drengmóður
drengmóður (2007) fjallar um bernsku skáldsins og kallar upp gamlar slóðir þar sem borg og sveit mætast í bæjarlandinu ekki síst í kringum Elliðaár og hraunið milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Ljóðin rifja upp bernskutíð skáldsins og draga fram myndir af Reykjavík, ekki síst mótum borgar og sveitar, yss og kyrrðar, en einnig hættur vatnsfalla og hrauns. Guðstrú fær hér meira rúm en í fyrri bókum. Vísað er í margvíslega atburði í heiminum, t.d. geimkapphlaup og lendingu á tunglinu, morð frægs fólks og fleira.
Í ljóðum er einnig fjallað um ofbeldi af mörgumtoga innan fjölskyldunnar og einelti gagnvart henni. Drengjakollur ömmu skáldsins kallast svo t.d. á við David Bowie og málmtónlist.
Útgefandi GB útgáfa 2007
105 bls.
Garibaldi tók myndir á kápu og hannaði bókina alla.
Bókin er tileinkuð Baldvini bróður mínum
víðerna land
stokkur yfir ána
brú milli borgar
og sveitar
undir ártúninu
og indjánagil
í fjarska
handan við byggðina
hylurinn í hvarfi
af brúnni
bak við njóla og kjarr
og kletta og sóleyjar
stilla
holið sem gleypti steina
sem hurfu með það sama
niður til heljar
eins og í biblíusögunum
þar sem sáðkorn Jesúsar
féll alltaf í grýttan jarðveg
og allir ávöxtuðu sitt pund
við sátum saman á brúnni
dinglandi fótum
yfir ólgandi straumnum
langt fyrir neðan
hvítur var hann stálgrár
og bland af grænu og brúnu
sem ekkert orð nær yfir
á sóleyjartungu
og litlu börnin hoppandi
að baki okkar á stokknum
kannski hrædd eða glöð
þennan vordag
þennan fyrsta vordag
sem þeim var hleypt að ánni
þau kunnu ekki
að vera kálfar
og við vorum smeykir
því að í fyrra
um þetta leyti sagði mamma
drukknaði strákur í straumnum
og hótaði að drekkja sér þar líka
ef ég væri óþægur
við gengum að hinum bakkanum
að hinni kvíslinni
drukkum í okkur kjark
úr mjólkurflöskunni
til að leggja í beljandi strauminn
undir fótum okkar
stokkurinn ristir landið
fyrir ofan og neðan
eins og sár í sálinni
þegar hið ósegjanlega hefur gerst
sem enginn má vita
ekki einu sinni ég sjálfur
hvernig ávaxtast það
þegar það fær jafnvel ekki
að falla í grýtta jörð
innilukt dýpst í hylnum
spegilsléttum hylnum
þar sem mótar fyrir
stórgrýti við barma
borgarmegin sjást bæirnir í mýrinni
við vitum að þar vex kál og gulrætur
því þessu stelum við þegar
við getum og enginn sér til
hinumegin við ána
er víðernið sveitin landið
fyrir utan borgina
á milli er sjórinn öðrumegin
sem pabbar sækja
langa daga
og á hina heldur sveitin áfram
að enda vatns og heims
þar sem radíóbylgum
er varpað yfir byggðina
samband fæst við umheim
handan hvarfs
og til að svara hringingu
skal ganga að talsímatólinu
og tala skýrum rómi
helmingi eldri gekk hann
þaðan yfir holtið og melana
og hraunið allt til Hafnarfjarðar
og hraunið fullt af gjótum
sem djöfullinn bjó í
og beið færis að grípa í
misstigna fætur
pompandi iljar oní göt heimsins
svo að veraldir staðnæmast
og félagarnir gera endalaust grín
að óttanum ósegjanlega
sem þeir skynja svo ósköp vel
egghvasst augnaráð þeirra
