Garibaldi – ættir og uppruni

Ég er fæddur í Reykjavík. Foreldrar mínir eru ættaðir úr Garðinum, Álftanesi, Reykjavík og af Hornströndum.

Mamma 2001

Móðir mín, Halldóra Guðmundsdóttir, fæddist í Reykjavík 13. desember 1926 og lést 1. júlí 2003.

Hún ólst upp í Verkamannaskýlinu og lauk barnaskólaprófi frá Miðbæjarskólannum. Hún fór ung að vinna, fyrst í vist um 14 ára aldur en síðan m.a. á Kleppi og Hólum í Hjaltadal þar sem hún kynntist föður elsta sonarins, Sævars Jenssonar. Hún var síðan ráðskona í sveit með eitt barn í 2 ár, m.a. að Steinum undir Eyjafjöllum og á Austfjörðum. 

Pabbi 1980

Faðir minn, Baldvin Lúðvík Sigurðsson, fæddist í Hælavík á Hornströndum 26. janúar 1928 og lést 12. maí 1990. 

 

Hann ólst upp í Hælavík en flutti 8 ára með foreldrum sínum á Hesteyri þar sem hann gekk í Barnaskólann árin 1937 til 1942. Hann fór á sjóinn 14 ára (sumarið eftir að hann lauk námi við Barnaskólann) sem hálfdrættingur og ári seinna var hann ráðinn á fullan hásetahlut og held ég að það hafi verið mesta stolt hans um ævina. Hann flutti 18 ára með fjölskyldunni í þjóðflutningunum miklu haustið 1946 til Keflavíkur en færði sig fljótt til höfuðstaðarins og bjó þar síðan. Hann vann alla ævi erfiðis- og stritvinnu. Hann missti heilsuna 1973 vegna slyss á Reykjaborginni í Norðursjónum en fékk árið eftir hjartaáfall sem gerði honum erfitt um stritvinnu. Vann hann um hríð í byggingarvinnu en um 1978 gerðist hann vaktmaður hjá Eimskipum og vann síðan við eftirlit í Sundahöfn til dauðadags. 

Nemendur og starfsfólk við Barnaskólann á Hesteyri 1939.
Myndin frá Skjalasafni Ísafirði og líkast til tekin að vori þegar starfi lýkur.
Ég þykist þekkja Kristján bróður pabba (á 15. ári) við hlið kennaranna.
Þrír kennarar (??) og 20 nemendur.
Þarna kunna að vera 5 börn úr Hælavíkurfjölskyldunni: Kristján 14 ára, Ingólfur 12 ára, Baldvin 11 ára, Guðmundur 10 ára og Guðrún 8 ára.
Þekkir einhver þessi börn þarna? Þekkir einhver fleiri af þessu fólki? Má svara í tölvupósti til mín.

 

Þau hjónin kynntust líklega 1951 í gegnum Fríðu vinkonu hennar frá unglingsárum, þ.e. Svanfríði Símonardóttur, konu Ingólfs bróður pabba. Þau hjón bjuggu þá í húsinu Lág fyrir enda JL-hússins við Hringbraut 121 vestast í Reykjavík (við endann á húsinu sem ég bý núna, Grandaveg 42a) – en fluttu síðar austur í Blesugróf og bjuggu þar síðan, á ystu mörkum bæjarins. Faðir minn gekk Sævari, elsta syni móður minnar, í föðurstað og sleppti aldrei af honum föðurhendi sinni. Þau eignuðust 7 börn, það fyrsta 1952 og seinasta 1963. Næstyngsti sonur þeirra, Arnór, fór vikugamall í fóstur til systur pabba, Boggu (Sigurborgar Rakelar) og manns hennar Jóhanns Björgvinssonar í Grænuhlíð við Reyðarfjörð – Arnór býr núna í Port Angeles í Washington fylki Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni. 

 

Foreldrar mínir bjuggu á nokkrum stöðum fyrstu árin, m.a. í Selbúðum vestur við Ánanaust. Haustið sem ég fæddist, 1954, fluttu þau í Laugarneskamp 16a í Reykjavík og bjuggum við þar í 4 ár en fluttum að Ásgarði 141 í smáíbúðahverfinu 8. desember 1958. Pabbi vann flest í smíði íbúðarinnar, lagði rafmagn, pípulagnir, múraði og málaði, með hjálp Ingólfs bróður síns og fleiri vina og vandamanna sem mér er ókunnugt um hverjir nákvæmlega voru. Bjuggu þau þar í 20 ár en fluttu síðan að Bergstaðastræti 43a þar sem þau bjuggu er faðir minn lést 1990 og hélt móðir mín áfram þar um nokkurt skeið. Hún flutti 1997 í Lönguhlíð 3 og 2002 í hjúkrunarheimilið Sóltún í Reykjavík og bjó þar seinasta skeiðið. 

