mátti borgin ekki vera rúðustrikað blað

mátti borgin ekki vera rúðustrikað blað  2003
Mynd á kápu er unnin af Garibalda.
Útgefandi Ásgarður.
108 bls.

Ljóðin skiptast í 7 kafla en eru númeruð, frá 1 til 48.

Ljóð bókarinnar byggja á reynslu skáldsins, einkum úr bernsku, og reynslu listakonunnar Rósku sem hét fullu nafni Ragnhildur Óskarsdóttir. Inn í þessa reynsluheima blandast atriði úr stjórnmálasögu síðari hluta 20. aldar, innlend en einkum erlend.

Róska fæddist 1940 en í fölsuðu vegabréfi sínu gaf hún upp fæðingarárið 1946. Árið 1954 lenti hún í slysi og varð flogaveik í kjölfarið og ferðaðist um Evrópu með föður sínum í leit að lækningu næstu árin.

Róska eignaðist son árið 1963 en þegar hún yfirgaf Reykjavík til að búa með manni sínum Manrico nokkrum árum síðar í Róm á Ítalíu skildi hún son sinn eftir í Reykjavík.

Róska var fyrst og fremst myndlistarkona en gerði einnig kvikmyndina Sóley (1978-1981) sem byggir á íslenskum þjóðsögum. Hún var róttæk í stjórnmálum og barðist með femínistum, vinstra fólki, stjórnleysingjum og jafnvel hryðjuverkasamtökum.

Róska tók virkan þátt í stjórnmálalífi í Reykjavík með gjörningum, sýningum, viðtölum, greinum, mótmælum og fleiri aðgerðum. Vann hún stundum náið með vinkonu sinni Birnu Þórðardóttur sem einnig var virkur aðgerðasinni. Í ljóði 43 er vísað í gjörning þeirra í Háskólabíói þar sem þær gerðu grín að Halldóri Laxness, sjálfu óskabarni þjóðarinnar og Nóbelsskáldi, en þær bentu m.a. á aðdáun hans á Stalín og hryllingsverkum hans í Sovétríkjunum. Um aldamótin var Halldór kosinn maður 20. aldarinnar á Íslandi.

Róska neytti eiturlyfja sem drógu hana til dauða árið 1996. Þá hafði hún misboðið líkama sínum svo að hann var orðinn algert hrak.

Garibaldi byggir margt í bók sinni á ævisögu Rósku og yfirgripsmikilli og vandaðri sýningu á verkum hennar í Nýlistasafninu árið 2000. Sýningin var haldin í samstarfi við Reykjavík–menningarborg. Hjálmar Sveinsson var sýningarstjóri.

Fyrrnefndur sonur Rósku, Höskuldur Harri Gylfason, hannaði bókina um hana og braut um:

Hjálmar Sveinsson (ritstj.) Róska. Hönnun og umbrot Harri. Ljósmyndir Guðmundur Ingólfsson … [et al.]. Þýðing á ensku Verba þýðingar. Reykjavík: Nýlistasafnið, Mál og menning, 2000.

Tilefni útgáfunnar er sýning í Nýlistasafninu í október 2000 sem lýsir lífi og list Rósku. Bókin er hönnuð af Höskuldi Harra Gylfasyni, ríkulega myndskreytt og víða komið við. Merkar greinar eru í henni eftir Guðberg Bergsson, Ólaf Gíslason, Birnu Þórðardóttur og Halldór Björn Runólfsson. Þá eru hér umræður um pólitíska list og möguleika hennar og viðtöl við Hrein Friðfinnsson og Einar Má Guðmundsson. Sannkölluð lífslistarbók. (Bókatíðindi)

 

Úr ritdómi um mátti borgin ekki vera rúðustrikað blað:
Morgunblaðið 11. janúar 2004, bls. 34
Úr óreiðunni renna þúsund fljót
Skafti Þ. Halldórsson.

„Segja má að ljóðabókin sé einhvers konar ljóðsaga þar sem þrjár kynslóðir koma við sögu og tengir skáldið ýmislegt í ævi Rósku við nútímann, t.a.m. hryðjuverk seinni ára og ekki síður persónuleg mál sín.“

„Sannast sagna þykir mér höfundur fulldjarfur og langt í frá alltaf smekklegur í þessari aðferðafræði sinni við yrkingar, ekki síst í lýsingum á núverandi ástandi Rósku í gröfinni.“

„[…] flæðandi myndsköpunin og vald skáldsins yfir tungumálinu og skáldskapnum [finnst mér] gera það að verkum að við höfum í höndunum bitastæðan skáldskap og á stundum býsna hugmyndaríkan og áhrifaríkan.“

Mynd undir textanum hér að ofan er tekin úr fyrrgreindri bók, Rósku, en þar er öllum gefin heimild til að nota myndir að vild.

 

mátti borgin ekki vera rúðustrikað blað

 


Bókin er tileinkuð minningu móður minnar sem var fædd og uppalin í Verkamannaskýlinu í Reykjavík

 

I   litla gula hænan


1
myrkrið kemur langt
              og mjótt rekur það út
                                 úr sér tungur tvær og tala
                                                þess bunast líkast ælu
                                                              ælen sí sigh segir það ég
                                                         ég kem hvort sem hafið
                           lemur reikult þangið áfram
              framandi daglúðrar dengjast
                                  um skáhallan drengja
                           kollinn og þrútinn kyrtill
                    í brjóstinu kannski mjólkur
                           hvítur viðkvæmur einsog sag
                    leysi konunnar viktoríu mjúku
              alhvass krossinn ristir þar fyrir

oddmjór blóðdropi skríður í líki
       brunnklukku undan steini
              umbreytist í termíta
                    göngu niður síðuna krossinn
       stendur hátt hnarreistur maður 
              sem er kona
                    í böndum
                           við þvertréð

vingsast fyrir vindi tímans
       gangar hans opnast
              fyrir þrýsting krossins
líktog rofin ígerð
       frá liðinni öld
              oddurinn sterki líður
                    fram sem elfan mikla
              blóðtakan syndlaus
       fremur heilsu
              merki dauðinn lífsins tákn að
                    afhjúpast á þessari filmu nú

2
 
Róska með sígarettuna
hlær feimin og freimuð
fertug óspjölluð ungmey
skjótandi á borgarana

ef þú þarft að selja þig
mundu þá að selja þig
dýrt Róska mín viva
la libertad blóð

úr páskalambinu drifið
á umbúðapappírsbrúna
slædsfilmu dúndrað
á veggi í skóla framtíðarinnar

uppreisnarkennarinn með vaxskegg
í teinstífum jakkafötum

ef þú kaupir kauptu þá
sterkt nafn einsog sagði
í caterpillarveitunni
spurðu ekki um heimsku
eða gáfur vera þín
tal úr frelsiskjaftinum
herinn í frí

3
 
Róska stjórnleysingjarnir
sem voru skotnir um leið
og móró lifa núna
á listaverkinu sem annar hefur
gjört úr gjörningi þínum
hengt þá upp á vegg með
kristi á hausaskeljastað

jafnvel þú
þurftir að fiska nöfn þeirra
upp úr ellibelgjum fjölmiðlunga
til að skrásetja í dagbókina þína

Róska hver borgaði silfurdali
opinberunarinnar
þegar þeir hrundu af stalli
líktog tjúgusvili hjá súrrealistum

einsog þú sagðir núandi
brjóst þitt á stólnum
með fallþyngd dilka
og barst fram hrygg
að nógu lélegur
fengi maður
lifað af list
í reykjavík