rifjar upp nótt hnífsins
þegar barnsaugu ljúkast upp
í glýju myrkurgeisla
í takt við eldskörp ljósspjót
síðar berast boð um
fjölmörg lík í gjótum
um allt þetta hraun
sem Kain hafði lengi farið um
hlæi þeir bara
hann vissi vel
að sá rauði teygði sig
eins og slönguvaður upp
gegnum skil góðs og ills
upp úr jörðunni grýttu
upp í ljósið að grípa tá
eða fót í gatinu
já hlæi þeir
hann vissi
að hún elskaði hann ekki
að það var annar í spilinu
og hann vissi að hann sjálfur
elskaði aðra þótt ungur væri
spjót hennar særðu hann
ærðu hann mærðu hann ekki
færðu honum ekki trú né frið
þoldi ekki tilhugsunina
að verða banamaður hans
þótt gjóturnar dygðu
föðurmorðingjum líka
óvitandi að erlendir ferðamenn
á öldum áður óttuðust
nibburnar og gjóturnar
að hestarnir sykkju þarna niður
eða sjálfir misstu þeir fætur
og hendur og líf
í þessu landi skógleysis
menn sem óttuðust skóga
næstum jafn mikið og krár
það óþekkta það myrka
sem lónir fyrir utan augsýn
þess kortlagða handan heimsins
eins og Kólumbusar hásetar
sem sigldu út fyrir heiminn
og óttuðust mest að falla
fram af brúninni oní myrkrið
blindaðir af trúnni
og jörðinni flötu
hvar var þá móðirin
mærin sem alla bað
að koma til sín sem þyrstir eru
ég meina hvern þyrstir ekki
handan heims
í miðju hrauni
milli byggðar laga
móti ljósbláum himinbreiðum
rís drangur og hokinn maður
við hlið hans og hrúga
minna á sonarfórn til forna
úti í hrauninu hlógu þeir
að órum mínum
sagnaviðjum
einsetti mér enn
og aftur að vinna
illt með góðu eins og
amma kenndi mér
vitandi að það er
óðs manns æði
að vera góður með grimmd
en þessi fögru sáðkorn
festust ekki í svörtu hrauninu
með glóandi mosanum
og stór gjóta eins og gígur
með turni fyrir endanum
og steinkross efst
eins og útskorinn
af smiðnum góða
sem alltaf bauð
andskotans hinn vangann
eins og óður ég meina á maður
að láta berja sig í sviðasultu
leyfa þessum djöflamergum
endalaust að hlæja
gera grín að staminu
að klumbufætinum
að freknunum
hvað fær jafnvel bestu vini manns
og bróður til að gera lítið úr manni
taka nestispokann
og henda á milli sín
þangað til maður gefst upp
í miðju sindrandi hrauni
þarsem vaðurinn úr neðra
slöngvast í hverju fótmáli
ofan í gjótunni myrku
ofan í mosanum logandi
sem allt getur falið
og gleypt sáðkornið
svo það hverfur
eins og gullbaugurinn
sem draugurinn álfurinn
stal um hábjartan dag
í feluleik barnaskarans
og barnavinurinn besti
réttir fram kinn
enginn hestur það sinn
nestið undir krossinn
þetta er bein hvítt bein
langt eins og handleggur
kannski af Njáli handsterka
nei var hann ekki að lenda
á öðrum hnetti
þögn fellur á þríeykið
nesti stríðni háð
veg allrar veraldar
hér kann að vera reimt
í þessum geim undir berum himni
yfir kirkjunni
soga okkur sögur
sveipast sem net
vefur sem gefur
frelsistál
og grefur mál
í stokkum
sem torvelt er að skilja
hefur einhver borið hér bein
hvernig stendur á þessum legg
hvað er á seyði
hvaða tröll hafa hér vélað
eigum við að vera
grafa fara
guð þú ert ekki til
raddir rispa punkta
í festinguna
