höfðaborg

Í höfðaborg (2005) dregur Garibaldi m.a. fram myndir af fjölskyldu sinni, börnum, föður, ásamt afa og ömmu sem bjuggu í Höfðaborg í Reykjavík sem laun fyrir forstöðu Verkamannaskýlisins við Tryggvagötu í aldarfjórðung. Einnig eru nokkur ljóð um konur, m.a. um Júlíönu Jónsdóttur í einsemd sinna erfiðu daga í Kanada og Bandaríkjunum, um hríð ekki fjarri þeim slóðum sem Garibaldi dvaldi á við nám. Veröldin er flestum persónum ljóðanna framandi, jafnvel á heimaslóðum.
     Hér fjallar skáldið um fjölskyldumeðlimi sína, föður, afa, börn og bróður, auk almennari ljóða.
     Bókin geymir einnig þýðingu á ljóðabálkinum Draugaveiki eftir bandaríska skáldið Luis Alberto Urrea. Bálkurinn kom fyrst út 1996.

Helgi Örn Helgason lagði til kápumynd og myndir í bókinni. 

Kaupa eintak

höfðaborg

I

í erlendu bergi

í erlendu bergi
 
í erlendu bergi heyrði ég kall þitt
við framandi foldarskart greiddi ég
lokka þína fyrsta sinni við undirleik
útlendra geisla og nam

þínar hljóðalindir um land í grænum bláma
bak ystu sjónarrönd og sögu er ómaði annar

tími og augu þín dökk og djúp
úr brunni langt að sóttum hér
á ókunnugri strönd

inn í þulu þína skjótast hljóð
sem ég fæ ei greint en draga fagurlega
til stafs á mínum þiljum

eitthvað um ekkert
og þulinn í skor

það komast fjórtán englar
 
það komast fjórtán englar
á títuprjónsodd sagðirðu
allir fallandi í einu eins
og ég kem til þín sagðirðu

og ég skal vera sjórinn
sem baðar þig sem eyju
og ég skal vera sólin
sem baðar þig sem meyju

og konkvistadorinn
sem tekur þig sem freyju

that’ll be the day
sagði ég á ystubrún háhýsisins
skítlofthræddur að gá

hvað þér fyndist um hetjuna
ríðandi um þetta loft
færandi þér sanninn

um rangfærslur englanna
og rykið í opnum augum okkar

og bunan af vörum þér
heil steypa í fossum
sem léttvæg snerting á öxl
skýtur á frest

og þú lofaðir að hlaupa ekki
útundan mér þótt við deildum
og deildum með brotum
á als oddi

yfir grænu grasi
 
yfir grænu grasi
í bliki daggar enn hin milda nótt
hugværum átthögum ofin
rennirðu ylríkum djúpsins sjónum

um þetta land sem ól þig
meðal skógarins viðja
lestin nemur þér stað
meðal sagnfastra vætta og niðja

óvæntir hermenn úr fjandmannaliði
brynna hestum hjá skjótfengum mörkum
að valnum þeir falla ættingjar þínir

strætin ýrast af rauðleitum hófum
enn kippist sagan af stað
með ógnmjúku tsjú tsjú

fölgrænir vellir njörvaðir
fjölbreyttum trjám
nísta sorg þína nýsprottna
í þverstrendri línu teinanna tveggja

sem tengja þig örvona ætternisstapa
nú luktum kyrrðarhjúp annarrar nætur
tár þín hrífur koldimmur svali

dimmir eru dagar þínir
land mitt í kærleiknum

heitir eru trúfastir dagar

nótt í stillu
 
er þú hefur vængi upp
til flugs mót þökum
ofar stígum þeim er gekkstu

opnum örmum mér í fang
þyrlast lauf með miklum súg
við glerjaveggi og gegnsær

líkur gráum sekk
sem byltist þar í horni óvænt
minnir á lífs þíns mörgu drauma

sekksins þögn og súgsins dynur
kljúfa vitund mína líkast grísku
keri óðfluga sem lágróma söngur

lævirkjans ómþýða nótt í stillu
nálægt stormsins ógnarmúr
í hálfnuðum takti þögn svo stutt

og næsti hefst sem lokatónn
í öðru lagi og vængir þínir nema
land á myrkvuðum ljósastaurum

vitund mín svo klofin kallar
hátt en sér í augum þínum
útvatnaða spegilmynd

úr horfnu ljóði er þú
komst

við götu heilags patreks
 
það var við götu heilags patreks
sem japanska akkasían blómstraði
fölbleik og hvít undir apríl
og fingur okkar fléttuðust fimlega
í hægum ljósfælnum danssporum
yfir börnunum okkar óbeisluðum
sem voru okkur allt svo miklu meira
en þau dreymdi um í akkasíuilmi
er baðar sig í útlendri sól og við
gæddum okkur á ártölum hjá húsum
eldfornri sögu í bág við liprar ræður

minntu ekki á nauðir akkasískra samlanda
á þessari auðnarstorð

um hug okkar dulmagn ferðasagna
og ævintýraglóð

óvænt heppni að vera hér
á þessum fjarra stað með börnin okkar öll
að tvinna saman hjörtu einn kríublund
á sólbráðri stund

brennd í börk
 
vafurloga hvíti máni
himintunglið töfrum gædda
á hafi opnu úti nóttin
stillt svo stillt
og kolamyrkum seiði blandin
eyrum fjarri fuglarnir og augum

baugur eirgrænn roðinn
í brúnni eilíf kyrrð
að móta innlíf mitt í þanka
mynda heim úr þessu skæra gliti

máni máni samviska mín beitt
og undir haf í fiðlanna leik
íðilblátt og svart í rafhvítum
linda veikt með auknum styrk

stillt svo stillt
trúin ennþá óviss
eyin kvika vaknar
sýnin stutt en myndin
brennd í börk

allrasálnamessa
 
sé litið hratt yfir akur graskerjanna
     sem við börnin ætlum að velja úr að hrekja
út aldinkjöt og rista myndir í skurn
     já sveipi ég nethimnum ljóshöfuð
útskorin augu munna og nef
     sem hræðilegust form að minna á

alla hrekkina sem koma fyrst í hug         
     er kyndlar kvikna innan höfuðmarka
minnir blóðgulur akur á sækvikt mannlíf
     í þessari borg sem við erum gestir í
og skáskotin graskersaugu og vampýruandlit
     sonar míns í svartri skikkju í hafi