ónefnd ljóð
eftir auschwitz

4
 
nafn þitt Róska ætíð stafað árum
stjórnleysingi uppreisnar
seggur kommi afæta

Róska Róska Róska mig
langar samt að smíða til þín
brú sem væri ekki lengri en
bakið á mér eða bara handarbakið
utan um lófann sem mætti hætta
að leika lóló fimm og taka af
ástúð og hörku um móló
toff kockteilinn og sprengja í tætlur
borgarabrynjuna núna þegar ég er
á bullandi borgaratúr kominn
að kaupa mér eigið húsnæði
með milljón prósent þvílíku láni

Róska Róska hvernig gastu verið svona
töff og hvernig gastu verið svona
mjúk og hvernig gastu verið svona
klár Róska eða varstu bara svona
frjáls og hvernig myndirðu gera þig svona
í dag þegar allir þurfa að selja sig svona
og fyrirverða sig meira við að svona
prumpa í votta viðurvist
ég tala nú ekki um
á meðan þeir gera það


5
 
Róska þú varst alltof æst og ör
þú veist það er eitur í beinum okkar
við skildum þig ekki óþolinmæði
eftir byltingunni sem draga átti
fram umframgildi listarinnar
sem átti líka að vera fyrir fólkið
alveg eins og hveitibrauðið

en Róska litla gula
hænan er horfin
af spjöldum sögunnar
og þú komst aldrei

yfir brúna sem við hlóðum þér
úr hlutagildum veruleikastöngum
sem lengi voru grafnar
í iðrum borgaravitundar okkar
fluttar upp um víðar æðar
grunngerðarinnar
þjakaðar nú af þrengslum

er valdið hafa
blætisgildi verðbréfa
og væntinga

6
 
Róska brjóstin þín fallegu
eru nú slík dáyndismaðkaveita
þú orðin söluhæf og gætir lifað
af list þinni ef þú værir ekki
svona dauð ég veit þú hlærð og færð
mikið hóstakast sem gæti alveg
farið með þig þrjátíu peninga

var boðið í sölumyndina þína
geirvörtur nafli skapahár

slagorðin Róska sem þú dúndraðir
á vegg eru fyrir gýg einsog ljósið
sem þú skaust þar á gráan stein

og steinn einn kynni að segja
að eigi skyldi sköpum renna

7
 
og Róska litla barnið
sem blasti við á skjánum
alblóðugt hægra megin

maður sá glitrandi elfu
lífsins sem var fjöruð út
í námunda níkarakvavatns

þegar þú varst að gera þína
ógleymanlegu kvikmynd
sem ég man ekki núna hvað heitir

minnir á fjallasveitina þarna
nálægt nietzschestrasse
þar sem bændurnir hvítu

riðu frjálsir um héröð
ekki til kinda heldur indíána

tímavilltir án efa og
sögulausir á þessari eyju
í hafsjó þróunarinnar

handan landvættanna
þar sem fuglar afhjúpa
sköpunarmátt sköpunarsögunnar

er blómálfurinn enski kom
á sínum smávaxna veiðihundi
og sýndi óþróuðum frumbyggjum

hvernig kveikt er á eldspýtu
og skaut þeim svo skelk í bringu
með riffli en þó flaut þar
engin rauð elfa aðeins hafið

sem þið sandina bæði hafið
siglt um og hann dó í píslum
öðrum en þínum og gaf sigur
vegurum nafn sem unnu

á þjóð sinni sama böl og áður
á hötuðum mótstöðumönnum
þegar firringin var syndafall

snjórinn á skjánum
roða drifinn

8
 
og Róska það var í kfum
sem alræði öreiganna var og hét
sæluríkið á himnum

og það var á tímum juliu Róska
sem þrá mín samkvæmt sigmundi
gamla beindist að mömmu

ég fann mitt himnaríki
í kvennabaráttu
ekki fyrir völdum á heimilinu
heldur úti í samfélaginu á götunum

og fannst ég finna stálma í eigin brjósti
þegar börnin mín bæði
voru á því sama og ég þarna úti

kynlegur andskoti hugsa ég
þegar formalínið umvefur brottnuminn
kyrtilinn einsog lim á arinhillu
indíánaskyttanna forðum
heila húsmóðurinnar er konan skrifaði
krabbalegið lungað

og jarðskjálftakippur fór um aðra
rétt áður en þráðurinn slitnaði
fyrir þér og fjalirnar umluktu þig
innan í þessari jörð sem snýst
innan í sæluríkinu sem ég býst
við að rúmi okkur öll á endanum

meðan maðkarnir maula á okkur
eftir kvörðum sem gilda á tölvum
en varst þú ekki fyrst

til að skapa með þeim
listrænan litaheim
og hreina tvívíða ásýnd

með blóðlitu barni femínista hnefa
byltingarinnar sönnu í austri

9
 
og Róska í speglinum í morgun
sá ég mynd þína gnöguð brjóst
morkið holdeytt andlit
ég var ekki viss en milli okkar stóð
skýrum vararauðum stöfum

democracia og undir fn en
mig minnti að hann hefði
barið það með sínum æðri
manni í bókinni sem mælti
hann með áður en fínalinn
stóri leiddi hann undir lok

geðveikinnar sem var kannski
eins gott áður en sú hin stóra
með dolla og dollý frænku
skall á okkur kæra systir

og þú gætir verið mamma
með mjúka barminn sem er
mér allt og einhvern veginn
ekkert eins og honum
sem missti föður sinn svo
ungur í þessu kristilega húsi

sem hann mölbraut og víxlaði
auðmýkt fyrir vilja og vald
á svifflugi sínu með erninum
og nautnalegum vængbrögðum
milli stólpanna þar var hann
í sínu þverúðuga essi og sá
mynd mannsins í speglabrotum

og örvamæli hvatskeytanna
leiftra um líkamann
nú ber bein ein

heimsfrægt skegg vefjarþræðir
vaxnir úr samhengi

10
 
við hvasst horn á fleygturninum
þrýstir hvítur leysiblossi sér gegnum
ljósleiðara eftir ósæð borgarinnar beint
í gegnum sjón mína inn stystu leið
bylur á sjónhimnum er bregðast
við sem hvolfþök brottnuminna brjósta

og kraftbirting borgarsóla
skýst með hafgúandi hljómfalli mynda
um æðakerfi mitt og tauga hriktir
í grunngerð borgarkroppsins
sem seytlar um mig sem morgunsár

og Róska um mig fer unaðshrollur
í þrá svo ákafri þrá að búa við svona
heilsteyptan heim með naglföst tákn
og útskrifaðan líkama úr borg
sem byltingarþörf þín braut á bak aftur

Róska afhverju
var ekki nóg að guð væri dauður
á hiti leiksins líka
að ganga af mér dauðum

afhverju var nauðsynlegt
að tómið byggi í minni
óreiðu holdlegra hvata og vilja

afhverju mátti borgin ekki vera
rúðustrikað blað til að reikna
tvisvar tvo og fá út fjóra sem hanga

en nei ekki hanga
hví vitjarðu mín alltaf dauði

varstu einn af guðunum Róska þú ég
vildi ég gæti sagt að líkami
minn væri klónn af mér og gæti

stokkið út og skotið hann og gæti
lifað í miðaldalegri sátt með mörgum guðum
og það kæmust sjötíu og tveir englar á oddinn