 

Laugarneskampurinn. Við bjuggum ekki í bragga heldur kofa sem var áfastur einum bragganum.
Ekki er til mynd af þeim kofa. Deildum við útikamri með fleiri úbúðum.
Mamma talaði oft um að kofinn hefði verið 18 fermetrar, eða jafn stór og stofan í Ásgarðinum.

Laugarneskampurinn. Við bjuggum ekki í bragga heldur kofa sem var áfastur einum bragganum, eins konar afbygging.
Ekki er til mynd af þeim kofa. Deildum við útikamri með fleiri úbúðum.
Mamma talaði oft um að kofinn hefði verið 18 fermetrar, eða jafn stór og stofan í Ásgarðinum.

Þau hjón misstu vorið 1980 tvo syni sína, Sævar og Þóri, þann elsta og yngsta, með fimm vikna millibili. Var það þeim mikill harmur og held ég að þau hafi aldrei jafnað sig á þeim missi.

Ætlunin er að setja hér á vefinn pistla um forfólk mitt og stuttar lýsingar á aðstæðum þeirra.

Myndirnar hér eru fengnar af Facebook flestar en mér hefur stundum láðst að skrifa hjá mér hver hefur sett þær inn hverja fyrir sig, því miður. Vona ég að fólk taki hér viljann fyrir verkið.

Foreldrar móður minnar voru Guðmundur Magnússon og Sigríður Helgadóttir.

Afi var fæddur 10. júlí 1876 og lést 15. september 1957. Amma var fædd 16. september 1889 og lést 18. mars 1980. Þau giftust 17. nóvember 1906 og fögnuðu gullbrúðkaupi sínu hátíðlega árið áður en hann lést.

Guðmundur afi og Sigga amma á gullbrúðkaupsdaginn 17. nóv. 1956, hún 67 ára og hann 80 ára.
Fjölskyldan samankomin í Höfðaborginni að samfagna þessum áfanga ásamt nokkrum gestum.
Garibaldi var of ungur til að vera á myndinni en unga fólkið í kringum hjónin eru frá vinstri, fremst: Hólmfríður, Ellen eða Anna María, Hilmar í hvítu með slaufu, Gúndi, Sævar, Geiri og fremst líklega Sigþór.
Í röðinni fyrir aftan þau og Hilmar eru frá vinstri: Ella, Ninna, Lóa hans Sigga, Guðmundur Pálsson, Denni vinur Hilmars, við hlið Hilmars er Ester, þá dóttir Magnúsar í Dal bróður afa – líklega Helga eða Aðalheiður –, Mæja og loks Rakel í Dal.
Í efstu röð eru Palli, Maggi, Leander, Baldvin pabbi minn, Magga, Dóra móðir mín, Lilla, líklega Bjarni og Skarphéðinn.
Myndin birtist í bókinni Reykvíkingar. Fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg, eftir Þorstein Jónsson
(4 bindi, 2011-2012).
Jóna frænka (dóttir Möggu og Bjarna) hjálpaði mér að þekkja flest fólkið á myndinniog kann ég henni miklar þakkir fyrir.

Móðurömmuættin flutti af Rangárvöllum fyrir miðja 19. öld vestur í Keflavík og á Rosmhvalanesið suður af Garði. Er næsta víst að flutningar þeir hafi verið á tveimur jafnfljótum og tekið nokkra daga hjá hverjum og einum, enda yfir margar stærstu ár landsins að fara, straumharðar og breiðar, mikla farartálma á þeim tímum. Foreldrar ömmu, Sigurður Helgi Jónsson og Halldóra Sigurðsdóttir, fluttu síðan úr Garðinum til Reykjavíkur sumarið 1901 í litlum árabát, líkast til sexæringi sem langafi notað til sjósóknar. Leiða má getum að því að sjósóknin hafi verið hætt að gefa mikið af sér og að lífshættan hafi hreinlega verið orðin of mikil fyrir fjölskylduna enda fóru bátar hver af öðrum í sjóinn um aldamótin 1900. Amma var elst barnanna, fjögurra dætra, tólf ára þetta sumar. Þær Eyja, næstelsta dóttirin þá ellefu ára, gengu úr Garðinum og tók ferðin tvo daga. Er það fræg saga í ættinni, svo merkileg og ótrúleg fyrir börn nútímans að hún er orðin þjóðsaga sem fæstir leggja víst trúnað á lengur.