þúsund flöktandi höfuðlampa og annarra elda
     kvöldriðunnar varpa skuggamyndandi dauðablæ
á ljósiðuhvolf borgarinnar. trúmenn allra landa
     sameinist þessa ögurstund er óttinn fellur að
í roðagullnum öldum hausaskeljastaðar
     og allt getur gerst með hrekk eða hrynjandi

og hárbeittum blöðum í fagurgulum glóaldinum
     til að gleðja geð barna og blaktandi blóðgusur
hausamóta lýsa upp einsemd er skáskotin augu ofar
     torráðnu babli og ógnvæn útlendingsbending
í leit að réttu orði kallar á skjót viðbrögð húsbóndahollu
     haglabyssunnar rifjahylki sundrað

af reginafli blindu. glampar gliðna innanhols
     guðhræddur og vís kyrjar sonur minn
          í batmannsklæðum á akri

 

II

skáldsögusvanur sem faðirinn sigldi á

skjáhaftið hvíta

löturhægt þjappast frumur og
sameindir kaótískt í legköku
í kerfi lífsins á bók er opnast
einn dag sem upprás sólar
dag sem aldrei var né verður
á ný í sigurkufli berbakt
eftir tvöþúsund tíðindi hins eina
einasta

alls óviðbúinn sundrandi
óreiðu fæðingarinnar hvítu
deyrðu í sundurleysi sjálfs þín
inn í svarthol mektar og ábyrgðar
sem guð átti að axla en dó frá
óköruðu hjá krossgötum
þarsem þú slíðraðir sverð
í hreinleikans voðum
skjáhaftinu hvíta

drengur skýtur upp kolli úr göngum
í vafurljósiðu klippt á streng
við mónitár vera í hvítum slopp
að græja til lífið
blóðug tillífun tækninnar
hrifin á brott úr augsýn
og sprungan á veggnum eilíf
líktog atburður klippingarinnar
með tónlist af öðru bandi

undir tjaldi annar
saumar spor í farveg
raulandi
eftirlætistóna
úr kattadúett

stöðvast veraldir
 
í helgum lundi hjá athvarfi hlýju í dimmu
slétta hrauni skein sól. við tveir á tali. í banni
okkar móður telgirðu mér hér barnungum
íkon án klasturs.

tákn heima vokir yfir borginni á herðum mér

andspænis hvítskeptum dálki stöðvast
veraldir. staðnæmast heilar eilífðir. smáblóm
skýrum dráttum skorin út úr tímanum

ó
yndið mitt eina skeiðungur um aldir.
griðastaður í  ómarktækum heimi heima

í girðingum tímans
 
innst í þéttum skóginum þennan hlýja vordag náðu ljóspollar ekki að lággróðri. þurrblíður svali lék um vit okkar feðga er við rákum augu í hlynsblaðið stóra sem draup á sjónhimnur okkar og gat skýlt líkama hans. í höndum okkar var það fjöregg og við áttum von á rennandi rekkju í rökkvuðum myrkurgeilum. sólstafir léku ofar en stóðu fastir í þykkni baðandi krónur ljósi. hljóðmúr lykur þögn um söguleysi er sagnir fara á kreik.

náði ég í skottið á biafratíamanum þegar boldangs­barna­­magar brutust inn í skúmaskot með ókræsilegum tólgar­fiski. storknað sjálf á diski með hótunum. annar sem málaði dóra gráa. yfirtók hans eigin sjálfsmynd. storknaða í annarri feiti. konan er negri heimsins sem maðurinn seldi á leið í kjötbúðina að betla bein í fimm daga súpu

spyr hvernig standi á að amerísk saga sem lofar góðu með sterkum og veikum persónum og knýjandi atburðum verður alltaf svo fucking týpísk og íklæðist möttli konungs sem eitt sinn var prins og giftist prinsessu sem hafði breytt honum úr svan og sagan afhjúpar jafnvel hvernig hann breyttist fyrst í svan og myrkurbrydduð spjótalögin í sólarvefnum einsog íhvolfur valnastakkur og sólstafirnir sauma að okkur hjá lággróðrinum.

frá muna leggur sögu um stúlku í breiðri vík við furðuströnd sem alla morgna sat að föndri og klippti út í filtefni persónur og atburði úr helgri bók þarsem guð lýstur menn fjörutíu daga regni eða þurrkar upp haf sem önnur heimakær goð. einn morgun er hún þreytt eða eitthvað og á leið að ljúka mynd af eldi lostnum runna sem opnar augu manna fyrir tign og valdi guðs er stúlkan unga hnýtur um sætu litlu selmu sem hún sefur með við vanga og skærin fínu opnast í bjargandi hönd hennar í fallinu. augun opnast fókuseruð á odda tvo sem loka sjón

veggir drífast blóði sem ýrir líka gluggatjöld. og menninrnir gera heiminn hálan og undir sefa skáldkonunnar býr harmur sem græðarinn eini kann að laga því ekki vilja forlögin fella hana eins og strá. hún var horfin eyðiströndu frá og sælu vinanna inn í lönd óvæntra skóga og starfa. eina eina eina konan í víðáttunni sem stytti sér dreggjarstundir með yrkingum þarsem ró og angist tókust á. fátækt og kuldi og einsemd sníða þröngan stakk og skáldfákurinn í jarðarböndum. ómagalegt um að litast þegar valdið birtist og beygir skáld til hælisvistar. tekur handrit og fleiri óþarfa til brennslu. engum börnum til að dreifa. braut hennar þakin hrími. nú brosir ekkert vinarauga við henni í bjálkakofa sem fór undir lestarstöð sem fór undir verbúðir og dagar uppi sem hrjóstrug borgarauðn þegar dauðinn kom að sækja sér nástrá. skorið grasblaðið býr yfir meiru kannski nýju upphafi þótt henni sé ókunnugt hvert það leiðir.