þegar blossinn springur út Róska út sem feigð í auga
og minnist að fegurðin býr í auga sjáandans
og klónninn lifnar við hægri upphandlegg vantar

en Róska það er búið að vorkenna
og klisjukenna þetta sæberspeisaða myndmál
democracia libertad og rauðir kmerar

koma flengríðandi
á þúsundfættum skriðdrekum með eldvörpur
inn úr hornréttum blossa
undir tékknesku vori
sem björninn í austri brum
klippti og appólónískir ferðalangar
lögðu skítugan gifsknött á festingu
undir lögreglu heimsins
en jan palach hellir

í hægðum sínum bensíni yfir sjálfan sig
á torginu í prag sem tæpast
gæti verið við lækinn gamla

og man loks nú orðið
skáldsins um blauta púðrið
er hann tendrar friðarlogann

því fegurðin vekur ævarandi gleði
í minni líka karl úr breska vísindafélaginu
sem áður vakti töfrum gædda undrun og aðdáun
með álíka spýtu og nú logar glatt
í góðu hjarta en lögun borðs í parís
tefur friðinn Róska voru það ekki
kallinn á kassanum og samkundan úr herkastalanum
sem vörpuðu bjarma á torgið okkar

frekar en arabinn annarlegi
sem við limlestum
fyrir sakir trúarserks síns

 

II  fjandafæla

11
 
Róska
á meðan hann sat í stiganum
yfir leifturstríðinu
börðust þeir af hörku
gegn kúgurum í kongó

mannætusaga kviknar við atlot eitt
strákshugur óvitandi um eilífa endurkomu
tjaldið fangar sem heimspressa

barnsrödd brýtur skær á tvískeri
hann flýgur sem dúfa af kinnung
mergjað stökk og fergjað sinni
á tíunda bekk Róska

á svínaflóa önnur stál
og í paradís landsölumanna
bjóða skólar börnum Róska
að skella sér flötum
bera bók yfir höfuð sér
gegn nakasakivá líka frá arizóna

engin orðaskil greinast
sjáum ekki boðin brenna sig
eftir símum í börk ljósvíkingsins

svartir skuggar atómfuglsins
undir heilahveli svífur hann
yfir marglit þök í trú
mannlegri borg

Róska er sól
stendur í hæsta punkti
safnast strákar og stelpur
að horfa á góða gæja
slagta ljótum og illum
á tjaldi er fellur
um óttu

12
 
Róska
þú sást ekki
þessa fútúrísku stemningu
þetta kapítalíska harakiri
þegar þoturnar flugu inn í tvíturna
líkast etnískri fjallkonunauðgun
gynecomastia
margtekin frá mörgum hliðum
á skjánum er þeir hrundu
inn í eigið svarthol
sem afstæðið sjálft
félli um sig sjálft

fjölmennt við borð
köflóttur brúsi bollar og spil
ekki ljúfvínskýstíll eða gerníkumynd
á appólónísku stökki hans
eftir álfasögunni upp í myrkrið

móðirin leið úr sjónhorni
hann á speisaðri ferð
frá faldi í kví kví
að vöggu bróðurins efra
bláþráðargrátur alla að æra

atburðir hugsun hraðari
sem fallvatn niður í síma
að finna þráð til framtíðar
verndargrip gegn sóllátum
og öðrum blóðsúthellingum
sem þarf ekki að setja í samband
á ólýstum dúknum

þótt fátt sé betra en deyja vel
ekki gleyma því því

af rúðustrikuðu blaði Róska
blína boldangstölur á hann
biðjast vægðar undan eldmóðu
auga hans sem einrátt mótar
fjallrænar bylgjur að bera orðspor
hans eitt af öðru um bíódrögur
finst hann skapa þau brjóstasmáu
sjáöldur Róska í bálgulu
rykkilín og roðasteinar
og dauðinn sér um sína
ekki gleyma því því

13
 
Róska
akademískar óeirðir
fylltu hann bernskum eldmóði
þegar löggan fangaði
og myrti óminnug dagsins
er nafna þín róska parks svarta
neitaði að gefa sæti sitt hvítum
í strætó í montgomery alabama
og tilraun hans andvana
eldsins rán ljósleiftrið
á svarthvítri silfurþiljunni
gult einsog gamalt ástarorð
fullt af sýnd hluta og lágu hvísli
ekki hnífur á milli
handan tjaldsins þá lágværu nótt

í innri eyrum hans enginn annar
viltu leiða vininn þinn svo villist ekki
af réttri braut því ef þú sleppir
er ógæfan í hverri laut

óendanlega nákvæm bein
lína endalausra súpudósa
Róska það voru ringlandi gildi
undir iðandi hvítu hörundi hans
innanhúðar spenntur líkami
án miðs eina niðstund drengmóður

hamin vitund Róska rofin
orðlengir sýnir á blóðgulu tjaldi
aðþrengt andrými stöðugt
Róska í æðum dunur stunur
innrammað kyrralíf inndælt
uppúr móðurlífi friðarhafsins
ekki hnífur á milli

rissar upp freskar myndir á hvelveggi
með rafhvítri glóðarperu
sker á bláþráð í fálmandi þrá
í kviknandi kroppi
glitrandi myrkurperlur í hverri laut
Róska Róska Róska parks
himna lykur skapanánd

14
 
Róska hann var
ókunnugur galdrafári til forna
þó vottaði fyrir píslarsögu í  hótun
um að sauma barnsvarir saman
kannski svolítið galdrarykti
og móðuharðindi önnur í dag
synd hans fuglar í hennar sinni

ekkert varnarrit Róska
eða yfirburðir kynstofnsins
þegar nálin í undvörpum rauðfext
sem dálkur sprettir upp hans skinni

dropinn úr blóðinu þykka
og varanna hlýuggðarfljót
sogar með marrandi hissi
vitund vex hold rénar
hörund storknar í húmi
um filmunnar hamramma
skuggsjá væntingar
gulls ígildi

Róska veggir án sprungu
ekki smuga að smjúga þar inn
í misfelluleysi brá ödipus brandi
í eigið kyn og skildi við sjón sína
og stundin rann upp í logana
hefndin er sæt sé óvinur nær

því gat hún ekki gengið frá honum
sem þú Róska rafgrænn jakobsstiginn
einn til svefnsins í speglinum
ein mannsmynd í dyrum
sem stakar standa opnar
út í blámóðu blágresi skrýdda
þurrkuðu inni í plexígleri
sprunga berst óðfluga um
skínandi flötinn
bláblítt móðurauga í hverju broti
sem standi dyr opnar

15
 
fjandafælan vandasöm hér Róska
á þokubökkum þessa kaldadals
er hann sprettur úr straumi tímans
týndur í hemuðu mistri og brúðurin heila
ráðvillt í hauströkkri horfir á dag hans
vaxa sem net að veiða í orð
sem í sjónhverfðum jökli magnast
í lamandi myrkurkylfu
vinarins alvísa dauða

megnar ekki stríð
manninn að stækka

leyf mér að horfa í augu honum
Róska á borði kanónískt sjónarspil
þú sást hana jafn vel og ég
stynjandi upp stiga án handriðs
sem um svartar hraunnibbur
á leið frá heiðinni myrku vindþotur
fyrrum óframkölluð mynd hennar
hrapandi í annan tíma

