mátti borgin ekki vera rúðustrikað blað

mátti borgin ekki vera rúðustrikað blað  2003
Mynd á kápu er unnin af Garibalda.
Útgefandi Ásgarður.

Ljóðin skiptast í 7 kafla, eru án nafns en númeruð frá 1 til 48.

Ljóð bókarinnar byggja á reynslu skáldsins, einkum úr bernsku, og reynslu listakonunnar Rósku sem hét fullu nafni Ragnhildur Óskarsdóttir. Inn í þessa reynsluheima blandast atriði úr stjórnmálasögu síðari hluta 20. aldar, innlend en einkum erlend.

108 bls. Útgefandi Ásgarður. 2003.

Mynd á kápu er unnin af Garibalda.

Verð kr. 3.950.– Kaupa

Róska fæddist 1940 en í fölsuðu vegabréfi sínu gaf hún upp fæðingarárið 1946. Árið 1954 lenti hún í slysi og varð flogaveik í kjölfarið og ferðaðist um Evrópu með föður sínum í leit að lækningu næstu árin.

Róska eignaðist son árið 1963 en þegar hún yfirgaf Reykjavík til að búa með manni sínum Manrico nokkrum árum síðar í Róm á Ítalíu skildi hún son sinn eftir í Reykjavík.

Róska var fyrst og fremst myndlistarkona en gerði einnig kvikmyndina Sóley (1978-1981) sem byggir á íslenskum þjóðsögum. Hún var róttæk í stjórnmálum og barðist með femínistum, vinstra fólki, stjórnleysingjum og jafnvel hryðjuverkasamtökum.

Róska tók virkan þátt í stjórnmálalífi í Reykjavík með gjörningum, sýningum, viðtölum, greinum, mótmælum og fleiri aðgerðum. Vann hún stundum náið með vinkonu sinni Birnu Þórðardóttur sem einnig var virkur aðgerðasinni. Í ljóði 43 er vísað í gjörning þeirra í Háskólabíói þar sem þær gerðu grín að Halldóri Laxness, sjálfu óskabarni þjóðarinnar og Nóbelsskáldi, en þær bentu m.a. á aðdáun hans á Stalín og hryllingsverkum hans í Sovétríkjunum. Um aldamótin var Halldór kosinn maður 20. aldarinnar á Íslandi.

Róska neytti eiturlyfja sem drógu hana til dauða árið 1996. Þá hafði hún misboðið líkama sínum svo að hann var orðinn algert hrak.

Garibaldi byggir margt í bók sinni á ævisögu Rósku og yfirgripsmikilli og vandaðri sýningu á verkum hennar í Nýlistasafninu árið 2000. Sýningin var haldin í samstarfi við Reykjavík–menningarborg. Hjálmar Sveinsson var sýningarstjóri.

Fyrrnefndur sonur Rósku, Höskuldur Harri Gylfason, hannaði bókina um hana og braut um:

Hjálmar Sveinsson (ritstj.) Róska. Hönnun og umbrot Harri. Ljósmyndir Guðmundur Ingólfsson … [et al.]. Þýðing á ensku Verba þýðingar. Reykjavík: Nýlistasafnið, Mál og menning, 2000.

Tilefni útgáfunnar er sýning í Nýlistasafninu í október 2000 sem lýsir lífi og list Rósku. Bókin er hönnuð af Höskuldi Harra Gylfasyni, ríkulega myndskreytt og víða komið við. Merkar greinar eru í henni eftir Guðberg Bergsson, Ólaf Gíslason, Birnu Þórðardóttur og Halldór Björn Runólfsson. Þá eru hér umræður um pólitíska list og möguleika hennar og viðtöl við Hrein Friðfinnsson og Einar Má Guðmundsson. Sannkölluð lífslistarbók. (Bókatíðindi)

Mynd undir textanum hér er úr fyrrgreindri bók, Rósku, en þar er öllum gefin heimild til að nota myndir að vild.

 

„Segja má að ljóðabókin sé einhvers konar ljóðsaga þar sem þrjár kynslóðir koma við sögu og tengir skáldið ýmislegt í ævi Rósku við nútímann, t.a.m. hryðjuverk seinni ára og ekki síður persónuleg mál sín. [...] flæðandi myndsköpunin og vald skáldsins yfir tungumálinu og skáldskapnum [gerir] það að verkum að við höfum í höndunum bitastæðan skáldskap og á stundum býsna hugmyndaríkan og áhrifaríkan.“
Skafti Þ. Halldórsson
Ritdómur í Morgunblaðinu