sjónhimnur

sjónhimnur

 

 

móska

 

bograr

 

dögunin sækir að mér komin upp úr
myrkurbrunninum breiðir
úr sér einsog saltfiskur á mynd
frá 1920 sólþurrka konur
karl ber risaþorsk stærðar
munur enginn í ljósinu
móska máir línur skil
óglögg einsog dagsbrún

hjá brunninum óskýr
mannvera bograr sem á
veiðum rennir fyrir ferskan
dag með nýtt líf færi
í elfi tímans skarður
máni glottir ekki
dorga ekki landa
mér segir svo hugur
djúpsins ekki minn
tími

lífið er saltfiskur
líður á
skjávaranum.

 

 

 

 


tengsl
 
i
kúpan við sjónrönd skorin
mastraðir pallar sem loftnet
til annarra stjarna. öngull í geimnum nú
skal veiða önnur lífsform annan dans
undir annarri sól eða ofar öðrum himni
 
ii
undir aldarloki pési
við einmenning
á litfextum makka.
páverið. kreditvefur
í 2400 punkta
upplausn. jaðartæki.
ljósleiðari. tengsl
þjappa heimi saman.
eins manns.
 
iii
rafmagnaður heimur
guðar á skjá netskapa vefir
þig undan hinum komist
að honum talir máli
hans kúpan rofin hella-
mynd synd-
andi sandöldur auður
og gasið í hringjum
 
iv
það þarf tvo til
að tala saman en óvíst
að hinn sé til einsog
þú á skjánum í öflugri
upplausn sem hefur form
án efnis
heldur maður
 
v
augnlaus er nóttin
án forms eða efnis
í ljósvakanum
 
orðin verðandi
 
 
öldur
  
fjalldrapi og gullmura í stekk við öxará.
varða efst uppi á hálsinum þarsem
smaladrengir fundu leggina. í læknum
bunar þér upp-spretta þín. eilífðar
smáblóm. samofið landinu. eyðimörk.
 

vaxbar
 
spekingurinn skeggjaði ferðaðist sjaldan
með ritvél sína en þennan maímorgun
leiftraði hugur hans mót vorvindum
glöðum. þegar miðasalinn sveif á hann
sýndist honum sem fugl flygi um klefann
og hugsaði þá hvenær skyldi maður vera í
líkingu móður sinnar og lifandi eftirmynd
föður síns í senn. sá hann þá fuglana fljúga
beint í gegnum höfuð miðasalans hugsandi
sem svo að sá gæti stjórnað bæði hljómsveit
og lest
 
síðar tók systir hans að sér stjórn á lífi hans
vaxbar skegg hans skrifaði bréf hans á
bannsetta ritvélina sem reyndar krafðist
meiri máttar en honum tókst nokkru sinni
að kalla fram þótt honum fyndist engin
hugsun nokkurs virði nema hún færi fram
við áreynslu
 
 
ópersónulegar sagnir

lakkrís
 
alveg að deyja í ís með lakkrís og mangó.
föður minn langaði í rettu undir lokin. hélt
henni án þess að geta reykt fyrir hósta.
einsog hún væri hans síðasta. grunsvipir
undir vegg. skrítið hvernig dauðinn líður
að líktog svefn. án undanfæris. hálflygnd
augu. starandi sjáöldur í litlausri þurrð.
 
skyndilega reis hann til að umfaðma hana.
ég elska þig. man eftir á að hann náði aldrei
til hennar. vart greinanleg rödd. augu full
af einhverju sem ég bar ekki kennsl á.
þykist vita seinna það sé samkennd en
þekki það ekki í raun. rámar í hugboð um
að fjölskyldan hafi glatast honum vel á
undan lífinu. átti hann það. gæti hann náð
sambandi.
 
