Íslandslag

Íslandslag. Íslensk-kanadískar bókmenntir frá 1874 til nútímans. GB útgáfa. 2006.
381 bls.

Ritstjóri: Garðar Baldvinsson.

Mynd á framhlið Baldvin Baldvinsson.

15 höfundar sem skrifuðu á íslensku og 4 sem skrifa á ensku (Garðar þýddi úr ensku).

 

Íslandslag er safn ljóða, smásagna og skáldsagnakafla eftir íslenska innflytjendur til Kanada og afkomendur þeirra allt frá árinu 1870 þegar vesturferðir hófust fyrir alvöru frá Íslandi.
     Strax við komuna til Vesturheims þurftu Íslendingarnir að endurskoða heimssýn sína, tungumál og menningu. Í bókmenntum urðu líka miklar breytingar, t.d. kom borgin með mannhafi sínu og firringu miklu fyrr inn í bókmenntir vestanhafs en hér á landi.  Einnig fengu hversdagslegir hlutir eins og rósin nýja merkingu.
     Fáfræði Ameríkumanna um Ísland birtist t.d. í spurningum um Íslendinga sem eskimóa og hvort þeir hafi komið alla leið með lest. Skáldin tjá ást sína til Íslands og Kanada og fjalla um örlög þeirra sem minna máttu sín. Saga Íslendinga í Vesturheimi býr yfir mikilli fjölbreytni sem kemur vel fram í bókmenntum þeirra.

Í formálanum „Íslensk-kanadískar bókmenntir í gegnum tíðina“ heldur Garibaldi því fram að íslenskir innflytjendur til Kanada hafi átt erfitt uppdráttar af því að menningu þeirra á Íslandi var í mörgu ábótavant. Þeir þekktu ekkert til borgarmenningar, stærðar landsins, jarðyrkju í nýja heiminum né höfðu þeir áður kynnst frelsi í trúmálum eða stjórnmálum, svo ekki sé minnst á frelsi til fjölskyldumyndunar.

 

Allt frá miðri átjándu öld höfðu Evrópubúar flykkst til Ameríku. Frá Norðurlöndum fóru menn að ferðast í hópum um 1830 þegar landnám í Bandaríkjunum var að komast vestur fyrir Michigan-vatn og Mississippi-ána. Tilkoma járnbrauta og gufuskipa um svipað leyti auðveldaði mjög öll ferðalög um heiminn.

 

Þegar frímerkið kom til sögunnar árið 1840 batnaði fréttaflutningur allur til mikilla muna í heiminum því allir gátu þá sent vinum og vandamönnum bréf fyrir smáura en ekki kýrverð eins og áður hafði tíðkast.

Hér er hægt að nálgast formála ritstjóra, „Íslensk-kanadískar bókmenntir í gegnum tíðina“.