þagnarveggur hans skriðnar
án mannfalls óminnishegri Róska á flugi
með bryndreka á friðartorgi úr útlagans huga

hestar og fuglar úr járni
hönd á lofti í hálfa stöng
nótt dregur skil milli daga

III  ný og niðdimm

16
 
Róska
í munni mér
þurr tunga þung

þegar veggirnir gráu hrundu
sló ég í rústinni nakinn ber
skjaldaður veröldin ný og niðdimm

mynd minni heilagri ábyrgð
hélt ég við brjóst mitt í móðunni
rykið í kring sest á ramma

bláar gufur mig berja af þrótti
hugdiskur þjappar myndir sem mást
hoppa í dansi svo kerfið allt frýs

mætti bregður Róska
ættin má standa
á munvegum

17
 
það tekur langan tíma Róska að deyja
og líktog sveigir af vitundarleið
ljósglit við götu
í haustríkum regnúða

þegar þú varst að mótmæla Róska

og storka hamsaborgurum
var ég enn að upplifa nýjan heim
finna fólk hans sýndarhulstrið
sem það passaði og varð til
fyrir augum mér fortíðarhreint
blað án sögu Róska

speglun sem stinnur berkaldur líkami
stríðnis­fellunnar
höfuð hátt á hálsi fellur
þétt en þungt að
um loftkenndan huga
líða fá orð

langan tíma tekur að segja fá orð
rasandi hulstur Róska
hverful skuggsjá í miðju hveli
um vistarverur
hugans sindra
úðaspeglar

nútíðin átti eftir að falla í stafi
spretta fram úr engu

blóð mitt og hold sköpunarverk
án fyrirmyndar

og tíðin sem þú attir kappi við
þessa stund á heiðinni myrku
hvött egghvössum sporum
sólbrýndra stafa

18
 
yfir mér eldskörp hnífseggin Róska
sveipuð dúnmjúku húmi og spjótalögum
á skelþunnum himnum sjónar

orðin glerbrotin krossar í síðu
rista á líknarbelg mennskunnar
og man ekki hvar fjallapúman líður

eins og hafgúa um skógarhlíðar
og könglar falla án hljóðs fjarri
eyrum mannanna er hlýða

á úrsvalar sögur af einhyrningum
og fágætum ferðalöngum þegar london
og england eru nöfn á nágrannabæjum
handan heimsins Róska Róska brúarstöplar
og vængirnir krossbundnir

gómsætir fingur gæla
við íðilgula maísstöngla
veit ekki afhverju

um hug minn hvarfla sýnir
og setningar úr fornri sögu
af harðráðri nauðgun

orðabrot
um bleyðiskap og getuleysi
skauta á hemuðu yfirborði lík
ama míns og riffilskot ferðalangsins
væri kærkomið hvílubragð

19
 
og Róska með steininum
fannst mér vera vitlaust gefið
þegar veggirnir hrundu yfir mig
strætisvagnar að springa
endurtekið án enda
og sprengjubrotin rufu varnir mínar

rístandi fyrir sögum í húð mína
sem minnti hreint ekki á pergament
þótt gul og aldeilis misfelld sé
brostnar varnir ruðu hold mitt
brostnum vonum

ekki var ég
ekki var ég margfallin skáldkonan
var ég ekki
var ég ekki faðir í hljóðamyndum tómleikans

og galt ég ekki galla minna
verði helgiréttarins að afsprengjunum
sem fyrir löngu
voru mér allt í veggleysunni

hvers mátti sín rómantískt hugarflug
gegn hráköldum steinreyndum
þar sem bakkus einn umturnar
helgileik móður

og fögnuður föður við barnsins brosi
verður fleinn sem má snúa
í þröngu slíðri
frá rifi að hjarta

20
 
og Róska þegar börnin
fylgdu móður sinni langt
inn í kjöl fjarskans
veggirnir í vistarverum þeirra tómir
hrópandi hvellar háðsglósur
stundum drynjandi
sem af háum heklubörmum
bjó mér ekki í brjósti
móðurást
er úr skotum gaus nálykt
af bræðrum mínum tveim
sem fórust ekki
sem fórust ekki á kili eða sprengisandi

nú riðu þeir í sprengimóð fram til orrustu
við mína traustbyggðu táknaveröld
þeystu á sorgarskeiði yfir allar brýr
hrundu öskrandi öllum vörnum

brustu kastalaveggir
engin frumleg eða vondjörf
sameining í aðsigi
Róska er mig greip klósigi
hruninna himna þeytti mér
sem soppi í fárviðri um loftið

hróp mitt gleyptu þrumur
gjörningahríðin líkust fjórða lífi
frá mínu eigin hvar var ég
í henni miðri heilahristingur
er náttúran upphefur örófa
leik með ósontilbrigði

nú riðu þeir
nú riðu þeir í sprengimóð

21
 
og Róska
þegar hann ætlar að ganga út
og skilja við allt taka veggir á skrið
móta hendur um hnífa svo blóð ýrir loft
úr krönum daunillir dynkir

en stjarfa setur að föðurleysi
og bak hans rýður þúsund og ein nál
sögum á annarlegri tungu orðin
eins og sprek í hússins ufsum
vaxin honum yfir höfuð
þrjú ex á skeljastaðnum
skorin út úr veggnum
þegar stund sannleikans lýkst upp

en honum opnast ekki sýn
á þessa opinberun

og rauðan dauninn yfirtekur þú Róska
bograndi við borð að hanna plakat
með nakinni konu ásýndar sem venus
blandin gyðju frelsis og hann hrekkur
upp við kyndil hennar í brjósti sér

og ramakvein úr myrku horni
þarsem börn hans sofa

við athugun brosa þau hljóðið mergsogið í eyra vera þess staðfest í minni
er þau klífa fjallið og finna þar hellana löngu með vanabindandi myrkri sem
uggleysið eitt afhjúpar og hann horfir á vin sinn á öðrum stað og tíma
munda haglabyssuna gegn kvöldmatnum fljúgandi snarsnúast að honum og
höglin gata hann eldgulan sem sigti hjá líða þróttmikil börn á skautum
einurð í lærdómsríkum hreyfingum hverfandi líkum í mannhafinu undir
blikki sem endurtekur upplýsingaröld diskósins og úr krönum daunrauðir
dynkir

22
 
Róska það var löngu síðar
að um salinn sópaðist rökkur
er sorg hans sótti að úr öllum
áttum og ásýnd hluta án misfellu
brast einsog höggstokkinn spegill

og brotin stóðu öll í honum
en sælan óx því nær
sem þau gengu og rjúpuhjartað
var alveg að ganga í gogg bróðurins
og svartnættið að flæða um æðar

er einhver karlfálki hjúpaði
hvelið og braut á bak okið

með viljann að vopni tók
klukkan að tifa á ný það er svo margt
ef að er gáð sem langar hann að reyna

þótt allt sé blekking tál og draumur
og fallnir turnar okkar sjúku borgar
kasti sólunum einni af annarri í síkið
utan um kastala hans sjálfs

en sumir Róska
sumir falla fyrir hendi sín sjálfs
örvæntir af annarlegum tungum
hvatskeytanna grængolandi

23
 
það var Róska
eftir að veröldin fæddist
að nýju með hetjum frá vorinu
sextíu og átta og um líkt leyti
og þú gekkst undir græna torfu

til móts við maðkana
að hann hóf sinn langa regndans
í von um að faðir félli
af himnum að vísa veg
um völundarhús sjónlínanna

þráðurinn var slitinn hvasst
hornið skyggði þessa borg
okkar sjálfstæðisdrauma
og hvorki mikjáll né jakob
fengu greitt
úr steingrárri þoku mynda
og faðirinn nálgaðist ekki
byggingar slúttu yfir

sem í afstæðri hugsýn hins
eina steins heimur genginn
snöggt úr burðarliði til liðs
við dauðagönguna Róska

spírur munu springa
og hver sagði aftur að fæðing
ætti sér stað klofvega yfir
opinni gröf hví hefurðu yfirgefið
mig faðir í minni miklu þrá
eftir nálægð sem feigðin ein ristir
í hold hans letrar þar ævi
án höfundarréttar eldblossi
úr miðjum sagna vegg

