höfðaborg

Í höfðaborg (2005) dregur Garibaldi m.a. fram myndir af fjölskyldu sinni, börnum, föður, ásamt afa og ömmu sem bjuggu í Höfðaborg í Reykjavík sem laun fyrir forstöðu Verkamannaskýlisins við Tryggvagötu í aldarfjórðung. Einnig eru nokkur ljóð um konur, m.a. um Júlíönu Jónsdóttur í einsemd sinna erfiðu daga í Kanada og Bandaríkjunum, um hríð ekki fjarri þeim slóðum sem Garibaldi dvaldi á við nám. Veröldin er flestum persónum ljóðanna framandi, jafnvel á heimaslóðum.
     Hér fjallar skáldið um fjölskyldumeðlimi sína, föður, afa, börn og bróður. Einnig eru t.d.  vangaveltur um bókmenntir og þjóðsögur, um veiðar og stöðu manneskjunnar í ánni þar sem hún kastar færi sínu í vatn tímans.
     Bókin geymir einnig þýðingu á ljóðabálkinum Draugaveiki eftir bandaríska skáldið Luis Alberto Urrea. Bálkurinn kom fyrst út 1996.

Hluti þýðingar Garibalda, „Draugaveiki“, birtist í Jóni á Bægisá. Tímariti þýðenda, 2004.

Bálkurinn „Ghost Sickness“ birtist fyrst í tímaritinu Many Mountains Moving 1996, en síðan í ljóðabókinni Ghost Sickness 1997.

Bók Urrea hlaut Western States Book verðlaunin.

Helgi Örn Helgason lagði til kápumynd og myndir í höfðaborg

Verð kr. 3.950.– Kaupa

„Vissulega má sjá í ljóðmáli Garðars tungutak sem minnir á verk Sigfúsar Bjartmarssonar, Geirlaugs Magnússonar og jafnvel Baldurs Óskarssonar [...] Það er tvennt í ljóðum Garðars sem minnir mig á þessi ágætu skáld, annarsvegar er það tungutakið sem einkennist af orðgnótt og mjög hlöðnum myndum, og hinsvegar er það karlmennskustefið sem er sterkur þráður í bókinni.“
Úlfhildur Dagsdóttir
Ritdómur á Bókmenntavefnum