hagalagðar í girðingum tímans og greinar trjánna stífla framrás ljóss. geislandi hvolfið myndletruð saga. vinna fyrir aðra þvo þvotta þrífa hús. skáldið mállaust. enginn bíður heima nema málið fegursta sem ljóðin lýsa og ljómi af sögum. vinir og þeirra niðjar meðtaka hennar hlýju orð. og pappírinn ljóðin sem eldurinn étur. blóm í glugga stynja á hokurdögum. enginn syngur hér lag nema hún raular ein stöku sinnum eitthvað sem blómin skilja ekki en skynja angur hennar og værð. nöfn blóma hljóma ókunnuglega. tunga sem hún hefur á brjóst borið og blessað vin sinn með. aldafriður yfir geirvörtum sem engin börn hafa sogið. ástarjátning fellur á trjáknýtta jörð. um hendur liðast útlent lauf. burknarnir sem mæta augum letraðir sóllífgandi stöfum rísa hátt gegn tvíkynhneigðum heimi með sínu einkynjaða lífi

hvað er það sem maður kemst aðeins inn að miðju á spyr sonur minn hjá minnismerki í jaðri skógarins um telpuna sem fjallaljónið rændi. steinsnar frá er annað um lítinn dreng sem menn í hvítum sendibíl nörruðu til sín og skáru á lífæð skáldskaparheims hans. er við stígum saman tveir út í alltumvefjandi nýfrelsað sól­skinið sem skógarsögur ná ekki að hemja þótt við göngum brátt fram á hlyn í járnbúri umgirtu bíla­stæðum sem nú eru öll full

lýsiglóð
 
með hattinn barðastóra og næstum fornaldarlegt slifsið svarta horfir afi á mig úr ramma á vegg eins og úr fjarska verkamannaskýlis og ég man í höfðaborginni þar sem  spari­sjóðurinn er nú hvernig hann stóð í dyrunum er dró að lokum studdist við staf í ljósum dyrum sem draumveran drap á síðar svo ömmu krossbrá og hann sveiflar hinni með kveðju til bróður míns og líður inn í rúm í hvítum spítalajakka að kenna mér bænir með malt og sögur á vörum um ömmu kjarnakonu

löngu eftir að hann pikkaði í gólfið róandi í gráðið eins og írsk syrgjandi kona er ég á miðjum aldri að bera til grafar dóttur hans hernuminn langsóttu svelgjandi minningaflóði kyrrð hvatning heim­sóknir laugar­­dagsferðir í kirkju svo sjálfsagt að fá ís minningin hálfglatað ástkært barn svellandi hljóðljóð sem lýsiglóð undan steinum sem af sjálfsdáðum velta

að horfa á pabba
 
hvítfyssandi öldur kyssandi flóann. sé í svipsýn vonandi að fjöllin hefjast yfir falda. á bryggju myndir af frægum bátum úr fjarstæðri bernsku. skáldsögusvanur sem faðirinn sigldi á í brælu og blíðviðri burt frá heit­bundinni katrínu og tíkinni trýnu. baksvipur hins hokna frosinn í glasi stunda feykist inn í nútíð á hvítfölduðum öldum. langþráður þessi jafn fjarri og skarðsheiðin milli blárra hástæðra fjalla. þrír jarð­bundnir oddar skera heiðgræna festingu. sem sög á andartaksfortíðar­hulstri.

norðangarri við hún himinbláma sem fáni merkisbera í orrustu um líf látið þorna á striga í almagnaðri nærmynd veruleikans. líktog trollið sem togað var hið hinsta sumar þegar bóman stóð á sér örskotna stund áður en toppnum var náð og feikileg alda sópar burt vonum og sex munnar líða fyrir. óboðin op í jörð sem gleypt geta mann án þess hann gleymi eða gleymist.

á myndinni hvorki teboð né fjall kannske í höfninni í hirtshals. vitund þakin tugum ára. grómtekin ævimynd hér á bryggju. ég líka lítill strákur að horfa á pabba gera að fiski fyrir löngu. fannst ég fullorðinn þá í skilningsvana augsýn á þessa vinnuvél sem handlék hvern fisk líkast listviðburði. án slow-motion sem var óþekkt nema draumfar og hugar er beiskar myndir liðu fyrir sem hæggeng jarðop langa daga og dimmar nætur í einsemd hlýrra nálægða. sem löngu síðar afhjúpuðu svefnleysi. ótal sljó andartök svo hæg einsog fest á tjaldið einsog fjöllin helgan uppstigningardaginn er ég sýni börnunum þessa einu mynd af afa.

svanurinn einráður og eini hlekkur þeirra við fortíðarhylkið kannski blásúr skugginn sem hvergi fellur. hvítar skuplur faldanna falla og stafalogn fellur á ríkjandi heiði lyftir skarðsheiði í tign og tívolí tekur yfir sviðið. kæti gleði fögnuður í hæghringdu parísarhjólinu sem dóttir mín velur án hiks. drengirnir æða í draugasalinn án afa. án pabba. enga skugga ber á. iða í lofti af fótgöngumarsi. léttstígum seiðmagna djassi. holliday og draugalegar afbylgjur. hlátrasköll og óttaköll. og já og nei og hættu og meira. og áfram komdu. frábært. hei þú veist. og algjört æði. rosasól og svakakúl. pabbi hér. og afi hér. fjallið er hér allsstaðar. hæ hæ sestu. úhúúhúúhú æðislegt. hvað ert þú að gera hér. sagðirðu tómat. ég sagði túmat. þetta er túmöts. hring hring hring. og ís að kæla. engin æla. barna gæla. ljúfa löð

 

III

yfir loftnetaskóginum

 

eins og fugl

milli húsþakanna
máfur með útbreidda vængi
sem beygjast í nákvæmlega 97 gráðu horni
þeir sveigja lítið eitt út frá líkamanum
hornin minna óþægilega á húsaburstirnar

út úr búðinni gengur maður með plastpoka
tekur utan um konuna
sem kemur út á eftir honum
gengur við hlið hans
talar við hann slær hann
með klósettpappírnum
og stígur á tær hans

vandlega saumaðir vasarnir á gallajakka hennar
í laginu líkastir vængjum fuglsins
minna á þakskegg húsanna

framhjá gengur maður
svo frjálslegur
eins og fugl

hann er skæður
hann er ránfugl
hann er máfur
í mannhafinu

greinilega ekki ég heldur örugglega annar

hendurnar út frá síðunum
skringilegur burstabær

yfir sjóndeildina
 
eftir fjórtán daga eru sumarsólstöður
nóttin þessi afvegur dagsins
með sólum og stjörnum og tunglum
albjört

ekkert rökkur
undan stórum væng

í roðanum máfur
svifmeistari flugsins
kvikunni fylgir hann
líkist snjöllum sjóbrettamanni

sjón mín fer einn hringleik
eins og filma yfir sjóndeildina
yfir eggjar fjallanna
leggst yfir þær
deyfir bit þeirra

sjóni livingsjón svífur þöndum vængjum
yfir sjónvarpsloftnetum
sem bera við himin á bárum hafsins

opnast kvikmynd truffauts
hús gluggar fólk
á hverri stund
allir eins

milli tágaðra stofna í skóginum
birtist skógardísin tággrönn
slikjukennd
ávöl

henni fylgja hvorki dc þotur
né suðrænn andvari
enn síður tígrisdýr eða ljón

hann horfir á hana
án þess að verða að steini
í merlandi hári hennar
sindra engir þursar eða ormar
hún gliðnar sundur sem skýjamynd
yfir loftnetaskóginum

rennir sér yfir loftnetunum
eins og brettafíkill
sest bak við eitt loftnetið
hún hefur ekki raknað sundur
heldur tognað og
gengið saman aftur