strætó var að leggja af stað sá ég. engin
ísbúð í grennd. þessi fáu helfrómu hljóð
hrærðu mig um stund. fluttur um set
lagðist hann í dá sem varði uns hann dró að
lokum ekki andann meir og virtist laus við
alla þján
 
 
bogar
 
efst uppi á ásnum kaupi ég mér kók í
annarri búð þorpsins við hlið apóteksins og
hugsa í eins konar felmtri að heima er þessi
hæð löngu komin í óbyggðir og öræfi og
þar teldist hann fjallvegur vegurinn heim
að tennis-boganum. í garðinum hlaupa
börn í stuttbuxum og bol á meðan par
faðmast á bekk líka stuttklætt en í svip
flýgur önd af lagðri tjörninni heima þarsem
ég steig eitt sinn niðurum ís og kom upp
tjörusvartur og þurfti að þvo föðurlandið
mitt fjórum sinnum áðuren það varð aftur
nothæft en þó aldrei sem fyrr
 
  
rofar
 
fjöllin minna mig alltaf á myndir málaðar
eftir númerum uns ber í skallana brúna
trjálausa fyrst einsog ópersónulegar sagnir
án gerenda svo rofar til með athafnasvæði
skógarhöggsmanna og indíána eða annarra
frumbyggja Ameríku. Blómin útdeila
rykugri angan marglit fögur í skjóli hárra
trjáa sem veita skuggsælum svala í
andvaralausum þurrki
 
Chesterfield sófarnir andrammir breiða úr
sér ljósbrúnir, drappir, grængulir í sölum
Hjálpræðishersins þarsem konur einar og
hvítar vinna en indíánar versla mikið og
ráða ekki við eigin menningararf til sölu við
hliðina
 
hjálpræðið kemur að innan stendur á rauðu
skilti við dyr MacDonalds
 
 
perúskra
 
hæðin er lægri en mig minnti
þar uppi drögum við andann
einsog á goðsögulegri heklu
eftir torsótta kvísl úr borg-
inni fyrir neðan land
 
og elfa fléttast saman í
krans og forn kirkja í miðju
togar okkur tvo á leið upp hæðir
gegnum berg og skógi vaxna
filmu moldarbrúna skorna í
halla í hugsuðum þríhyrningi
fyrir lest þegar kemur
á slétturnar fylgja trén
fast eftir numið staðar
 
og þau sogast í augu
net sem mjókkar í linsu
í gegn út um hnakka
fyrirstaða á leiðinni og fram
kallast á þiljum hrekkur
úr stað er lestin skekst á leið
snoðklipptir broddar á höfði hins
nýkomna logi um sígarettu reykur
baader ríður þiljum en kannski á skjön
við tíma perúskra með japanska
gísla saga í síkvikri upplyftingu
 
hugsa ég þegar hann snar
vindur sér kveðandi við
raust með harðköldu ráði
augna eftir kletta-
fjallaskáldinu bera
hugur og hjarta samt
þíns heima
landsmót skógurinn
finnur mig í fjöru sævar
logn
 
 
liðið

drukkni indíáninn liggur alveg kyrr og
hefur ekki hreyft sig í hálftíma. ég stend á
tali við eina vin minn í stórborginni og velti
fyrir mér hvort hinn sé dauður lík liðið á vit
forfeðra sinna og formæðra að ræða
landsins gagn og nauðsynjar sem eru aðrar
en í lífi þeirra og líka aðrar en í mínu landi
þaðan sem ég kom lifandi borgarbarn og
horfi núna á  lík indíánans í leit að leið til að
kenna alvarlega í brjósti mínu fyrir honum
finna hvöt til að huga að honum ganga til
hans athuga lífsmark með þessu dökkleita
bláskítugklædda úrkasti stórborgarinnar
alkyrru núna í klukkutíma þegar ég kveð
vin minn hinstu kveðju
 
 
grouse  mountain

              myrkrið er auðvitað
ekki algert. við þjótum upp hæðina.
gatnamót opna sýn til hafs. á himni allmörg
ljós í beinni línu. lukin myrkri. hvert í
logandi hugsa ég hvaða stjörnumerki er
þetta. rjúpnaheiði heyrist útundan mér.
skíðasvæði. kannski best að halda áfram
með bláfjöll. ekki víst. ljós kringd blökku
myrkri. jafnvel bláu sem fiskiflugan fræga.
há tré
skera út
sýn.
 