IV  tabula rasa
 

24
 
Róska
það voru engar rauðar herdeildir
þegar stétt slóst við stétt
á leikvelli hennar hjá gúttó

kvikar myndir úr bíósal dagsins
slógu hana ótta
á sýningu sérvitringanna
í mögnuðu skýlinu
þar sem oddur stígur fram
í víkingaklæðum krýpur
að knýta skóþveng sinn
með skrækdigru ópi
úr tímans djúpi

litla hjartað kippist til Róska
og í auga blossar dropi
springur út
er sá sterki stekkur
öskrið ærandi tryllt
og dúllarinn undir
mikið skáld er símon
blossandi fingur
og móðurepíkin lyftist á kreik
höndin lausa við kinn
sú frelsaða með vönd

verund Róska
og nístund

25
 
ekki eldur í arni Róska
ekki vera í slopp við borð
er hún rumskar
við fingurdrep á hurð

er það hönd mín sem ber
um hug hennar fer
og hún horfir í húmi
á hönd sína agndofa dofna
fuglinn á glugga

ekki meyr segir hún
aldregi meir

í dyrum dulúðug vera
höndin allsendis laus
sem kattarglott uppi yfir án auglitis
vofur kankvísar veifa
um hug hennar fer

heitt kann að verða
sjá borgarham vaxa
yfir ása og ramma

hönd án viðveru Róska
upp stígur ókennd angan
og óvænt samkunda
hér á bryggjusporði
barnafossar

26
 
listasafnið Róska að rísa úr drögum
lengra en dagsferð til holtsins
þarsem myndskáld mun kúldrast í risi
útilegumaður í burðarliði

svart tjald mín kæra og hvítar blúndur
hér á borgarmörkum
sjór og land í skuggadansi
slæða við dyr
næturþörf aftekur annað

stóra systir milli borða
sveipuð blámyrkri skikkju
táta litla pótintáta
horfa meðtaka eigi obláta

Róska
lítið skref fyrir mannkyn
en magnað fyrir litla hnátu

hendur í kross svo virðuleg
einsog sofandi einsog vaknandi
svona hvít Róska

ekki beint einsog í bastillunni
og engir til að móta ásjónu
í ódauðlega mynd

engin gnöguð möðkuð brjóst
bara læsandi grunur
um gleypandi svarthol
þarsem áður bjó önd

sem tinnusvart brekán hárið
lagt yfir brjóstið bifast það
um nóttina hefst hún upp
í tjaldinu leiksviðsins tignarleg

af kristalfonti litfagrir fuglar
hnita hringa sem magnast
fallöxi tímans opnar landsins mynd
fögnuður andans blúndur
í hennar sinni

27
 
hnigu orð að salti
dagsins rætur fálma um jörð
þurrkur megn og klakabönd

út úr rammakynngi Róska
stígur hnátan fram
á sinn brynjustapa
einræða dóttur sem móður

– skyldu undur þau og teikn
merkja nýja tíð
eftir að sá elsti var tekinn
og vandalausum færður
með mínum nauma vilja

skil að hann verður
undir minni þind
er nýtt að bærast
alveg að ærast
blóðið líkast
barnafossum
útúr lífi mínu miðju

höndin kippist að
sem eldi borin köldum
höfðaborgin dauðaleg um stund

hann með stafinn keikur
pikkandi í gólf
í miðri eigin líkvöku
leiðandi höndin mín

og allir þessir munnar heimta mat
einhvern veginn fyrirmunað
að tengja þessa tíð við mig

fóstri þessu má sá
í hvítu
koma fyrir
verð að bera
við að vera
sjúk á sinni
aðeins eitt
sem vil ég
ástin blind
sker

býðst eitthvað annað í veröld
sem klofnar
og bregður til beggja bana
og börnin
sem spútnikar um allt
um mig
en þyngdarmiðja mín
með þá lausu
komin í annan heim
með henni
sem vakti lík í tjaldi
forðum

kom að sækja þig
kvað draumveran
á fægðum spegli þetta kvöld

sá yngsti helblár
grét í hörðu myrkri
ég dokaði við í kví kví
og ekki kveið ég því því

rofnandi þráður
að hvítum fossi

pikkaði þessa nótt í gólf
sem ahab færi um þil
holskefluhrynjandi
hriktandi brot

       vogun
       vé

28
 
fýkur um ranninn í mistruðu kófi. litverptum klæðanna ham
hagsældar móðirin kastar. jöklanna hlýjustu bungur Róska
með hrímhvítri kvikunnar hvilft ljúkast upp náttsæjum augum.
í hálsmál hans kippir hún andstutt. um huga hans
bútast í köggla gaddfreðin beitningarsíldin.
byljandi sviptingar kófsins bera með sér allt annan tíma
er fetaði hún stíginn með dálk við hnakka hans reiddan

hverfist sem fyrr úr ramma
afturkvæmt hingað að ná í rakhníf
rista sundur hársbreidd er skildi þau að
og voðaskot úr minni liðið
við hörund frýs hnífsegg án sprettu

greiddi ég þér lokka
sér mig ei smásjáin

galtarins mikla lygna
í skauti smjörhvítra hlíða
skuggar þar efra líða
um bergsins dritlýstu syllur

m                      t
u                        v
n                        e
n                        i
v                        r
a                       
t                        u
n                       m
s                       
t                        v
a                        a
u                        r
m                      i
a                        r
r                       

              og síldin hún kemur
       í frosthörkum skúrsins
með hitasvækju kamínunnar
hann á netvængjum
              í marklausu svifi yfir eynni

sonurinn
       brosandi freska í huga
              sem fögnuð vekur
                    er hrekst ávalt inn
                           sem í slíður

              fiskarnir bíta ekki
       afhverju skyldu þeir
afhverju syngur í búrinu fugl

              högg
       mynduð síldin
skoppar um sviðið
                    í afskurði tímans
                           hvað er nú
                           betra en dauðinn
                           góði

fortíðin hengslast um hugann
       sporandi út grunn að framtíð
              sveipandi mótin
                    beiskum blæ
                         er háls
                        æð er
                 skorin

              bið
                        löng bið

         eftir blóði í þessu margritaða handriti sem veruleikur
þverskallast við að framfylgja. sárið náhvítt og bólgið. í speglinum
kóf. og ímynduð lína þvert um hug í húsinu tvílyfta orðalaust
þurrkuð út

loftnetum ofar
                        sem bátur svífi
                 á fágaðri báru milli rifja
                         í svans mynd af höndinni ungu
                        er hann treysti sér eigi að leiða
                 leiddur af vegi á leið heim án ledu
                         nær kvöldi og hvað gat hann gert
                    samanhertur í þessu hylki
              með beitu eina til yls
              og heitingar

í speglinum matta
       mynd andlits
              falls í spor
                    öskju