í tíbránni
milli fingra hans

skáhallt
 
úr viðarlitum glugganum á húsi númer ellefu blasir við honum turn heilsuhælisins sem fyrir löngu er kominn í gerfi listamannsins. hann teygir sig og sér í glugganum á móti konuna sem hann þykist orðið þekkja þótt hann sjái henni aðeins bregða fyrir. hjá messinglampa með skermi sem minnir á Hawai situr stundum maður hægindalega í stól baðaður bláum flöktandi bjarma. konan horfir iðulega íbyggin yfir götuna skáhallt í hina áttina og honum finnst endilega að hún sé að fylgjast með manninum á annarri hæð í númer fimm sem hvarflar stundum að honum að sé að skoða unglinginn í númer tvö. bjarminn blossar í augum honum og stillist og hann sér þar konu á tali við mann á gangi um götu sem kemur honum kunnuglega fyrir sjónir. hann veltir því ekki fyrir sér afhverju hann heyrir hana segja honum frá ferð til Fiji eyja sem hún segir auglýsingarnar ljúga öllu um. þar sé miklu heitara og fólkið fátækara og auðugra mannlíf. hann spyr hvort hún hafi hitt bóndakonuna í fjallshlíðinni þar sem bananarnir vaxa villtir og engin afbrýðisemi eða vísindaleg nákvæmni. hún sker sér blað til að bera fram hrísgrjón í með matnum hversdags og þarf að halda flugunum frá með særingum og bjöllum sem hann man ekki lengur hvað heita en gefa frá sér hljóð sem engin mannleg heyrn fær numið og fælir flugurnar sem láta bresti frá sér fara. maðurinn horfir eitilhörðum augum á grjónin fyrst en svo á konuna. hrækir á kjötið og slær hana. í særingum sínum ákallar hún konuna á fjallinu sem getur snortið fólk víðs fjarri og seytt mjöð sem flöktandi bjarmi stígur af. maðurinn gengur aftur að stólnum og konan hnígur niður með hægum snúningi. í sömu svifum brestur rúðan og svartur og grænn strókur hvirflast inn um brotið. úr húsi fimm hleypur barn beina leið út á götu en snarstopppar í tæka tíð áður en vörubíllinn nemur landið sem hann hélt vera lagt undir barnið. úr hinni stara bláfjöllin sem fyrr jafn tóm

í þrívíðum fókus
 
þau voru sundurlaus orðin af vörum hennar áður en hún kastaði með fagurboginni stönginni. þau viku inn í niðbjarta þögn er hún sveiflaði stönginni einbeitt og beit létt á vörina. það bítur alltaf hér í lygnunni handan við flúðirnar. dularmagn árinnar undir lágum kjarrivöxnum ásum með stöku tré varði hana öllum innrásum hins lífsins einsog huliðshjálmur. yfirborð vatnsins alsett fíngerðum gárum eftir einstaka vatnsdropa og flugur. hún sveiflar stönginni tvisvar uns hún sleppir færinu. lygnan gárast og hringmynduð strikin minna hana á blýantsteikninguna sem varla sást að var þakin fínt dregnum línum á pappírnum. línan hverfur í spegilfarið það bítur aldrei á fyrsta kastið. hljóðið eftir sveiflurnar horfið inn í hjálminn þegar kippur fer um línuna og hún titrar taktfast einn tveir þrír. hún bíður spennt og ofurlítill skjálfti eftir tak hennar um stöngina. augun bundin endapunkti línunnar í þrívíðum fókus sem útilokar ásana og kjarrið og jafnvel kyrrðina. hún hefur upp stöngina í háttbundinni hreyfingu hægt aftur á bak og vindur hjólið í eftirgjöfinni og er ekki til frásagnar um hvernig hún fer að. fókusinn ýtir frá hugsuninni.

aðeins þessi díll sem jafnvel örninn ungi festir vart sjónar á nema fyrir þetta egghvassa horn þarsem línan sker flötinn. agnarlítið andartak ber næstum neon­grænan ostaskera við flötinn en engin hárfín tímasneið úr vatninu að þessu sinni.

línan styttist með næfum titringi í líkingu við tíbrá um ómannað malbik

og tunga hennar líður hægt um varir sem umvefja hvor aðra í óvæntri þrá. orð líða ekki fyrir. máttur vatnsins myndlaus sem vitund hennar sjálfrar. óminni um spænsku fluguna el cordoba. um flötinn töltir brokkgengur rauður fákur setinn ponsóklæddum gildum manni með hatt.

stór regndropi fellur alveg við línuna. gárur flykkjast heim að strönd. hún hefur stöng á ný. fluga sest á ógáraðan hugflöt hennar hún bandar henni frá huglægri hönd. sveigir til andlit sitt alkyrr augu föst á díl. hornið allgleitt orðið ferðast um flötinn. um líkama líður hæglát hlýja fyrir hinsta átak er línan dregst nær miðju hennar föstum fótum í flæðarmálinu. undir yfirborði glittir í agnfestann og ugga hans. örfínar bylgjur um limi hennar. leiknum lokið. hann nemur ógnvænlega landið. önd varpast einsog akkeri. kjölfesta hennar í mynd grænnar og svartrar flugu úr munnviki vekur menjar handan hjálmsins þarsem ótal bifreiðar niða um götur.