Amma fæddist á Kvíavöllum hjá Kirkjubóli í Garði. Eftir að fjölskyldan flutti til Reykajvíkur árið 1901 var búið í kotinu í nokkur ár en síðan lagðist það í eyði; einnig var búið þar í stríðinu en svo urðu Kvíavellir eyðibýli á ný. Amma og þær systur skruppu þangað ásamt mörgum í ættinni árið 1965 og var þá tekin þessi fræga mynd (ljósm. Valgeir Backman) af systrunum frá Kvíavöllum í hrunadansandi dyrum kotsins:

Frá vinstri: Sigríður, Björg (Bagga), Jónína Salvör Backman (Jóna) og Einarína Eyrún (Eyja) Helgadætur.
Foreldrar þeirra, (Sigurður) Helgi Jónsson (1863–1946) og Halldóra Sigurðardóttir (1853–1938) bjuggu á Kvíavöllum frá 1888, er þau giftust, til 1901 er þau fluttu til Reykjavíkur.

Kvíavellir eiga sér reyndar lengri sögu í ættum mínum, því móðurafi og -amma Siggu ömmu, þ.e. Sigurður Jónsson og Björg Guðmundsdóttir langalangafi og -amma mín, fluttu árið 1854 úr Vetleifsholtshverfi á Rangárvöllum, vestur á Rosmhvalanes og bjuggu þau þar fyrstu árin í Stöðulkoti, en frá 1857 bjuggu þau á Kvíavöllum uns Sigurður lést árið 1870, en þá flutti Björg að Kirkjubóli, næsta bæ við Kvíavelli, og var þar fyrst vinnukona en síðan bústýra uns hún lést 1895.

Í dag er Snorrabúð stekkur, kotið aðeins hálfgrónar tóftir eins og sést á þessari mynd af mér í rústum Kvíavalla, svo að stærðarhlutföll sjást allvel (ókunnur bílstjóri tók myndina árið 2013):

Garibaldi við rústir Kvíavalla árið 2013.
Í baksýn eru Hafurbjarnarstaðir.

Föðurætt afa á líka rætur að rekja á Rangárvelli en hafði í nokkrar kynslóðir búið í Mosfellssveit þar sem afi afa var hreppstjóri í byrjun 19. aldar. Móðurafi afa var hins vegar hreppstjóri Seltjarnarneshrepps í byrjun 19. aldar og bjó lengi á Lambastöðum þar (nú Lambastaðabraut 10). Foreldrar afa, Magnús Þorsteinsson og María Magnúsdóttir, bjuggu víðs vegar á Mýrum og í Borgarfirði. Afi fæddist á Heggstöðum í Andakíl en fjölskyldan flutti á Lambastaði í Bessastaðahreppi úti á Álftanesi þegar hann var eins árs. Bjó fjölskyldan síðan á nokkrum bæjum þar á vestanverðu Álftanesinu en faðirinn lést er afi var tíu ára og móðirin er hann var fjórtán ára gamall. Þá voru þeir bara tveir bræður eftir og unnu áfram um hríð á Álftanesi sem vinnumenn á ýmsum bæjum. Magnús bróðir afa (fæddur 1867, dáinn 1934) flutti til Eskifjarðar 1895 og bjó þar næstu árin og giftist þar Guðfríði Guðmundsdóttur 1899. Eignuðust þau 5 börn og komust 3 á legg. Afi var áfram á Álftanesinu en flutti til Reykjavíkur aldamótaárið, 24 ára gamall, og reri um skeið til sjós með Sigurði í Görðum við Ægisíðu.

Magnús bróðir afa flutti frá Eskifirði til Reykjavíkur árið 1902 og hóf þar störf sem skósmiður en afi bjó hjá honum og Guðfríði konu hans á nokkrum stöðum í Reykjavík og var skráður námsmaður, þ.e. í skósmíði hjá Magnúsi, áður en hann hóf búskap með ömmu minni árið 1906. Gerðist afi þá aftur sjómaður og lærði m.a. til kokks af enskum bryta og er talinn fyrsti lærði kokkurinn í íslenska flotanum. Eftir að starfa einnig sem vaktmaður eða næturvörður í ýmsum verslunum og fyrirtækjum í miðbæ Reykjavíkur og loks sjómaður einnig gerðist afi fyrsti forstöðumaður Verkamannaskýlisins í Reykjavík 24. febrúar 1923. Þau hjónin ráku síðan Skýlið til ársloka 1949 þegar afi var 73 ára og gersamlega farinn að heilsu. Bjuggu þau seinustu árin í Höfðaborg 28. Afi lést 1957 og bjó amma enn um hríð í Höfðaborginni en flutti árið 1960 til Magnúsar sonar síns og bjó þar til dauðadags 1980.