 
hrekkur
 
útum gluggann á kaffihúsinu
hér í 2000 metra hæð er
aðeins glerið milli augna
og hafs niðri fyrir. börnin
háma amerískar pönnukökur
með sírópi og klessa nefið á
rúðuna svo mér finnst
eitt augnablik sem þau
ætli út. hvít með bláum
fánum á kinnungum
hreyfist ferjan vart þótt
hún fari á sautján staði
á þessum regnskógaeyjum
á íslenskri eykt.  vörubíl
stjórinn fær sér beikon með
pönnukökunum að breskum sið
frá victoriu sem á að skarta
fleiri gamlingjum og meira
lóðréttu regni en önnur byggð
ból. á grænu leiði
bróður míns er kross og nú svífur
á mig að ég hef ekki séð hann
 
lengi. halla mér að
börnunum. sé verönd. síðan
trjálund fyrir utan. í fjarska
vaknar óljós mynd af fjallaljóni
sem rændi barni að leik við
skóla. á þessum máðu mörkum
náttúru og menningar flögrar
drekafluga fyrir skjáinn og
barnið hrekkur við. skelfingin
uppmáluð. það brjótast eld-
glæringar
úr hlátri
hins.
 
 
fallin spýta
 
þeir kalla hverfið mitt skátabúðir því allt er
þar með kyrrum kjörum skipulags og reglu.
innbrot eru þó tíð en þau fremja
aðkomumenn líklega indíánar eða asíubúar
segja fjölmiðlarnir í hverfinu sem er að
mestu byggt aðkomufólki úr öllum
heimshornum. íslendingar kínverjar
pólverjar víetnamar síngapúrir indverjar
perúmenn mósambikar.
 
hér rista menn ekki skelplötur eða forn tré
nema fáeinir indíánar og afríkubúar sem
skera út sínar minningar og menningar
menjar á borð við almenna þrælkun og
hausaveiðar fólks af mínu tagi og annarra
alvöruskáta sem aldrei fremja morð eða
slíkan óþverra. það sló því óhug á
búðarverja þegar tælendingurinn fannst
liðinn í skógarjaðrinum sundurlaminn með
kylfu og það var skellt á þjóðarsorg í
hverfinu svo að enginn þorði í skóginn
dimma fagra þar sem vaxa tré með bolstóru
laufi.
 
nú er hvítur kross þarsem líkið fannst. á
krossinn var síðar hengd spýta með nafni
hins sem lét þessa kylfu ráða kasti sínu af
ástarsorg. ókomin svastika
 
 
band
 
í hvítum sandi rautt teppi í skugga af stóru
tré með nafni sem ég þekki ekki. kælibox
með pulsum og hamborgurum. blár sjór
gárast vart. börn hoppa kát með ærslum.
fleiri box á borði hjá og nokkrir vinir fjarri
heimahögum. logn. bátur líður um flöt.
band. vera í gulu strengd í hinn endann.
spyrnir við fótum. undir lognsævi blaktandi
skuggar. þarna veiddu fyrrum indíánar fisk.
bannað að tala mál sitt sagði hún. einsog
okkur líka. slegið á putta með priki. svo
brotnaði. fengum ekki að vera með í
leikritinu. undrast síðar að hún hafi í sama
orðinu að afi hafi þú veist af skömm að orð
væru til alls fyrst og að ekki breyttu orð
heiminum.
 
 
ugga
 
heima sagði ég heima er föðurland mitt
móðurmál mitt ættfólk mitt. hús eru hús.
börn leika í parís einsog heima. í sandinum.
gleyma sér. mér. einsog ég forðum. leikur
minn er annar nú. í öðru landi. við blen-
heim. strikin dregin um minn heim. og aðra.
leiksviðið stærra. en heima. svæði mitt. í
garði situr gömul kona á bekk. ein með
gróðri og rými. strætó stoppar á þriggja
mínútna fresti. mig langar heim til vina
minna. vera á sama bekk niðri við tjörn. í
hljómskálagarðinum situr par á bekk. í
fjarska. hjá ganga börn. hoppa. í parís.
forðum. heima. brotnum fingrum. ugga.
heim.
 
