drengmóður

drengmóður (2007) er enn frekari umfjöllun um bernsku skáldsins og kallar upp gamlar slóðir þar sem borg og sveit mætast í bæjarlandinu ekki síst í kringum Elliðaár og hraunið milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Ljóðin rifja upp bernskutíð skáldsins og draga fram myndir af Reykjavík, ekki síst mótum borgar og sveitar, yss og kyrrðar, en einnig hættur vatnsfalla og hrauns. Guðstrú fær hér meira rúm en í fyrri bókum. Vísað er í margvíslega atburði í heiminum, t.d. geimkapphlaup og lendingu á tunglinu, morð frægs fólks og fleira.
Garibaldi tók myndir á kápu og hannaði bókina alla.

Ljóðin fjalla um bernsku og samtíð skáldsins, m.a. fjölskyldu, borg og stöðu feðra og barna sem missa tengsl við feður sína. Ofbeldi af mörgu tagi, líkamlegt og andlegt, innan fjölskyldunnar en einnig einelti gegn fjölskyldumeðlimum. Átök við trúarsetningar, biblíulegar myndir af veruleikanum og trúna sem er boðuð, m.a. með Guði sem sér inn í innstu kima hugans, eru hér meira áberandi en í fyrri bókum Garibalda. Órói borgarinnar og kyrrð sveitarinnar takast á þar sem svæðin mætast t.d. við Elliðaár og suður eftir hrauninu til Hafnarfjarðar. Kynslóðirnar þrjár koma hér einnig fyrir og mætast í drengjakolli ömmunnar á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar og David Bowie og málmtónlist undir aldarlok.

Úr ritdómum um bókina:

Morgunblaðið: „Ófrjálsar og frjálsar hendur“. Skafti Þ. Halldórsson:

„Mörg kvæðin enda ort út frá sjónarhorni svikins barns sem bjó við harðneskju og fötlun. Það eru svik í hjónabandi foreldranna og ranggerðir gagnvart barninu.“

„Ljóðmælandi spyr hvað gerði ófrelsi handa hans svo magnaða að hann skyldi hljóta slík örlög. Hér grípur Garðar á því kýli sem er einn svartasti blettur á sögu okkar samfélags að senda börn í vistun hjá misjöfnu fólki í ýmsum Breiðavíkum eða hjá misjafnlega hæfum einstaklingum.“

„Þetta er mestanpart Reykjavíkurskáldskapur sem er á margan hátt ljúfsár.“

Fréttablaðið. „Guðfaðir kveðinn í kútinn“. Sigurður Hróarsson:

„Bernskuminning skáldsins. Sögur  og leifturmyndir frá liðinni tíð.  Uppvöxtur við erfiðar og óvenjulegar aðstæður; dreggjar samfélagsins, íslenskt gettó, utangarðsfólk í skjóllausu skýli, brostin  fjölskyldubönd, bókstafstrú með  refsivönd á lofti, djöfullinn, ómegð, áfengi, ástríðuglæpir, ofbeldi á heimili, ofbeldi gagnvart  börnum, óeðli, ógn, vopn á lofti,  guðfaðir fellur af stalli. Minningarnar hverfast um ömmu, afa,  mömmu, höfund, bróður hans og  feður þeirra. Í brennidepli eru  tveir atburðir; „nótt hnífsins“ /  „það ósegjanlega“ (hvörf bókarinnar) og brotthvarf bróðurins – í  margræðri merkingu.“

„Skáldið metur áhrif æskureynslunnar á ævidaginn, áhrif þagnarinnar ekki síst (sem skáldið nú rýfur) og gefur yrkisefninu víðari  skírskotun með vísunum til heilagrar ritningar – sem eru nokkuð  trúverðugar af því þær eiga sér eðlilega forsendu í minningunni (bókstafstrú fjölskyldunnar). Biblíumyndin af sambandi föður og sonar (sem er írónísk speglun); „faðir elskaði heim, gaf son sinn“ (60), amman sem alsjáandi guð í auga barns, syndafallssamband  þeirra bræðra (Kain/Abel), sonarfórnin, sálma- og bænastaglið í  ljóðstílnum, beinar og óbeinar tilvísanir í kristileg kærleiksblóm; allt á þetta sér rót í uppeldinu og  sprettur af því boðorði bernskudaganna að þurrka út mörkin milli veruleikans og bókarinnar helgu. Um leið færir skáldið (persónulegt) erindi sitt nær lesandanum og reynir að vekja upp samsvarandi erkitýpur í dulvitund hans.“

„Samhliða efnishvörfum bókarinnar – sem eiga sér stað í miðju ljóði á blaðsíðu 44 – verða samsvarandi stílhvörf og eru tök  skáldsins á þeim hamskiptum í senn kennimark bókarinnar og helsta kúríósa; fyrir og eftir „hið  ósegjanlega” (44-55). Fram að  hvörfunum er stíllinn einfaldur og gagnsær, frásögnin auðskilin og  barnsleg, efnið augljóst og skýrt. Frá og með hvörfunum er stíllinn hins vegar myrkur, myndmálið  flókið (jafnvel þvælið), tjáningin hávær en kæfð, tákn (hnífur, spjót, auga, hraun, o.s.frv… ) og felumyndir leysa af hólmi einfalda augljósa birtingu: Efnið þolir ekki dagsljósið, „hið ósegjanlega“ samrýmist ekki berorði skáldsins, er leyndarmál sem þó er skáldinu sáluhjálp að þegja ekki yfir; mótsögn og áskorun sem skáldið (alsjáandi samviska) mætir með háværu táknmáli sem ætlað er allt í senn að grafa undan þögninni, létta henni og úthýsa og kjafta hana í  hel – án þess að berhátta viðmiðið og eiga þá á hættu að „eftirlíkingin“ einangrist og tapi gildi sínu fyrir lesandann.“