Magnús og Guðfríður skildu og flutti hún til Kanada 1913 og bjó þar með þremur börnum þeirra og syni sem hún átti frá fyrra hjónabandi. Tóku þau þar vestra upp ættarnafn fyrri manns hennar, Hansen. Guðfríður lést 1944. Magnús giftist síðan Helgu Grímsdóttur og bjuggu þau síðast í Dal í Reykjavík, rétt austan við Laugardalshöll, en eftir lát hans 1934 bjó Helga þar með börn þeirra uns hún lést 1986. Eignuðust þau átta börn sem öll komust upp.

Sagt er að afi hafi verið fastagestur á veitingastað sem amma vann á þegar hún var 16 ára og hann 29 ára. Þegar hann sá hana í fyrsta skipti sagði hann við félaga sinn: „Þessi stúlka verður konan mín“. Fór svo að ári seinna, 1906, giftust þau, eignuðust fyrsta barnið 1907 og urðu börnin átta talsins. Eitt, Magnús yngri, misstu þau á fyrsta ári 1918 en Guðrún Jónína lést í janúar 1935 aðeins 25 ára úr magasjúkdómi eftir langa baráttu.

Ég orti ljóðið „lýsiglóð“ til minningar um afa í bók minni höfðaborg. Hægt er að lesa og hlusta á ljóðið hér.

Sigþór frændi hefur búið til einkar fínan og fróðlegan vef um Verkamannaskýlið og starf þeirra afa og ömmu þar.

Foreldrar föður míns voru Sigurður Sigurðsson og Stefanía Guðnadóttir. Sigurður Sigurðsson afi minn fæddist 28. mars 1892 á Læk í Aðalvík, flutti í fóstur að Höfn í Hornvík 6 mánaða hjá Guðfinnu Arnórsdóttur móðursystur sinni og manni hennar Kristjáni Jónssyni, og síðan með þeim í Hælavík aldamótaárið. Fósturforeldrar hans fluttu að Búðum í Hlöðuvík 1920. Hann lést 9. maí 1968. Stefanía Guðnadóttir amma mín fæddist 22. júní 1897 í Hælavík og lést 17. nóvember 1973.

Stefanía amma og Sigurður afi um 1965.

Þau hófu búskap í Hælavík 1917 þar sem þau höfðu lifað í sátt og samlyndi í 17 ár. Er til saga sem afi skrifaði í blað um það þegar hann sá ömmu fyrst er hann flutti í Hælavík 7 ára gamall. Hreifst hann yfir sig af þessari litlu hnátu. Þau eignuðust 13 börn en tvö létust vofeiflega, Sigurður 14 ára 1934 eftir bjargslys – hann lifði í 2 vikur og veinaði allan tímann af kvölum – en Guðni Kjartans (Sigurðsson) af voðaskoti 10. mars 1936. Olli síðara slysið miklum hamförum í fjölskyldunum tveimur í Hælavík og ríkti í áratugi alger þögn um þetta voðaskot sem varð til þess að fjölskyldan flutti frá Hælavík til Hesteyrar sumarið 1936 og bjó þar næstu tíu árin eða þangað til allir íbúar Hornstranda ákváðu sameiginlega að flytja allir í senn brott af svæðinu og leggja það þar með í eyði, vegna sinnuleysis ríkisstjórnarinnar sem vildi ekki leggja fram fjármagn í samgöngur, vegi eða hafnir, ekki frekari símalagningu né stuðla að betri þjónustu eins og lækna, presta eða jafnvel útvarps.

