lýsiglóð
með hattinn barðastóra og næstum fornaldarlegt slifsið svarta horfir afi á mig úr ramma á vegg eins og úr fjarska verkamannaskýlis og ég man í höfðaborginni þar sem sparisjóðurinn er nú hvernig hann stóð í dyrunum er dró að lokum studdist við staf í ljósum dyrum sem draumveran drap á síðar svo ömmu krossbrá og hann sveiflar hinni með kveðju til bróður míns og líður inn í rúm í hvítum spítalajakka að kenna mér bænir með malt og sögur á vörum um ömmu kjarnakonu
löngu eftir að hann pikkaði í gólfið róandi í gráðið eins og írsk syrgjandi kona er ég á miðjum aldri að bera til grafar dóttur hans hernuminn langsóttu svelgjandi minningaflóði kyrrð hvatning heimsóknir laugardagsferðir í kirkju svo sjálfsagt að fá ís minningin hálfglatað ástkært barn svellandi hljóðljóð sem lýsiglóð undan steinum sem af sjálfsdáðum velta
(Úr Höfðaborg, 2006)
Garibaldi les upp ljóð sitt „lýsiglóð“.