og skringileg efnasambönd myndast alla tíð sem lykjast hægt um hjálm og leysa yfirborð hans upp í reykulu formi móðunnar úr hinu lífinu þarsem aldrei fiskast á handfæri veruleiksins. flugu rykkt úr kjafti þenur kyrrð með sprengikrafti. inn ryðst mökkur hluta handan lygnu sem ólgar í stormauga

gráfúnir smellir

þeir eru sjö og standa í beinni röð með hæggengt færiband á aðra hlið en borð fyrir framan sig. þeir stíga taktföst spor með fótum sem rísa upp í líkamann og fram í hendur alveg fram í fingurgóma. handan þeirra rís aflíðandi ýsuhálsaheiðin og í egginni glampar á stafræna sól. hrynjandi í höndum rennir sjö kutum blítt um háls og ákveðið niður kviðinn svo hann opnast í miðju og rosinn blasir við í sindurhvítu sólarkverinu. jafn hart gólfið kastar aftur hverju hljóði. sjö dragsuð og sjö gráfúnir smellir er sjö líkamar sviftast um loft og skella fimlega niður á ný. sjö lágværir kossar og borðin sjö á milli. sjö sinnum endurtekið aftur og aftur út í óendanlegan brunn sem í sífellu kallar að sjö sinnum sjö megi fjöllin falla í glundroða fegurðarinnar

 

IV

kófsandajass

kófsandajass
 
hamrandi veðrið á hlið
kófið ósýnt
næturljósadýrð

hættur skínandi hvítar
ógn mött steig sem styx
sjóveik þessi nótt

á reiðiskjálfi og nöturleg
svellandi glerglyrnur á stilkum
ófær vegagerð

dynur og dimmasta él
krossinn hanginn sviti og kóf
halda viti menn

svefn eins og skæni
á hemuðum polli er kraumar
lægð í myrkri ólgar

ofan af jökli þeyr
í kófi þýtur skefur í drög
heimar þreklitlir undir

svartur er sandur
börnin mín fjarri
ógnir vekja dáðríka drauma

svefni stolið
talað að handan
á kili er nótt
norðurhváll dormar

taugin við steig
óviss og kröm
karon með hægð
sögurnar rjátla

römm þessi hin
og veðraður ofsi
af jöklinum hlaupinn
kálið vart sopið

brestur hem
ólga mig gleypir
hugsun í ró
dorga í vök

verst allra vætta dögun
uppnámið kveður niður
vakan berst leggur við hlustir

kveðandi kófið sjatnar og vex
sýn greið til skýja
gnístir fjallsins egg

feykist mót skýjum himinrönd
við raust kveður dagsbrún
stjáklað í hválnum

uppskera þolgæðis laun
á vilja míns þaninni þind
til máttugra lífs

slæðunnar ljósadýrð sem fáni
við hún nætur óvissa staðar
mitt geð gleður sorg

steig ég til heljar fullbókuð
styx efridís blundar
útsýn freistniglöp

hválverjar stíga á stokk
í vagninum ek ég þeir syngja
mót kófsins svanasöng

skeiðflatakirkju yfir
skorin úr karga
sem davíðsstjarna
dulúðug mannsmynd

 

V

góðvild annarra

góðvild annarra

umvafinn voðunum hvítu svart hárið yfir lemstruðu enni ógróið örið eftir kuta kryfjendenna skýtur mér sekt í sinni. ég hefði átt að bjarga þér úr greip hafsins með voldugu undiröldunni sem hreif þig á augabragði. augu mín á meðan full af mynd þinni svífa hægt en örugglega eftir tjaldi ómælisins opnu fyrir hauði og hafi sem bylgjast baksviðs. grunaði síst að þessi kvika mynd væri hin hinsta af þér lifandi gróin saman við skop og spé andrá fyrr og aldrei færi að draga upp aðra sýn þótt hljómur margra gleðistunda byltist af sakkendu afli ólmt yfir flötinn. ómstrítt flot og feginleiki yfir luktum augum með sveiflum í leit að glötuðum tíma er þú varst fjarlæg fyrirmynd svo nærri og lykt af föllnu grasi fyllti vit í fjarska er blámóða dauðans sveipar andlit einsog vaxborið. engin andakt er ég minnist að við drógum þig um borð sem boldangsþorsk úr dimmu hafi og blóðguðum ekki heldur bárum vondeyfðum augum á borð og ruddum úr vegi diskum glösum hnífum til að mega hnoða þig en ekki knúsa minnugur þess að þú einn kunnir ráðið sem duga kunni

á beru brjósti lítil táknmynd. stafir þinnar heittelskuðu fyrrum og af sviði sprettur þú fallinn á kné frammi fyrir skurðgoði þínu. hnífsoddur við hjartastað. fölvi læðist yfir svip þinn hér á afneituðum líkbörum í messanum öndvert er þú hvarfst mér fyrra sinn án andláts í þorskafjörð aftekinn í aðra fjölskyldu foreldra og faðir þér afhuga barnungum. lifa þér í huga með miseinart krossmark. eyða fylgir nálægð sem togast á í vitund þinni og á ljósmynd sést að við deilum stofnfrumu. þú gætir verið klónn af mér þótt eldri sért. heimar skildir að með ógnardrynjandi þöglum hafís skálds úr þinni sveit en ekki minni þarsem landið sýnist kúkahröngl

og öldurnar gelta við dagsbrún en þú í gras lotinn ég hvet þig sporum sögunnar að þú rísir upp úr þessum öldudal og gerist safneintak nú þegar ekkert gengur nema nýtt sé og ekkert nýtt til fullnustu fremur en kraftar þínir fyrir króksfjarðarnesið að leggja veg að reykhólum þarsem þanghafið átti enn þingmannaleið í land.