Fríða frænka lýsti brottfarardeginum listilega í bók sinni Meðan nóttin líður  (1992), sem segir frá föðurætt minni og sambandi Fríðu og móður hennar. Bína hefur aftur á móti lýst lífinu í Hælavík í bók sinni Í barndómi  (1994). Þórleifur Bjarnason hefur lýst lífi og lífsháttum á Hornströndum m.a. í bókunum Hornstrendingabók (1943) og Hjá afa og ömmu (1960).  Kjartan Sigmundsson, bróðursonur ömmu, skrifaði sjálfsævisögu sína, Niðri á sextugu (2009), þar sem hann lýsir m.a. voðaskotinu og afleiðingum þess fyrir hann en kaflinn heitir „Þögnin  þungbæra“ (bls. 34-36). Segir hann að Guðni hafi látist á leið til læknis á Hesteyri.

Afi og amma fluttu frá Hesteyri til Keflavíkur og bjuggu þau þar til dauðadags. Systkini pabba, Sigga, Bogga og Gummi, settust þar að einnig en hin dreifðust um borgina og víðar. 

Afi og amma með flestum barnanna árið 1948, tveimur árum eftir þjóðflutningana miklu.
Fremri röð frá vinstri: Dísa með Guðna Kolbeins, afi, amma og Gunna, en Fríða og Guðný fyrir framan.
Aftari röð: Bogga, Kristján, Sigga, Ingólfur og Bína.
Á myndina vantar þá bræður Gumma og pabba.

Ég bar ekki gæfu til að kynnast foreldrum pabba neitt. Þau heimsóttu okkur held ég tvisvar inn í Ásgarð og ég heimsótti þau aldrei. Þegar þau létust voru þau mér eiginlega framandi og nánast ókunn. Kynni mín af þeim hófust ekki fyrr en fyrir nokkrum árum þegar ég hóf miklar og víðtækar ættfræðirannsóknir í tengslum við sálgreiningarmeðferð mína á árunum 2015-2019. Þykir mér það núna mikill missir að hafa ekki náð að kynnast þeim í lifanda lífi en aftur mikill fengur að hafa kynnst þeim með þessum rannsóknum hálfri öld eftir lát þeirra. 

Föðurætt mín hafði um aldir búið á Hornströndum og í nokkrar kynslóðir í Hælavík, nema afi sem var tekinn þar í fóstur 7 ára gamall en fæddist á Læk í Aðalvík. Í Hælavík bjuggu þau við mikið hokur eins og aðrir öreigar í landinu, með fáeinar skepnur en tugþúsundir fugla í bjarginu og sjálft Atlantshafið fullt af fiski.

Á öldum áður áttu Hornstrendingar mikil samskipti við erlenda sjómenn og eru frægustu sögurnar tengdar Böskum og vígum á þeim 1615 þegar Ari sýslumaður í Ögri safnaði liði til að strádrepa þessa sjómenn sem hann taldi – já einmitt, vera að ræna landann sjávarfangi og jafnvel ræna, rupla og nauðga fólkinu. Í myndinni Á hala veraldara. Hornstrandir og Jökulfirðir í nútíð og fortíð eftir Steinþór Birgisson segir m.a. að um aldir hafi bændur í Hælavík haft eina kú, einn hest og um 30 kindur. Fólkið lifði fyrst og fremst á eggjum og fugli í björgunum, Hælavíkurbjargi og Hornbjargi en að einkum hafi skarfakál um allar grundir forðað þeim frá vítamínskorti. 

Á þessu korti eru fáein atriði úr sögu föðurættarinnar á Hornströndum ásamt hreppamörkum og fleiru áhugaverðu.
Upplýsingarnar eru fengnar héðan og þaðan, úr bókunum sem ég nefni hér ofar og fleira grúski mínu.
Hornstrandir náðu líka lengra suður að austanverðu en kortið sýnir.

Bústaður afa og ömmu í Hælavík var að sjálfsögðu byggður úr torfi með veggjum sem hlaðnir voru úr grjóti, að aldagömlum sið. Bærinn er löngu hruninn til grunna og eru núna aðeins hálfhorfnar tóftir – og eldavélin – eftir eins og sést á þessum myndum:

Bjargey Arnórsdóttir frænka mín sagði á Facebook 28. nóvember 2016 um neðri myndina:
„Þessi eldavél á heiðurinn af matreiðslu á fuglakjöti, fiskmeit og ekki síst
suðunni á svartfuglseggjum sem héldu lífinu í okkar ágætu Hælavíkurætt.“

Bæjartóftir Hælavíkurbæjarins og eldavélin hennar ömmu árið 2016.