hverfa í mosató hennar
smjúga inn í maríutásur
horfum laumulega
hver á annan
spyrjandi ágengir
á beinið helvítis beinið
göngum þöglir keikir hægt
svipur þess vakir yfir
fylgir lengi á göngunni
þögnin þykk skerandi
ásar og hálsar í kring
kjarvalskar hraunmyndir
enga byggð að sjá
svart og gráhvítt næst
en grænt og leirbrúnt fjær
upp í bláan himin
með hvítum skýjaförum
kynjamyndir hraunsins
sem ævafornar hellamyndir
kolsvartar og sindurgrænar
bláglóandi og óransrauðar
inni í himinblámanum
minna á myndir
meistarans sem ég sá
áratugum seinna
þarna rís Valur
sjóblautur úr grámosanum
líkastur fyrirboða í draumi
og heldur hann ekki
örugglega á Hrafni við hliðina
tvö göt í myndinni
bærist ekki hár á höfði
hnífurinn má ekki
má ekki standa í kverk
glampandi blaðið
eins og mosinn
sem gleypir allt
á að bjóða hinn vangann
hopa
inn í vegginn
láta jörðina gleypa sig
guð þú ert ekki til
þú ert ekki til
allt þetta plat
leiktjöld biblíumyndir
leikaramyndir
mosinn hraunið beinið
burstin í fjarska
stækkar eins og í bíó
vex upp úr hrauninu
eins og í teiknimynd
tröllvaxin upp í himininn
klukkan í turninum
slær sex
aðfangadagur
jónsmessa
spor í mosann skýrt mörkuð
sem áfangar
í heimssögunni
á borð við Rósu Parks
sem neitaði að standa upp
fyrir hvíta manninum
í strætó
hrædd og óbeygð kona
með stuðningi kóngsins
bæði undir fertugu
og áttu sér draum
kannski liðu einmitt tvö ár
á milli Vals og Hrafns
less matter and more art
sagði konan við Kjarval
og smám saman
verður landið eins
og hann sá það
á stígnum fjarar
hraunið út með þögn
óhætt að tala grínast
með beinið krossinn
nestispokann
kirkjan lokuð og læst
blóðrauðar tungur
undir krossinum
töluðu skýrt til mín
að mestur væri kærleikurinn
undir stjórn hans
og amma steig fram
hjá skólanum
við rætur fjallsins
sem mig langaði alltaf
að stunda í kyrrðinni
eins og íslenskt klaustur
undir aga klerksins
þeir hlógu feimnislega
líkt og þetta væri klámmynd
ég að spásséra um gangana
og lesa upp úr biblíunni
þarna í víðáttugrænum
mosanum undir kirkjunni
úr steininum og kölluðu mig
í háðungarskyni eldprest
og eiturbrasara
en það var ekki ég heldur amma
á krossinum yfir beininu hvíta
ég vildi að hún væri Hermannsdóttir
en ekki Hans
frammi fyrir tákninu
spyr maður
hver skúrkurinn sé
og í Dallas hefur bíllinn
ekið sitt eilífðarskeið
og skotið heimsfrægt
forsetinn allur
mamma
liggur ekki í blóði
heldur leggur á borð
fyrir alla og móttekur pabba
með sjóðheitri grautarausu
yfir græna hattinn
hvar er þá fórnarkenndin
með skúrkinn sjálfan
í dyrum
tunglið kallar Houston
mannkynið hefur stigið
sitt stóra skref
ég lítið
hnífurinn
kverkin
það ósegjanlega
má ekki gerast
og vorið er skammt
komið í Prag
stúdentinn að nema þar sögu
með Gúlagið og góða dátann
Svejk í laumi
allt bundið í tákn
sem byssukjaftar riðla
og snara í kerfi
lyga og sannleika
héldum við saman
mamma pabbi
að lesa til baka
söguþráður slitinn
ívaf raknar ekki
sagan kastar neti sínu
hnykkir á lögmálum
ljósaskipta augnafjöld
flugnasveimur sýgur ekki blóð