öndin horfna úr brjósti þínu undir gullbryddum klút í fagursaumuðum vasa kveikir ódaunsmynd af þér á ferð til þíns afskiptalausa föður yfir heiðar á vit ófyrirséðra ævintýra sem mig hryllti við en þú hélst þínu striki. enginn malur á priki er þú barðir að dyrum fullra átján ára hjá honum sem aldrei hafði séð þig utan hugskots síns og tókst þínum glataða föður endurkomnum opnum örmum

mér var ekki grátur í hug er ég þrýsti brjóst þitt opnum lófa. sá kaffiblett á veggnum kjarkur þinn líkur minni eigin útþurrkun yfir flötu brjósti þínu andvana. annars læstur í þessa athöfn. vanhagar lengi um helftina sem flaug á brott með þinni önd og svífur líklega ofar mér með arnarsjón í leit að sakbrotum að bíta í og steypir sér af ofurkrafti yfir mig svo dimmir undir víðu vænghafinu sem gerir þig samlitan myrkrinu og mér.

ilmrík blóm með eiturodda spretta mér skinn og upp úr osmósu sogar líkami minn hrakningarpínu þína úr einni vistarveru í aðra án kjölfestu hins eina föður því þeir eru margir og þú svo sárlega einn fyllir líf þitt vinum sem fylgja öldugangi glasanna og víkja undan á stórfjörunni og húkka sér far með þér á hraðferð girndar við bálandi orð í hugarfylgsni þínu hver sem þú ert hef ég alltaf treyst á góðvild annarra

á meðan þú hefur eftir konunni úr logandi runna að við lærum að beita vali og valdi sem kemur þér í koll með glæringum og síendurtekinni uppgötvun á teikni­mynduðum renningi. maður velur sér ekki foreldra. sundrað höfuð þitt undir samansaumaðri húð sem ég kyssi yfir hausamótum. úr sprungu daufur skuggi og í hug mér stekkur drottningin sem þú sagðir mér frá í býkúpunni og þráði að vera svört ekkja til að klekkja á körlum fullnýttum sem hráviði um frumuganga og hlóst dátt er þú söngst ó þér tittlingafjöld sem rísið úr sætum og skekist í hrifnæmum kroppum til þess eru vítin að varast og fjölga sér.

hvert er ykkar starf með drauminn í poka og brjóstmerkið ekki saumað en letrað með nál ævarandi spor eftir vélræna kóríografíu eins og grasnál er þú fórst að slátra fyrir ss brýnandi hnífa þína og félaga þinna og skarst þig og var misþyrmt fyrir saklaust brot á vitlausu andartaki

og enginn konukroppur meðtekur þig nú kaldan stirðan. lokið fellur brátt er höfum hugtalað bæn. með hjálp félaganna og lækna vísindanna gætum við komið þér aftur á flot í þessum ólgusjó sem heitir líf.

í hvert sinn sem ég þrýsti á þétt brjóst þitt hér í messanum dettur mér í hug síðusárið sem sálmaskáldin dýrkuðu en veit af hjartans sannfæringu að langkyrrt hjarta þitt tekur ekki viðbragð að blóðið er stöðugt í rás sinni og ég veit afhverju þú gerist nú blámaður í augum mínum líktog hangiflot veit að líklega verðurðu ekki hitaður upp fremur en grjónagrauturinn hnausþykki sem við átum eftir að þú bjargaðir mér úr suðupotti hrynjandi heima þegar við létum okkur hverfa og svo hurfu hinir

og grænn völlurinn með skurðum í hring og hrauka af mold tók mér fagnandi og ég fangaði þetta andartak með mér einum í heiminum að renna saman við sjálfa upphafna sveitasæluna og þú hvarfst og ég var einn vart með sjálfum mér og sjálfur heimurinn hvarf.

sjónbaugurinn allur eitt blikandi grasblað sem bauð mér að fagna sjálfum mér hver sem ég væri en ég vissi varla af mér og hlýddi ekki árboðum og tengdi ekki faðmlag þitt og vangakoss þeim dauða sem nú hefur mér að höndum borið

og það er hvorki sjálfsfróun né líkþrá sem læsir hug minn í líkamlega tjáningu þessarar einu óskar að þú deyir ekki helblár orðinn og stirður í fingrum hálfnakinn eftir að við flettum þig klæðum. slikja af gráum og bláum fölva lykur hold þitt. engin merki um önd þína. sálarfálmarar mínir hafa fengið boð um að einbeita sér að hverskyns bylgjum frá þér hvorki usli né truflun þar heldur dauðalegt bylgjuleysi í ljósvakanum í takti aðeins við fallið hljómfallið í líkama þínum.

ekkert lát á myndum af þér. dauðaóskin veik er þú sýndir okkur hróðugur karlmann-legan lim þinn uppúr fermingu.

nóttina sem þú giftir þig var ég með vini mínum á stjörnulýstu biksvörtu hrauni á heimaey og svo mörg stjörnuhröp að hlaut að vera gervitungl. ólánið kannski boðað með öðrum táknum.

kannski var leiðin mörkuð í ferðinni um kjöl og þú fórst blátt strik að reynisstöðum og prestur sagði þér að fara sexhundruð sextíu og sex álnir til baka með samúðarfullu brosi einsog þínu síðar er þú sagðir mér frá eggoddi sem þú lagðir á brjóst þitt nakinn sem nú frammi fyrir konunni sem þú þráðir að elska og í miðjum leik fannstu merki annars á líkama hennar ólíkt umskornu fangamarki karlmennskunnar sem þú berð einnig innanklæða meira að segja núna á messaborðinu undir mér er ég þrýsti á blettinn sem skeiðungur þinn nam forðum er nautn og sálarháski virtust rista blóðugt hjartalínurit í lífmagnað hold þitt og þú lagðir líf þitt í hendur hennar sem þú hést eilífri tryggð. ekki þessa ögurstund.

útfallið bar hana undan og þú stóðst einn í fjörunni með merlandi sjónbaug eina þörungaflækju og þú lifðir í átján daga milli vita hjartaþegi sem flettir spjöldum sögunnar án þess að brjóta í blað.

sólargeislinn gegnum rykið small á kónginum er þú sýndir okkur verkfræðiundrið undir þér hvernig það þrútnaði og reis einsog vindubrú yfir síkið umhverfis líkama þinn. það var þó meira eignarhald í því en íbúðinni sem við keyptum og leigðum hvor af öðrum til skiptis og saman af bönkunum. ég var gagntekinn af fegurð hans hvernig hann stækkaði allur jafnt eins og mjólkurleiðin gerði víst fyrir okkar minni með svartholinu og kannski enn.