29
 
með rafbláan hnífsins odd við kverk. ranghvolfdum augum.
undrast ógnarkraft um blaðsins skaft. sem sjálfum sér fagnar
              og kveður sér hljóðs

finnur öflug slög hjartans. og blóðið dengjast
       til fjörefnaríkra lima í samhæfðum dansi
       eftir höfði annars fegurð að innan

blítt leikur oddur við húð. bælir skeggsins brodda. atlot sæl
sem opna gamla gröf og myrkrið boðar nýjan byr að brjóta
meginlönd á ný endurtekning hrein tabula rasa

              höggvandi högg
vandi í heitingar og fögnuður kallar fram á svefnþungu
tjaldi vökunnar daga tíðinda þeirra sem tíðust eru og
teljast tæpast með
              ljósastaura í sínum hversdags
                    dansi er bíóstjórinn skiptir

       aflið líkast fossi
                    sem fellur fram
                           af stórri vör
       með skelfandi drunum

fastur á hugans skjá sem bergsins hamri
                    með tíbráðum syllum
              og hreiðri fyglisins
                    guðandi á skjáinn
       aldregi meir
              karon í hvarfi
                    handan tjaldsins

       og í miðju kverkataki eggjandi hennar
nauts þráir hann að syngja óð
til dýrðar þessu reginafli
sem beljar út úr miðjum lífsins vegg
megnar raust hans enn
að stíga yfir volduga
              rödd skjálf
                    andans hærra

V  sveiflubil
 

 

30
 
Róska
nýbúar borga
kvikmyndræn saga
mögnuð og marghædd
í krosssaumi hennar innrömmuðum
kviknar ljósnæm framtíð

um ljóra lýsir úthaf breitt
sem lengstum varði og barði jafnt
steinar stundum grænir
ofar bæjarmoldum Róska
fínleg lína dregin um furðunnar strönd
framundan landið allt í millum
gætir langrar sögu
nætur heitur móðurfaðmur

Róska
í kjölfar stríðs skorti nýríka
hugarlund fyrir þröngan kost á heiði
með lokkandi soll lausan við list
lífsrými skorið við nögl
þau fylgdu straumi nýaldar
urð og grjót dag hvern
að höfuðstað
óslitnir barnsskór hans enn
á miðnesinu

annar vegur en þú gekkst
löngu síðar til sigurs Róska
á öðrum vættum ekki bein braut
hraun sem hægt er að týnast í
án frekari ummerkja
eins og bær hennar öld síðar
og ætt hennar horfin við stapa
helg vé girt af

festingin sem sátt
við sundraða tilveru
öld nýrra færa í garð

31
 
Róska hún var
syrgjandi glöð er hún minntist
árroða nýrrar aldar
á tjaldinu slitróttar myndir
hann bar til hennar
á opnum lófa um morgun
hún hugði að færi hann hjá
yrði furðuströnd hennar krúsey

um miðjan dag var roðabjart
og höndin hans á lofti
stillandi leitandi
hennar hófst upp í vindsins þrá

óraði ekki fyrir því sem skeði
sem þau væru veik á geði
er hann sveiflaði henni með
þeirri lausu í garðsins beð
fanst jeg finna til
fögnuður léttir sveiflubil

Róska á tjaldinu
í stein þrykktur her manns
hver skal að friðarósi stemma
á mörkum borgar og trúar

32
 
Róska
krummaskuðið bar hvorki frystihús né banka
og kannski hefði átt að verða bókfell
úr skónum sem báru hana um leirstokknar götur
sem vitrænt rauðhöfuð mældi líka
elskan hennar annar
Róska

og höfuðstaðurinn ber þau
ekki beint á höndum sér
vorboðinn ljúfi í fingrum hans
blik hans suðrænt ber
hana af þessum leiðum
þarsem sóleyjar vaxa við brún
og ingolf ber ekki enn
við himin úr glugga

rauðaráin ystu mörk sem á verndarsvæði
hins sjöunda dags og aðventan ber þau
inn í lönd hins nýja tíma

hendur á festingu senn kemur húsið
á sandfyllu gegn kalkofni horfinnar tíðar

kirkjuklukkunni
er hver ný stund Róska
ný stund

33
 
grasblöðin bylgjast í þeynum
á brauðfótum læðist morgunn um mela
bök þeirra systra bogin
og beygluð hjörtu fergjuð
eftir landburð af pokum frá hegra
hóllinn og holtið
um regnvota glugga
læknir og safn handan hóls
hverfisgatan annars í hvarfi

vegurinn Róska
inn að laugum um helgi
satt var hvert hennar fótmál
frá jarðsprengjusvæðinu heima
ungar með höndinni lausu
og úrræði að ofan Róska
þoka úr vegi hvert gat hún beðið

sérhver von siglutré bundin
og sírenur líða að eyra
hvað er að heyra uppi á ásnum

alþýðukonan þín Róska
án færis að iðka listir
kroppin af börnunum tíu
marsérar þvert um heitan dal
hönd þar engin að breyta
myrkri í ljós í fast land

óvissa dauðans
heima í höfn bíður
hegri hjá krummaskuði
hífandi glætu og yl

tóm tóm tóm
sem falli regn í mold
og smjúgi fleira í raka jörð
af ávöxtum þekkja þær fáa

þráði hún það sama
og þú Róska burt
frá þessum listrænda bæ
í feneyska þúsöld
hljóp hún í göfgaðri mynd
hærra til þín

trú og von Róska
falda um augu
máttugar meyjar
við mannssoninn mæla
hinn sjöunda dag

34
 
úr óreiðunni Róska
renna þúsund fljót
sem kínverskar myndir
snældan snýst í heila öld

glugginn í höfðaborginni
baðaður gulum andvarans blæ
þakinn marglitum blómum
brúðurin heila löngu komin
úr skinnskónum
flutt úr húsi hjá hegra
líður fyrir að dunda
við stilka blöð rætur

snældan stingur í börkinn aðra
hnátan litla elli vafin
nú andi í kút
dreginn um slöngu

ég skil ekki Róska
fallinn í elfu mynda á göngu hægt um götur
við hlið mér brúðurin gamla farin að megni
í þverá flýtur önnur

verandi í ljósum slopp í rúmi
sitjandi keikur með staf
bankandi í gólf
gangandi langa ævi
innri máttur sækir
blástur í greinar í önd
marglit mannakorn
á veggnum karlmannstign
dregin högum dráttum
um ljósop

Róska mér munar í brjóst
móta myndir heim

VI  skrásett vörumerki
 

 

35
 
Róska nú dýrka allir undir
djúpin og yfirborðið afgirtir í ramma
vitundarinnar hræsnast í gegnum
sjálfa sig brúarsmíðin tyggjókúla
sem þú manst að kom frá ðe júnætid
steits og ástandið og allt það

en Róska vorum við ekki
líka að safna handa þeim
að kaupa byssur að berjast með

var ekki eina ráðið gegn sigur
vegurum sögunnar að skjóta þá
af því að aflið býr í byssukjöftunum

en Róska við sendum þeim
ekki lengur brennandi vítisloga
nápalmsins í jólagjöf
heldur fimmtíu milljón
harry potter á kínversku
og windows millenium á spott
prís því það á að gefa börnum gott
en Róska við skulum ekki hrapa
að neinu þegar múrinn féll
var engin leið lengur að brynja sig
fyrir óheftu flæði kapítalismans
um líkamann og gjörvalla heimsbyggðina

til að uppfylla jörðina
og víxla öllu í syndaflóðinu
verða útvaldir klónaðir

en af öryggisástæðum
verða þeir allir geltir og kannski
geltir á endanum ef allt fer vel
á jarðarberjaökrum um eilífð

Róska Róska Róska ég veit ekki
hvort eða hvernig mér tekst ekki
að smíða til þín brú en hún
verður ekki á handarbakinu
hans gregors samsa