 
marsbréf
 
eftir þjóðveginum
höldum við inn
í land frelsisins
í fótspor hennar
sem orti sig á flótta
undan garra og bresti
hugsa ég ræðandi freud
við hina sem er
hingað komin við staf
alla leið til blaine við
hafið eftir rykugum vegi
leitandi að kirkjugarði
helsisins
 
hún dó hér konan ein
í bjálkakofa gulleitu
nornagreinarnar í
blóma í ryki hér á
mörkum landa er kirkju-
garðurinn horfinn villt
nei bakka sný við hann
er hér einhvers staðar
 
já einmitt jónsdóttir
nöfn að heiman hópa
sig í horninu og á dreif
hér er grafhýsi ættar
stóll borð marsbréf pabbi
afhverju er bara einn stóll og
spýtan aftekur að fljúga frjáls
í leik við armóða sólstafi
 
umkringd regnskóginum ljós-
myndast hún með syninum
hatturinn ögn skakkur
rifjast upp síðar að
gröf skáldsins var góðu
fjarri einsog hungur-
vofan og hafísinn
 
  
holbakkar

I
 
sárt var að missa hann fyrir borð. sjá hann
berjast fyrir lífi sínu sem við áttum svo bágt
með að virða. reyndum örvona að bjarga.
hann engdist. skalf. í stífum sjóstakk. blökk
drógu stígvélin hann niður loftbólur þutu í
strók frá hálsi. sá í svip félaga okkar horfa
lamaða á. hann ber vatn höndum og fótum.
engin hræring um borð
 
 II
 
morguninn eftir fórum við á
októberhátíðina og undruðumst að hún
væri haldin í nürnburg og það í apríl. en
apríl er auðvitað grimmasta él og brýnt að
setja upp aðra. hún dró fram sitt besta stell
útbjó unaðslegt manakete með ísterku
bragði og sagði vandræðalega sögu af
dansmey frá sri lanka eða madras.
lestarflautan gellur og stundin komin von
bráðar. fer af sporinu inn í kirkju. við
hlaupum í skjól
 
 III
 
ég var ekki á siglingu er ég heyrði dunandi
suð sem fyllti eyrun ekki tónlist heldur
skerandi öskri símans í einbeitni. maður
tapar sér aldrei í einbeitni.
 
er ég veifa strákum handan götunnar
minnist ég bræðra úr sjónvarpinu sem
drápu sinn elsta og áttu að hafa afsalað sér
rétti sínum við yfirheyrslu en vini þeirra
fannst það kalt taldi víst að þeir hefðu ekki
vitað hvað þeir gerðu
 
ég ber hönd að vanga. angan hins. mynd
líður fyrir augu. hún hver sem hún er ég
þekki ekki svipinn. má. vera. óþekkjanleg
hún situr við borð með hönd við vanga.
reyni í rökkrinu að sjá bak við andlit
hennar. aðeins útlínur.
 
 IV
 
heyri símann hringja bergnuminn við hlið
mér. leiði ekki hugann. gagntekinn af
væntanlegri ferð upp í sveit að sækja heim
vin sem enn hefur ekki komið til
borgarinnar. finnst síminn ekki jafn
framandi og kastali með tveimur drekum.
sér ekki farsímann. enn hringir mér við
hlið. rennur milli rifja. því svarar hann ekki.
þó ekki nema til að leggja á. ekki hægt að
rjúfa tengslin. ekki leggja á. línan á tali. allt
fullt eins og umferðarhnútur. hugsanir
skynjanir myndir. tengjast ekki. hrærast
ekki. hughlaup. dúar. skelfur. undiralda
ýtir úr vör. eftir línu læðist andlit glatt.
kallar fram mynd vinar míns. drekanna
sem hann aldrei skilur við. verð að þjóta. ná
lest. brunar. logastakkur.
 