Gunnar Ásgeirsson maður Fríðu frænku teiknaði upp mynd af bænum eftir fyrirsögn Bínu frænku árið 1993. Bína lýsti bænum og nágrenni hans ásamt híbýlum og því sem íbúarnir höfðust að svona í daglegu lífi sínu í bókinni Í barndómi (1994). Guðmundur Hjartarson mældi þetta allt upp ásamt Gunnari, en Lúðvík Ögmundsson úr Hlöðuvík (dóttursonur Guðmundar bróður ömmu) endurteiknaði myndina á tölvutækt form árið 2005.

Sem fyrr segir var Hælavík tvíbýli, afi og amma bjuggu í öðrum hlutanum en Sigmundur bróðir ömmu ásamt Hjálmfríði Ísleifsdóttur í hinum. Í viðtali við Nýja tímann  21. júní 1956, lýsti Sigmundur hokrinu á Hælavík: „Á seinni árum hafði hvor bóndi um 50 kindur og 2 beljur og svo voru 2 hestar. Meira bar heyskapurinn ekki.“ Enginn svalt nokkurn tímann enda mikil björg í björgunum sem strákarnir byrjuðu að síga í um fermingaraldur. Svona leit semsagt bærinn í Hælavík út:

Þess má geta að afi byggði sér rafaflstöð við bæjarlækinn, fyrir aftan bæinn, eins og Bína lýsir í fyrrnefndri bók, til að knýja rennibekk sinn en afi var hagleikssmiður og smíðaði m.a. búsáhöld fyrir sveitunga sína víðsvegar á Hornströndum.

Það voru ekki margar myndir teknar af fjölskyldunni í Hælavík. Hér er ein slík sem tekin var árið 1934 sem sýnir ömmu og öll börnin það ár. Á henni eru báðir bræðurnir sem létust svo vofeiflega, Sigurður sem lést eftir hörmulegt slys við bjargsig síðar þetta ár, og Guðni Kjartans sem varð fyrir voðaskotinu tveimur árum seinna, 10. mars 1936. Og auðvitað vantar Fríðu og Guðnýju sem fæddust löngu seinna. Ári eftir að myndin var tekin flutti Bína að heiman, fyrst til Ísafjarðar og svo til Reykjavíkur. Eins og fleiri myndir kemur þessi frá Lúðvíki Ögmundssyni.

Amma og börn í Hælavík 1934.
Fremri röð f.v.: Baldvin Lúðvík, Guðmundur Jóhann, Guðni Kjartans, Guðrún Rósa, Sigurður Kristinn.
Aftari röð f.v.: Jakobína, (Ólafía) Ásdís, Stefanía Halldóra Guðnadóttir, Sigurborg Rakel.

Áasaga mín kemur síðar, þ.e. stuttar lýsingar á lífi og kjörum foreldra afa og amma í báðar ættir.

Ættir móður minnar eiga flóknari búsetusögu sem er líka að mörgu leyti dæmigerð fyrir öreiga þessa lands í gegnum tíðina, fluttu oft og langt, sem fyrr segir af Rangárvöllum en líka úr Flóanum, vestur á Reykjanes og í Mosfellsveit.

Foreldrar móðurömmu minnar bjuggu á Suðurlandi, við Selfoss og hjá Odda á Rangárvöllum, en fluttu til Keflavíkur og Rosmhvalaness. Móðir hennar var fósturbarn afa síns og ömmu á Parti í Vetleifsholti en við lát afans var hún send í vinnu skammt frá og gekk síðan vestur á bóginn nokkrum árum síðar, vann um hríð í Herdísarvík uns hún gekk áfram og endaði hjá móður sinni sem hún hafði aldrei séð, á Kirkjubóli hjá Garði. Föðuramma ömmu minnar var öðruvísi en aðrir krakkar í kring og var kölluð Sigga svarta vegna útlits síns. Hún er talin eiga baskneskan föður. Um fermingu var hún send til frænku sinnar skammt austur af Flúðum 60-70 kílómetrum í burtu og var vinnukona þar um kring uns hún sneri á heimaslóðir þar sem hún kynntist manni sínum og fluttu þau til Keflavíkur 1858, árið eftir að þau giftust.

Foreldrar móðurafa míns bjuggu um hríð í Borgarfirði – á fjölmörgum bæjum – en fluttu suður á Álftanes – og bjuggu þar líka á fjölmörgum bæjum. Foreldrar hennar bjuggu í Reykajvík en hans í Mosfellssveit og höfðu líka flutt af Rangárvöllum.

Mun ég í framtíðinni setja hér sögur sem ég hef sankað að mér um ættmenni mín og forvitnilegt líf þeirra, harða baráttu og sigra þeirra og okkar afkomendanna.