Fræði

Garibaldi er menntaður bókmenntafræðingur. Hann lauk BA prófi frá Háskóla Íslands árið 1989 og fór til framhaldsnáms við University of British Columbia (UBC) í Vancouver í Kanada árið 1990. Þar lauk hann MA prófi árið 1992 og stundaði síðan doktorsnám til ársloka 1995 en lauk ekki prófi. Hjá UBC var hann á hæsta námsstyrk öll árin.

Strax í BA námi hóf Garibaldi fræðistörf og ritstýrði með öðrum nemendum riti með þýddum fræðiritgerðum eftir valinkunna fræðimenn eins og Walter Benjamin, Georg Lukács og þá W.K. Wimsatt og Monroe C. Beardsley, Ismar. Raunsæi og marxismi, sem kom út ári eftir að hann lauk BA námi, eða 1990. Ári seinna, þegar hann var í fríi á Íslandi frá náminu erlendis lauk hann ritstjórn á verkinu, Spor í bókmenntafræði 20. aldar, en með honum unnu að því þáverandi kona hans Kristín Viðarsdóttir, og Kristín Birgisdóttir, en sumir textarnir í bókinni hafa lengi verið notaðir við kennslu í Háskólanum.

Garibaldi safnaði greinum sínum um íslenskar bókmennir í bókinni Sögunarkarl, goðverur, sjálf, sem kom út árið 2015. Greinarnar eru frá árunum 1988 til 2015 og fjalla meðal annars um skáldsögurnar Leigjandann eftir Svövu Jakobsdóttur og Tangasögur Guðbergs Bergssonar, og vestur-íslenskar bókmenntir sem Garibaldi safnaði úrvali úr og gaf út með ítarlegum formála í ritinu Íslandslag. Íslensk-kanadískar bókmenntir frá 1870 til nútímans sem kom út árið 2006.

Í námi sínu lagði Garibaldi áherslu á teoretíska nálgun, ekki síst út frá hugmyndum Jacques Derrida um afbyggingu og Michels Foucault um vald og ögun, þekkingu og kynhneigð, en einnig hugmyndum Juliu Kristevu og Jacques Lacan um þróun og þroska sjálfsverunnar. Hefur Garibaldi einnig þýtt verk þeirra allra nema Lacans, mismikið þó, m.a. greinar eftir Derrida og Kristevu í Spor í bókmenntafræði 20. aldar, greinar eftir Foucault í Útisetur. Sambandi sturlunar, geðlækninga og bókmennta sem Matthías Viðar Sæmundsson ritstýrði og Alsæi, vald og þekking sem Garibaldi ritstýrði, en einnig þýddi hann bók Derrida Sporar. Stílar Nietzsches sem kom út árið 2003. Í síðastnefndu bókunum eru greinargóðir formálar Garibalda um helstu drætti í hugmyndum Foucaults og Derrida og þar með um ýmsa helstu hugmyndastrauma í bókmenntafræðum síðustu áratuga.

Um fræðirit Garibalda sjá ennfremur Þýdd rit og Ritaskrá.

Nánar má lesa um fræðirit hans með því að smella á myndirnar hér að neðan:


Ýmsir höfundar. Spor í bókmenntafræði 20. aldar. Frá Shklovskíj til Foucault. 226 bls.

Samtals 10 höfundar. Garibaldi skrifaði formála og þýddi 2 greinar


Jack Derrida. Sporar. Stílar Nietzsches. 94 bls.

Ritstjóri Torfi H. Tulinius.

Garibaldi skrifaði formála um þýðinga- og kynhneigðarfræði Derrida, og hugmyndir hans um hugmyndir Nietzsches um konur og þýðingar, „Meyjarhaft Derrida“.


Michel Foucault. Alsæi. vald og þekking. Úrval greina og bókakafla. 240 bls.

Þýðendur voru Björn Þorsteinsson, Garibaldi og Sigurður Ingólfsson.

Garibaldi skrifaði ítarlegan formála, „Alsætt líkamsvald. Um Michel Foucault“.


Ýmsir höfundar. Íslandslag. Íslensk-kanadískar bókmenntir frá 1874 til nútímans. 381 bls.

Ljóð, smásögur og skáldsögukaflar eftir 19 höfunda. Einnig ítarlegur formáli eftir Garibalda, „Íslensk-kanadískar bókmenntir í gegnum tíðina“.


Garibaldi. Sögunarkarl, goðverur, sjálf. Greinar um bókmenntir. 349 bls.

14 greinar auk nokkurra ritdóma um bókmenntir, íslenskar og vestur-íslenskar. Einnig stuttur „Formáli“ Garibalda.