 
V
 
aldan brotnar ekki
hnýgur ekki heldur
hefur sig heldur
sjó sem í dal
hellist skipið
klýfur ekki öldu
brýtur á borðum
hann í rauðum galla
líkast korki skipið
leikandi í faldi
hleðst í vegg
mót stafni
ljós blika af
og til
     sýndar
     ljós
     glampi
togar um nótt
stjörnur blika
í blásvörtu myrkri máð
skillandsogsjávar
öldufaldur fjær
drangur úr dal
unnvörp hamra
skip við klett
stál ískrar
við skreipan
stein
 
 
VI
 
grasinu einsog óljóst
hvort það ætti að vera
moldin litar það brúnt
leirbrúnn svörður
útvið sjónrönd engin
bunga heldur örvasa kletta
myndir í fjarska glæða
fjöll útsýn lág sem
muldur skáldsins brún
dula ólífur já ólífur
vínviðarlaus þessi mörk
og dýrin fjarri gamni
sköpunarverk lúsí
fers sem fordyri heljar
auðn muldur kallar
fram lónið bláa
mynd hér heið
ríkja sléttan mikla
leirsandanna en ekki
skorningar gljúfur slétt
sem borð rauðköflóttur
dúkur vín brauð
ólífur já ólífur er flug
vél svífur yfir moldum
augu þín smaragðs
lendur ljónynju
í álfu myrkra
leiði fyrir sjónir
innri myndir húss
ægifagrar og ólífur já
ólífur með hægu
þungu bragði frá
menningarvöggu
grunur um sól
guð á glugga ljós
guls húss á ufsum
samlent regn líka
fjarri þessari slóð
hafa menn orðið
úti nærri heim
kynnum hvers leitar
vél flugs uppi yfir
okkur gul eins
og depill í auga
þínu smaragðs
þung á tungu
ólífa já ólífa
mitt höfga
vögguljóð
 
 
VII
 
lampinn hlaut að vera á sínum stað jafnvel
eftir að ljósin slokknuðu. glitrandi krónur
snúast. geislar glampa í hálflýstum sal. á
borði meðfram súlu hlykkjast maður í
öðrum takti en tónlistin. á dansgólfinu
dansa konur hver við aðra. karlapör í
hópum kvenna. á súluborðinu er sá
hlykkjótti kominn úr að ofan. ljósrákir flá
hann næfurþunnt. sem teiknimynd. slitin.
tveir karlmenn inni í reykskýi. faðmast
fingur í svörtu hári. lyktin þétt höfgi sem
svíður í nefbroddinn örlítið inn eftir holum
nefsins. líktog kryddlegin. vinur minn sem
dansar með mér í kvennahópnum tekur
hönd mína létt. blítt ráð augna. vinkona
hans minnir á borðmanninn. síkvik
stillimynd. flakandi gallajakki. stutt hár
skáskorið að vöngum. liðað. bylgjast ekki.
nema í iðandi geislum. skór hans hreyfast
um gólfið í litlum stökkum. breyta um stað.
frá einum geisla til annars. ljós og myrkur í
háttlausum gusum svo virðist dimmt eða
bjart. lokuð augu í takt geta haldið
myrkrinu.
 
slöttólfi  bregður  fyrir
veifandi ber fætur sem í dansi svífur í
gegnum loftið upp á næstu hæð. rauð
regnkápan sýnist stoppa og verða eftir á
meðan hann gufar upp og eftir situr
merkjanleg nálægð. mistruð fró.
 
 
VIII
 
hvaðan ber þær að þessar
verur milli þilja vökunnar
einsog sprottnar úr
höfgi og hamrabelti
samrunnið myrkri hafs og
himins ekki bara hvers
vegna einsog segir bera
líkin þar beinin í upp-
floti gegnum þilin
speglast ekki myndin
í auga aðeins himna í ætt við
pappír línur dregnar nær-
gætnum fingrum fisklaust
líki skolar gegnum himnu
sem ekki rofnar líktog í upp-
töku vatns eða ham-
hleypni fæðu óværan
ertir húð undir þessari
filmu sem nefnist
veruleiki
 
 
IX
 
og rúmið fullt af engum
augum nema
þínum sem um
stund
stuðla við mín
 
sjónhimna
 
yfir haf og heim
og bilið svo stórt
sem þögn
og augu
þín