langaði að handfjatla þetta kraftaverk sem getur sætt heiminn svo hann uppfyllir sjálfan sig en þetta fallstykki framan á þér bar líka ógnvænlegan mátt sem ég var tilbúinn að falla fyrir og lúta höfði í nánast óttablandinni lotningu sem ég bar líka síðar fyrir þrútnuðum maga barnsmóður minnar svellandi af lífsins mætti sem okkur er meinaður aðgangur að og lotningin varð smám saman í líki magnaðs lims miklu stærri en þinn eða minn og lamdi sál mína í formi áleitinna brjósta fullum af frjómagni

hvítasti hluti líkama hennar sveipaður álíka bláma og húð þín nú er ég þrýsti aftur á þitt lífvana brjóst án snefils af frjómagni ég veit að bráðum koma maðkarnir og gera innrás og útrás í holdi þínu halda svallkennt karnival þar sem kvenlegt verður karllegt og hátt lágt og helgislepjan breytist í grómaða slikju og limur þinn sannkölluð maðkaveita einsog snorrabúð stekkur fjarskyld músinni hvort sem hún læðist eða ekki

nú sprettur á hugarskjáinn sagan sem þú sagðir mér svo ljóslifandi í þrívídd sem skjákort ráða við í dag er þið hittust fyrst og þú að jafna þig á því að hafa farið heim með hálfsystur þinni kvöldið áður og uppljóstrunin kom í miðju girndarbáli beggja þú komst ekki upp orði og horfðir flóttalega undan einbeittum augum hennar þú sást þau voru grænleit brjóstin hvelfd og hálfklædd lagðir þó ekki í annað völundarhús svo fljótt

engin venjuleg ástkona sem þú braust inn til og tókst með valdi og farið með söguna einsog mannsmorð alla tíð. leynisaga í fjölskyldunni mamma mia hvað kom eiginlega yfir þig hún sem átti þennan hlýja faðm handa okkur öllum. gat hýst okkur og stundum úthýst þótt sjaldan sæjust tær hennar oftar tár eins og er þú sagðir mamma mia hvað heldurðu að sé gaman að heyra þig hóta að drekkja þér en gerir svo aldrei neitt í því og hafðir þú brjóst í þér til þeirrar nauðgunar sem þú beittir hana sem ég sá svo nýlega í öndunarvélinni svifta rænu líflaust flæmi um líf mitt sem hófst í huga hennar brjósti og líkama.

þú rekald í brimróti læknis­fræðinnar sem stillti haf hennar máttugri hönd sinni án þess að nefna neitt fyrirheitna land. rekum rekum yfir sandinn eða í torfið. hvar varstu adam. skarið undir blaktandi önd hennar löngu eftir að henni heyrðist svarti kötturinn læðast inn um glugga og þú slóst vopnin úr höndum hennar berskjaldaðri og fuglinn í búrinu berst fyrir lífi sínu sönglaust másandi kötturinn gamnar sér smá nístandi þögnin gnístandi eins og samanbitnar tennur sem manstu var líka úrræðið hans eftir voðaskotið sem klippti á strenginn í brjósti bróður hans á öræfum þagnarinnar engir bræður úr stað reynis bara þú sem ekki mátti nefna né kalla fram

æ bróðir hvers kyns ætt er það þar sem böndin eru skorin andspænis slöngu í barka til að upphefja hreyfingarleysi andar í brjósti sem vætir augu og hraðfrystir hjartarætur undir tvö vakandi augu og tvö sofandi mamma mia hvar ertu undir þessari feigðar­ásynd og slöngu úr vegg

blásléttur fjörður með bát eins og alltumvefjandi föðurfjarvera. við til í að skiptast á pöbbum í langdvölum þeirra í útlandinu og sólin glampar á vanga þér á steini í fjöru. blakkur makkinn geislabaugur. mynd í minni greypt sem á vínyl og hvorki ryð né mölur fá grandað tærleika sviðsins. þú oflýstur sem bernska þessarar birtu og eggjárn framtíðar rista myndflötinn hleypa óðfluga myrkri að. þú syndir annað fljót langt út í fjarskann nærri útlandi þessa bliks og sökkvir sjálfum þér í ána undir heima.

þú á steini um eilífð geislandi bróðir einn í minni nálægð og trúir enn á guð á himni skimandi á haf út hvort báturinn beri þér föður þinn. myndin óverjandi þögul og gul. nándarþögn. að genginni lífsleið jartein að engin flugvél ritar á himnu loftsins. festing án fyrirheits um manndómsvígslu guðristunnar sem gárar ekki merkingarhafið en párar á heilahimnu ævarandi mark

líktog morgun þann er þú vaknaðir til eilífrar fjarvistar við föður þinn sem sjóreknum skolaði á land sjálfan langa frjádag bjartan og blíðan sem á uppskeruhátíð eða þann dag er þú loks sættist við guð og menn í fullkomnu ósætti þess sem látinn lifir þegar nálægð alls er vakin upp af endanlegri fjarveru alls og allt er ekki þú ert ekki og aðeins himnastiginn eftir til hans sem við rístum saman úr heimsmyndinni með holdföngnum

sjálfskeiðungnum og tómlátar vestumeyjar hljómuðu hærra til þín

 

VI

Draugaveiki

eftir

Luis Alberto Urrea

Bálkurinn birtist fyrst í tímaritinu Many Mountains Moving 1996, en síðan í ljóðabók Urrea Ghost Sickness 1997.
Þýtt úr ensku og spænsku eftir The Best American Poetry 1996.
Guðrún H. Tulinius þýddi 12. ljóð bálksins úr spænsku.
Hluti þýðingarinnar birtist í Jóni á Bægisá. Tímariti þýðenda, 2004.

            Draugaveiki

 
þannig er hljómur eitursins
veikinnar sem engum er kunn
endurgelt

          1

Ég sá dauðar sykurkúpurnar kinka kolli.
Þær dönsuðu í skúmaskotum ljósar
af bruna.
Börn sleiktu stafi í nöfnum sínum
af glitrandi sælgætisennum. Hóruhúsaskáld
hvísluðu laumuskýrslur
að rjómaísklæddum byssubófum.

Sástu norðanmennina detta,
hringsnúast við þurra farvegi og falla
fyrir vélbyssum fjögurra hungraðra drauga,
leirbrúnir frakkar með rauðum slettum í blóðgum blóma.

Í svörtustu auðnum sökk Pancho Villa
hauslaus að holum hnjám
að sárbæna óteljandi sofandi kirkjugarðsbein
að taka sig heim, að finna veginn sem hann sá ekki,
að fylla tómar hendur hans af draumum.

