Um Garibalda
Garibaldi er fæddur í Reykjavík og var skírður Garðar Baldvinsson. Hann ólst upp í höfuðborginni til tvítugs að hann flutti til Vestmannaeyja þar sem hann vann og bjó í 5 ár uns hann flutti aftur í bæinn. Hann hefur síðan búið í Reykjavík fyrir utan 5 ár í Vancouver í Kanada á námsárum sínum þar 1990-1995 og síðan eitt ár á Höfn í Hornafirði er hann stundaði þar kennslu veturinn 1999-2000. Hann tók upp skáldanafnið Garibaldi haustið 2019.
Garibaldi hóf ritstörf eftir heimkomuna frá Eyjum 1980 og birtust fyrstu verk hans 1982 en það voru þýðingar á smásögum í útvarpi. Síðan hefur hann stundað þýðingar skáldsagna, ljóða og fræðiefnis. Fyrsta ljóðabók hans kom út 1983 en síðan varð 14 ára hlé og eru ljóðabækur hans nú orðnar níu talsins. Fyrsta frumsamda smásaga hans birtist í útvarpi 1984 og skrifaði hann og birti nokkrar smásögur næstu árin sem vöktu nokkra athygli, einkum fyrir óvænt efnistök og hrollkenndar lýsingar. Smásagnasafn hans, Faðerni og fleiri sögur (2015) geymir sumar þessara sagna og aðrar frá síðari árum. Sjá nánar í Ritaskrá.
Fáein orð um ættir Garibalda
Í föðurætt Garibalda má nefna fjölda rithöfunda og listafólks, t.d. föðursystur hans þær Jakobínu og Fríðu Á. Sigurðardætur, Þórleif Bjarnason höfund Hornstrendingabókar með meiru og son hans Friðrik Guðna Þórleifsson ljóðskáld, ömmubróður hans Sigmund Guðnason ljóðskáld; frænda Garibalda, Guðna Kolbeins rithöfund og þýðanda, dætur Jakbobínu, systurnar Stefaníu og Sigríði Kristínu Þorgrímsdætur, Hildi Knútsdóttur og Starra Hauksson. Einnig má telja allmarga tónlistamenn eins og bræðurna Sigurð og Svein Björgvinssyni, Kjartan Baldursson og Margréti Júlíönu Sigurðardóttur. Læknislistin liggur líka í æðum ættarinnar en Sigurður Sigurðsson afi Garibalda starfaði lengi sem yfirsetumaður á Hornströndum (auk þess að vera bóndi, smiður og símstöðvarstjóri á Hesteyri); Kristján sonur hans var frægur læknir og börn hans hafa flest lagt læknislistina fyrir sig.
Í móðurætt Garibalda eru margir listamenn eins og leikararnir Guðmundur Magnússon og Þorsteinn sonur hans og Edda Heiðrún Backman, og rithöfundarnir Sirrý Skarphéðinsdóttir, Arnmundur Backman og Eyrún Ingadóttir.
Loks er sonur Garibalda, Þórir Garðarsson, tónlistarmaður og meðal stofnenda hljómsveitarinnar Svartidauði, og er núna gítarleikari hennar ásamt fleiri hljómsveita eins og Sinmara – sjá líka Wikipedia-síðu um Svartadauða.
Viðurkenningar og styrkir
Skáldskapur og þýðingar
Garibaldi fékk styrk frá Miðstöð íslenskra bókmennta vorið 2020 til að þýða og gefa út Fugla í búri. Ljóð eftir afrísk-bandarísk skáld, sem kom út í mars 2021.
Hann fékk listamannalaun í 3 mánuði sumarið 2020 til að vinna að sjálfsævisögu sinni, drauminn dvelur, sem er í vinnslu en áætlað er að hún komi út 2022.
Hann fékk styrk úr Höfundasjóði Rithöfundasambands Íslands, vorið 2019, til að ljúka við smávinir fagrir foldarskart, ljóðabók um og upp úr ferðalagi hans til Kína árið 2007, sem kom út í nóvember 2019.
Styrk frá Þýðingasjóði til að þýða skáldsöguna Steinarnir hrópa eftir Hikaru Okuizumi árið 2007.
Styrkir frá Hagthenki – félagi höfunda fræðirita og kennslugagna, Menningarsjóði og Þýðingasjóði árið 2005 til að ritstýra og þýða Íslandslag. Íslensk-kanadískar bókmenntir frá 1870 til nútímans, og síðan að ferðast til Kanada og kynna bókina þar árið 2006 eftir útkomu hennar.
Handritið að ljóðabók Garibalda sjónbaugar hlaut sérstaka viðurkenningu Bókmenntaverðlauna Tómasar Gudmundssonar árið 2000.
Rannsóknir og nám
Garibaldi hlaut styrk frá Rannís. Rannsóknamiðstöð Íslands til að rannsaka og skrifa um sjálfsveruna í íslenskum bókmenntum árið 1999 (grein birtist í Skírni árið 2000 en efni úr rannsókninni hefur birst í öðrum textum).
Garibaldi hlaut heilsárs námsstyrk, UGF (University Graduate Fellowship), við Háskólann í Bresku Kólumbíu (University of British Columbia) í Vancouver í Kanada, öll námsár sín þar, 1990–1995, til að leggja stund á nám í bókmenntafræði.