einhver hótaði honum
ekki flúði afi minn
þótt einhver hótaði honum
nei hann slóst
með berum hnefum
eins og listmálari
abstraktbálari

flótti og flótti
ekki alltaf á hreinu

við börðum líka Arabann
sem játaði sinn íslamska sið
á torginu fyrir allra augum
var hann hæddur og laminn
árið sem við höfðum betur
gegn Austur-Þjóðverjum
sem eru ekki lengur til

og Berlín óskipt
skiptist nú skýrt í austur og vestur
jafnvel skýrar en fyrir fallið
og djöfladýrkendur ógna
saklausum metalhausum
á hátíðum rokksins

við erum einskis manns börn
þegar allt kemur til alls
gleymdu orðum mínum og öllu
sem ég hef látið mér um munn fara

nei amma mín hefði ekki skilið bowie
og hans dauðatónlist
og sonur minn elskar metalmúsík
og skilur hvorki bowie né mig né ömmu

afi kallar á kútinn sinn
 
í minni mínu
er veggurinn mosagrænn
fölglóandi mosagrænn
eins og myndum hættir til
að mildast og mótast
í áranna rás
þegar upptökin
eru í frumbernsku
 
veggurinn eins og
séður úr fjarska
yfir mosaþembur hraunsins
gegnum djúpan brunn
 
afi kallar á mig á þriðja ári
síðasta sumarið sitt
áður en hann varð allur
eins og hann vissi hvað
lægi framundan
 
gamall og obbolítið hokinn
þótt mamma hafi alltaf sagt
hann óvenju fattan
sat hann í rúminu sínu
í hvítum spítalajakka
bauð mér ópal og malt
á borðinu hjá biblíunni
og mannakornunum hennar ömmu
 
nú er ég klæddur og kominn á ról
kristur jesú veri mitt skjól
sagði hann hægt með glettni
 
maltflaskan fór ofan í kok
í eina skiptið á ævinni
undrunarefni lengi fram eftir
röddin bland af sterku og veiku
þessi unaðslega afarödd
með seiðandi kraft innan úr brjósti
bað mig ávallt muna
hvað amma væri góð kona
traust og blíð og sterk
 
ritningargreinar frá ömmu
bænir frá ömmu
bón hans beint úr hennar munni
að sitja aldrei með hendur í skauti
heldur hafa alltaf eitthvað að iðja
þó ekki væri annað en lesa blað
 
iðnin veitir yndi mest
inn að hjartarótum
ber þig ætíð að sem best
beint frá huga stórum
 
nokkuð viss um að glugginn
var beint á móti veggnum fölgræna
dulúðug birta sem hjúpur um afa
og hægra eyrað sást ekki
bjöguð hægri kinnin
og munnvikið
virtust alheil eins og hin hliðin
runnin samt saman við ljósið
sem flóði inn í jakkaklæddan búkinn
veggurinn uppljómaður
enn sást ekki gangan í matgarðinn
árið eftir
 
höndin einhvern veginn
laus frá bolnum
án þess að kljúfa loftið
eins og mamma sagði löngu seinna
 
ég veit ekki hvar ég væri
án hennar ömmu þinnar
hún var alltaf mín stoð og stytta
ég alltaf heill en veikur
og vinnandi langa daga
 
víst ertu jesú kóngur klár
sagði hann með veikri hægð
þagnaði
horfði í gaupnir sér
starandi eins og horfinn
á vit annars tíma eða eitthvað
og lognaðist út af í rúminu
 
já ég hefði getað verið betri
við hana blessaða
 
andlátsorð hans
í eyra mitt námfúst
of ungt fyrir söknuð

hjólið
 
hjólið frábæra
hófst kolsvart
upp úr skottinu
í þann mund
sem sólin reis
upp við Vífilfell
og sáldraði roðagulli
yfir hinn nýja dag
 
sumum fannst mikið
leggjast fyrir okkur
í skortsins koti
eins og hjól bæri sótt
úr blásvörtu skottinu
einhverja Biafraveiki
enda var ég ekki
jú einmitt þaninn magi
eins og börnin blökku
suður í álfu myrkursins
 
ekki hjól tímans
hannað fyrir stelpur
og við sjö bræður
á eftir stóru systur
tignarröðin eftir aldri
stolt mitt samt
meðan röðin leyfði
og ugglaust lengur
 
entist okkur öllum
margmáluð funestusfluga
handa fúnikalsbörnum
sem við vorum kölluð
eftir dagsbrúnina gullnu
vorið sextíu og eitt
 
áður en súpan millilenti
á græna hattinum
 
hjólið bar mig brátt
út í óbyggðir hjá heimsenda
og sveitina þar suður af
þetta víðerna land
 
vinirnir stríddu mér
á að vera alltaf einn
pabbi skammaði mig
fyrir að vera fjarri byggð
og taka hjólið traustataki
svona lengi