36
 
og Róska ég veit ekki hvað
þú gerir þarna niðri
en steinarnir sem þú hróflaðir saman
utan um fallið járnspýtubákn kerfisins
eru ekki lengur pólitísk athöfn
sem brýtur upp helgi
samræmi þegnleikans heldur

mynd í líkingu listaverks
sem við horfum á með kaffibolla

í hönd umvefjandi allar stefnur
og alla strauma lagakróka
síleska forsetamorðingjans
og spurningarmerkin við óttaleysi
svalaforsetans sem klámrásin sýndi
á dögunum
halda hinstu ræðu

andspænis mannfjöldanum með einurð
í rómnum úr digrum barka sínum
og útilegumanninn sér að baki

bróðurlaus þar landsfaðirinn
gjörningurinn listaverk
sem enginn ripíttakki fær endurskapað
en við getum notið með popp og kók

fjöldaframleiddu filmunnar
á gulum bakgrunni
limgerðar stríðandi konur

37
 
en Róska
þú fokilla stelpa frá róm

þú stendur með pálmann í hægri
og afstöðu eðla í vinstri
og mólótoffkokkteillinn
púður alkóhól bensín
í skapahárréttum hlutföllum

í boga yfir laufási ef það er lýgi
að listin sé fyrir listina
eins og maðurinn sagði
forðum oss illu frá Róska
listin hún er fyrir fólkið

bæði þúsundin fimmtíu
og átta og milljónirnar þrjár
sem sprungu og brunnu og féllu við skot                         

í kappleiknum stóra sem mótaði samtímann

stöðnun og óreiðulögmálinu þriðja
ólgandi undir sléttu loki hins
misfellulausa Róska

afturhald kúgun morð

og forsetinn genginn aftur
að bjóða sundurtættu endurbættu
nammilandinu bætur
og styrk og aðstoð ef kapítalið
mætti flæða áreynslulaust í opinni
samkeppni hinna ríku og stríðið

sem tapaðist á vígvellinum
vinnst með mamelons sautés
í kauphöllinni

38
 
og Róska stimpluðu þeir þig ekki
ómannlega kaldlynda frenju
þegar þú fylgdir manrico
og skildir drenginn litla eftir
á ólandinu sem ól okkur Róska

og fórnaði ég ekki öllu
fyrir borgaralega gildið heilaga fjölskylduna
og glataði ég ekki öllu í upplausn hennar
vinafár stimplaður kvenlegur karlaumingi
fjandmaður móðurinnar hins lögrétta dýrlings

Róska því varstu svona
kúl að stinga af og því varstu svona
töff að fylgja bara eigin sannfæringu

og Róska Róska hvernig gastu verið svona
ég meina svona svona ómóðurleg
með svona fullvissu um mikilvægi
einstaklingsins og svona
fjöldans og fátæklinga heimsins

því gastu ekki bara sagt svona
sona sona og kysst á báttið
eða plástrað það

í stað þess að storka okkur
sýna okkur gulum
hvernig við vorum að storkna

í vestfirskri hamsatólg
þegnskaparins

39
 
og Róska ef litlu rómverjarnir þínir
væru að drepast þessa dagana
til dæmis í tókíó
gæti opinberun jóhannesar sýnt þér

að leifar þeirra
birtast þegar stutt er á hnapp
upp til þín
streymir reykelsisangan

og myrran skammt undan þessu íkoníska altari
á meðalstórum bláblossandi sjónvarpsskjá
ógrískt ker þokast nær þér á færibandinu
þú krjúpandi í japanskri helgistellingu
og ekkert vantar
nema kapalmanninn frá hírólandsímanum

að klippa skinhelgi af andlitum
tilbeiðslan aftrar þér frá að skynja
saurgun reykingarinnar
á síbílum séstvallagötunnar

hvernig gasgríman tefur mann
á göngu hans
milli bygginga
sem festingin

hangir á
lík fall
hlíf

40
 
það var fortíðarhljótt
Róska er forsetahetjan
var skotin í bílnum
endurtekið hægt svo hægt tæpum
fimm árum síðar er blökkukóngurinn
féll með fisklausan munn

og veröldin alveg í burðarliðnum
að færa heim frelsisvarning
einstaklinga af öllum stigum

virðingin vaxin af dagsins ekru
nýrrar kynslóðar og Róska
eldri kynslóðin féll fyrir
höndinni sem brá brandi
hins nýja heims og merkti hann
frelsi jafnrétti bræðralagi
sem forðum í naflanum
er danni rauði spýtti í lófa

og enginn óskaði nálægðar barna
í kjarnaheimi okkar og hinna
sem aldrei mundi skorta
hversu dimmt él sem gerði
undir hvelfingunni

41
 
misfellurnar
blöstu svo víða við Róska
er brjóst þín voru manrico
vörn gegn tóminu

kannski er hugur þinn
sá sami og forsetans frakka
stundina er valdið
skaust úr byssukjaftinum
gamli anarkisti slátrarinn
engist sem ormur
í hjólastól undan réttvísi
kapítalisma aldarlokanna

vakna snækrýnd fjöll
með hljóðum vindi
þýðum hreyfingum
líktog vængur kondórsins einn
forseti aleinn þúsund höfða þurs
sem rís einmana í mannhafinu

horfandi á blóð springa út
um eitt sundrað gagnauga
hljótt sem örófssaga ein
í munnmælum Róska
tóm brjóst sem misfalla

42
 
Róska er ekki
búið að slétta yfir allar misfellur
og jafna út öllum mótsögnum

með vopnum ykkar róttæku stefnu
sem vildi halda sér inni í umræðunni
með andstæðum sem útiloka
ekki hvor aðra heldur falla saman

og ég er hræddur um að allt
umvefjandi knýtt höndin um
hnífinn muni hið fornkveðna
að leiðin að hjartanu er styst
gegnum rifin ber

og Róska
ég er hræddur
um að kjölfestan núna
í syndaflóði blómatímans
sé femínismi sem gerði
konur stingandi kaldar
kynlausa mjúka karla
og kynlíf vísindaskáldskap

um hugaða veröld og nýja og öllum stendur
á sama og drottnarar eru karlar sem stendur

með brjóst fullt af sorg
og stífluðum mjólkurkyrtlum
því ekki stendur eðlið
óhaggað öðru fremur
í byggingunni

43
 
og Róska
maðurinn sem þið birna
tókuð í gegn á ykkar frábærlega
kóríógrafíska hátt er nú
maður aldarinnar Róska

með álíka samstilltu átaki
margmiðla reyndi hann víst
að breyta heiminum
í putalandinu sem ó, ó, ól okkur
og orti ekkert eftir auschwitz

dansaði með sólkynjuðum syni grúsíu
skáldi jarðar fólksins draumi
sem hvatti þjóð sína sporum
og hreinsaði hana

í frábærum sýndarveruleik
þarsem stundardraumar rætast
þegar þið samstilltuð ykkur
bar aldarinnar maður svip tíðarandans
sem þið vilduð slagta

eins og marghöfða skrímsli
sem skröltir í við minnstu hreyfingu
og hvatirnar búa í sjálfstæðri skel

en hugsanirnar löngu
komnar í aðra stokka
og misfellurnar jafnast
undir storknuðu hrauni
og hver hafði fleiri svör um ævina

