
Blóð á striga er safn þýðinga á ljóðum eftir ensk og bandarísk skáld ásamt einu írsku. Í ljóðunum birtast fyrirbæri eins og tækni, borgir og skipulag með blæ hins náttúrulega. Vegrið við þjóðveg verða svuntur og reynt að troða ávölum kvenlíkama í ferhyrndan kassa. Togstreita náttúru og tækni er fyrirferðarmikil.
93 bls. Útgefandi GB útgáfa 2008
Garibaldi tók myndir á kápu og hannaði bókina alla.
Verð 2.450.– Kaupa
Formáli þýðanda
Þær þýðingar sem hér fara á eftir eru einstaklega persónulegt val svo sem algengt er með þýðendur. Ætlunin var að sýna með einhverju móti hvernig hugmyndir um náttúruna og fyrirbæri hennar hafa þróast í ljóðagerð undanfarnar tvær aldir, en einkum þó á tuttugustu öld.
Mér fannst til dæmis alveg tilvalið að byrja á einhverju mesta náttúruskáldi Breta, William Wordsworth, sem taldi eftirsóknarverðast í lífinu að líkja eftir náttúrunni, eins og mörg ljóða hans bera vitni um. Hann er einnig fyrirrennari rómantíkeranna sem töldu einhverja snillingshugsun komast næst náttúrunni og vera eins konar æðra veldi hennar.
Ég er ekki endilega sömu skoðunar en tel þróun náttúrufyrirbæra í kveðskap mikilvægan tengil við þær hugmyndir sem menn gera sér um manninn og náttúruna. Þá þróun er hægt að lesa úr þeim ljóðum sem hér eru þýdd. Þó er ekki um neina línulega framrás að ræða, frá forrómantíkerum til einhverra eftirmódernista. Engu að síður er um að ræða ákveðið ferli frá sameiningu við náttúruna til margbreytilegrar sundrunar manns og náttúru eins og kemur fram t.d. í ljóði Natasha Le Bel hér aftast (f. 1977) þar sem kvenlíkaminn verður ekki upplifaður, ekki einu sinni þegar í hlut á kona með fulla sjálfsvitund, nema í brotum eða jafnvel í bútum innan í kistu dauðs líks hennar. Einnig má í ljóðunum sjá þróun frá samruna við náttúruna í hefðbundnum skilningi yfir í samruna við afurðir tækninnar, eins og ljóð þeirra Charles Bukowski, Allens Ginsbergs og Lucille Clifton bera með sér. Við lesturinn er að mínu mati óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér hvenær hugtakið náttúra fær í ljóðlistinni einnig á sig blæ þess sem maðurinn vinnur eða framleiðir. Jafnvel mætti spyrja hvenær súpudós hættir að vera eingöngu tækniafurð og verður einnig náttúrufyrirbæri.
Ef lesandinn finnur til þess við lesturinn að fyrirbæri sem við tengjum yfirleitt við tækni, borgir og skipulag hafa tekið á sig blæ hins náttúrulega, t.d. þegar vegrið við þjóðveginn verða svuntur (hjá Clifton), ef hann telur ljóðin sýna þegar á líður einhvers konar samruna við þessa tæknilegu hluti, jafnvel þótt samruninn sé erfiður eins og þegar troða skal ávölum kvenlíkama í ferhyrndan kassa (hjá Le Bel), þá tel ég tíma mínum vel varið og að markmiðinu sé í reynd náð.
Ég vil sérstaklega þakka Baldvini bróður mínum, Ágústi Hirti Ingþórssyni vini mínum og Ólöfu Pétursdóttur þýðanda fyrir vandlegan yfirlestur og margvíslegar ábendingar, um leið og ég minnist nemanda míns og samstarfskonu sem lést langt fyrir aldur fram, Rögnu Garðarsdóttur, sem ég lofaði á sínum tíma að þýða ljóð Mary Oliver, „Vinna“.