þegar þursinn yfirtók moðsuðu aldarinnar
hafði hann beðist velvirðingar
á öllum umbrotum æsku sinnar
tæpri öld eftir að hvatirnar
stirndu himin hinna
sem við vildum öll feiga

og bálreið stelpa frá móróasvæði
setti listalífið í leðjuborg
úr skorðum

í ómöðkuðum brjóstum
báluðu myndhvarfavessar
uppistandsdaginn í bíóinu stóra

er eldsgin drekans í vestri
spúði heilögum keppnisanda sínum
yfir félaga hósímann og land þeirra

sem var tengt nammi og kóngum
hans kvað norninni óð
um að beinin væru borin von

fyrir listina
að verja land

44
 
og Róska
börn annars heims
læra að hata
náunga sinn
því forfeður sigruðu hina í stríði

og öldum síðar er friður óhugsandi
líktog gerðist hjá ungu fórnarlömbum
terroristanna í fjallinu Róska

því að sigurinn kennir hinum hefnd
og valdið fellur um sigurinn þvert

og þakið í holundinni eftir brottnám
kvenleikans er þunn himna
yfir sárinu tætta sem ber
þaninn streng um brjóstholið
það er fallið saman og kynjavera mín
komin á flot í misgengi hlutverka
gynecomastia og fitusog
og formalín umvefur kyntáknið
móleitt úr gjósku heimt glóaldin
ljósmyndað í bak og fyrir á nikon
f 33 fyrir myndasögu handa barna
börnum framtíðar á knýttum
möbíusþræði lífsins en Róska

þú ert ekki skrásett vörumerki
þegar listrýnirinn daufum eyrum
hreykir sér af því að hafa boðið þér fyrstur á ball

Róska í rauða kjólnum sem móðir þín saumaði
utan um fagurskapaðan venusarleika

og sagði það fölsun fræðinganna
að þér hefði verið hafnað í den
en er ekki lífið helber texti
á þessum snúna renningi
opnum sérhverju sjónarhorni

að berjast til hetjulegs sigurs

VII  flassbakk

45
 
fikra mig eftir perluböndum
       orðanna að þessu eina sem
       skiptir máli milli mín
       og þín leggst ekki beinlínis
á bæn en ég vitja þín æska
       mín brumar í líkama
              sem kemur sífellt á óvart
              hrópar á loft og út í loftið
              á kraft sem hann magnar
       upp kallar á mynd þína
       fellda á þiljur minnar vöku
sem endurvarpast á tjaldi svefnsins
       negld á börkinn með krossnál

af tjaldinu þögn og raf
       grænir eru straumar þínir
       um kirnutetrið
og þetta eina eina
       ljósvaki milli þín og mín
       skjálfandans strengur
46
úr blóðgrárri þoku ljósta þær naglbitrar
langhendur þéttast tannhvassar glottandi
steindar ásýndir
              ata mig sakkenndum grámyglum

endurtakandi sýnir á tjaldi
ofvirkur ripíttakki
       flassbakk
                    úr glataðri framtíð

fallandi nær tækri hönd
sem liðast um loft
sem hnoðri þokast
              ég nær

sverðið er styttra en ég var hér í gær
og allsendis óviss nú við dagmál
       andliti hvers
              er snarað
       úr hrávotum steini

47
 
glerbrotin krisskrossa brjóst mitt
              skauta út um axlir niður arma
       skera inn í bert hold og rosinn
blasir við svo sæll mót sólu
       eins og sjálfur skagafjörður
              í ljóði þjóðskáldsins

                    enn er þoku hulið
              hvernig ég fæ brotið ísinn
       rist upp þetta maríugler
sem skyggir ásýnd þína

teygt mig gegnum tómið
       að grípa um þig um þig
              og lykja varir kringt og ókringt
       ljúft að vörum þínum
að bergja þar af sögum

grunlaus um eintölubundið
ósjálfstæði meðan ég fjarlægist

                           sjálfan mig meir og meir og líka
                    þennan skjá sem sinnir ekki kalli
              eða hugrenningum tengslin
       öll í ljósvakanum hvar ertu

eia eia eia þú ert
       vonandi ekki sombí heldur
              guðsmynd sem ég þarfnast
       til að fóta mig í þessari óreiðu
sem þeir kalla líf mitt

                           í hrærigraut kennda hvata
                    vilja verð ég aftur manneskja
              og maður undir augliti þínu

              um alt alt alt
       girndin orðin verktaki í hryggjar
                           stykki mínu aðvera frávera

                    þrávera mín að baknaga mig og
                           ganga í skrokk á sjálfum mér

48
 
í heiði sól og ekki tími 
       að skoða foldar skart
              er framhjá þaut
                    fann þig upplyfta
       augliti yfir mig
              í fullu trausti á hönd á stýri
                           grænt og blátt framundan
              brúnar yrjur sem í móðu
á hröðu skriði
                    um landsins leg

engin ferja á ánni bara sandskeið
       og iðuköst kaffæra undur tæknialdar
              fyrir virkjun í sandinum
                    sekkur á breiðu tjaldi

björgun um brotið skæni
       allir í strauminn harða
              berjamór færist undan
              friðsæld áfallsins
       enn ekki svifin yfir
allt svo ótryggt er björg í bjarginu
       myrkur hnígur á
              með glyrnum og grámyglum

              og kötturinn
í rue d’albert góðu fjarri
er búrfellingar ferja
yfir niðafljót
þorði ekki að horfa um öxl
              ef hnátan litla festist
       sem glottið forðum
              utan vega og sögu

ljósfælin filma
myndandi skugga

undir eirbæsuðum krossinum
       á leiði bróður míns
              húka hundruðum saman
hægfleygar dúfur í regnboga
              litum veita mér líf
       í lagskipt brjóst krjúpandi
hummandi hótel kaliforníu
       með hávöðum eins og árið áður
              en hann féll óvænt í valinn

hljóðar líða hrímgaðar dúfur
       hátt upp yfir mig undirleitan
              á borð við marglitar laufferjur
líðandi um grænt hauströkkrið
       opið hrópar hol mitt
              holt á loft gefið mér loft
       ört drýpur eitur og ört
engist festulaust þang
              skóhljóð tímans skýtur
       engum skelk í brjóst lengur
hvað þá krossinn brestur
       klístrug eðja vellur fram
              af leðjunni lyftist upp
                    lífsandi dýfandi hendi
              í kalt kvöldloftið um mig allan
       klúryrtar hreyfingar
                    dúfurnar dulbúast varasömum
       dáyndisbrjóstum skreyttum
              leirbrúnum logagylltum
                    leiksoppum munnsogsins

                    tungutamar tillífgandi
              mundandi kutana stuttu
bíðandi ödipísks blindfæris
              baðandi fínyddum krossum
                    ristandi reðurleg tákn
              rjóðandi blóðletri húð
       sigrandi sjálf og annan

í svipsýn lyftist langur fjörður
       lagður ís allt á enda veraldar
              skima skart um hugarmynd
                    á skjánum innri hjúpar móða
       landsins far og ásýnd fjallsins
friður úti og dúfur spretta upp
              brjóstamyndir birtast ekki
       berir myrkurhamir loftið fylla
                    varasamir má ég ekki hugsa
              einhvern veginn utanveltu

            íslands þúsund ár andvarp eitt þessa glitrandi stund er ljósin í bænum
tindra sem gjörð um loforð syngja dýrð því sem dreif okkur áfram áfram
sem lest þessa nótt er ornaði sér við dag sem hófst með gjörvallri mann-
kind hærra og hærra sungum við er tíbrá borgarinnar breyttist í ljósarán og
brautin svo bein svo bein hver er sjálfum sér næstur í þessari breyttu bifreið
kominni af fjöllum undir höfugan morgun með flöktandi ljós­glömpum
filman á enda snöggt