Hjartarhorn úr reyk frá rísandi mawuiladoras.
Langa daga stóðu börn í bláum jökkum
með radíumblóð við vinnuborð að tengja rök
rásir RCA, IBM, ITT, ICBM: tíu sent
á tímann: rauð blóm þegar í móðurkviði þeirra,
þau slógust um pláss við taco-borðin, flautan gall
og þau flæddu, blátt flóðið við Tijuana,
Tecate, Mexicali, matamoros. Fita
skvettist og skaust á glóandi kol. Gamlir menn
móktu á skítgljáandi gangstéttarbrúnum. Gulbrúnir vangar
skornir í ársorfnar hrukkur: upphleypt
kort gleymskunnar.

Við fylgdum mexíkóska veginum,
skröngluðumst dimman fjaðurstrokinn ormshrygg
í bugðum um dæmd eldfjöll. Dapurlegir
baksárir trukkar
drógu háreist rykhrímuð hlöss
          gjóskukeilur
          hentust fríar
          í malarbeygjum

          og flýðu
          niður hlíðar:
              hnefafylli af steinhvísli.

Faðir minn heitinn við stýrið.
Svöl hönd á gírstöng, grár handleggur
út um glugga, boginn: sígarettu miðað á sólina,
neistaflug, hvítir hnoðrar
á reykugum vöðvum hans
          sem hafa slappast í vindinum,
              í gröfinni, lausir –
                   rifnir
                        í vindinum
                            hann kipptist við
og húsin
við þjóðvegarkant
æddu hjá,
svo mörg
dreifð póstkort –
sótt-ljós
í hverjum dyrum:
afar hölluðu stöfum að bekkjum,
konur greiddu ár úr hári sínu,
páfagaukar logandi í búrum.
Faðir minn sagði
         Það er ekkert eftir.

Börn í vegkanti
skutu af viðarrifflum:
paz-paz-paz: seldu armadillo
í litlum pappírsboxum: dönsuðu
á barmi barrancas:
bjuggu
13 álnir
frá vegkantinum.

Á hraðferð okkar grófum við
órjúfandi skotgröf
fulla af þrá,
skuggum,
útvarpstónlist.

              2.

Ég flúði þetta land með Manninum.
Norðurmærin runnu af gaddavírsbaki mínu.
Skuggi minn, tættur eins og skyrta hins bakblauta
sem flaksast enn.

Hvernig gæti ég orðið
sá sem ég vildi vera: ég leitaði að framtíðarmér
í augum mannanna, einhverju merki,
einhverju tákni: svo óður var ég
í manndóm.

Að vera
          kúreki.
Að vera
          stór pabbi.
Að vera
          el mero chingon de estos rumbos
          y si no les qusta, les hecho la tierra encima.
Að vera
          elskhugi kvenna.
Að vera
          jimihendrix.
Að vera
          allt nema það sem ég var.

Hvað fékk þessa menn til að snúa aftur
sérhvert kvöld, skarðir draumar,
áhyggjur hertu að er þeir gengu upp tröppurnar:
Kyssa konuna Stilla klukkuna á 6 f.h. Borga gasið
Hita bílinn Moka snjó Engar magaæfingar í kvöld
Hjartaáfall Kólesteról Borga leiguna Nestisboxið
Kalt kaffi enginn sykur lítill rjómi
Gelgjuskeið dótturinnar Fótsveppir Yfirvinna Fyll’ann
Dan Rather Kirkjugarðsvakt Íran Írak Bjórflaska
IRS GMC CBS HUD PMS BVD Sköllóttur Andfúll
þursabit, ólukka, gúmmítékki
og strákavonir
brotnar saman undir ófleygum vængjum.

Þrömmuðu Mexíkóar heim
í gegnum martraðargötuljós? Það gerði faðir minn.
Uns hann gerði það
ekki.

              3.

Hann kom ekki aftur.
Hann með sína manndómslykt
sem ég rakti allar þessar mílur:
tóbaksilminn,
vélarlyktina,
glaumgosapjásulyktina.
Fótaduftið hans
sorgmædd
hungruð
reið
einmana
þreytt
holhandar, hárvatns
föðurlyktin hans.

Hann flúði frá gröf
til móðurkviðs.

Hrein eins og speglar sögðu
augun mér
ekkert.

              4.

Þurrkar drápu kýrnar. Harður sólarhnefinn
þurrmjólkaði þær, henti þeim
í polla eigin skugga.

Vatnslausum.

Á þjóðvegaköntum ultu kýr
um koll: 4 stífir fætur
eins og á húsgögnum. Bólstrið slægt
af gljásvörtum hrægömmum: dauðasófar
riðuðu,
sundurtættir.

Þvílíkur hiti.

Varir okkar hvítur pappír.
Skrautritaður rauður hlátur.
Þvílíkur hiti
á landinu þar sem nóttin
elur af sér fínt snjósigg
á hásléttum sem dögun hreinsar
í gufur.

Vegurinn
skildi eftir fullkominn svip af mér
skar út sérhvern míkró-
millimetra vinds,
tunglið
snerist hægt eins og auga
sólbrennt hvítt.

              5.

Niður ströndina
lágu skjaldbökuveiðimenn
í fjöruskúrum
fastir
í umvefjandi netum
hitans.
Konur
vafðar í sand
dimmir andandi
skuggahnútar
Þurrar skjaldbökuskeljar
vögguðu
í vindinum,
tikkuðu
eins og fornar klukkur.

Veiðimennirnir í rykkjum
veiddir
í drauma
um öldur
tunglfisks
blóð.
Hungraðir menn
svartbrenndir.
Menn með sjávargötulykt
jafnvel í svefni.

                        fyrir James Atlee Phillips

          6.

Á lífi dreymdi hann upphátt.
Hann svaf í ermalausum nærbolum, hvít punghár
hjartalaga draugur. Tvö brakandi rúm, neon gluggar, viftur
tuggðu flugur í mauk, hræktu
þeim yfir okkur: þunnt regn
fóta, fálmara.

Gekkóeðlur á veggjum
sleiktu kóngulær upp af múrsteinum.

Og svo hann að dreyma.

Hann gnísti tönnum og bylti sér,
þétt blikandi stjarna
bundin í rúmföt: tennur hans
kvarnaðar, tístandi
fastar í munni hans.
Ég fór í keng.
Mig langaði að ná til hans, löðrunga hann
í svefni, á hótelherbergjum, á miðnætti, klukkan
eitt, klukkan tvö, þrjú: teygja mig yfir þennan grát
múr sorgarinnar, hrópa
          hættu þessu, vaknaðu. stöðva
gnístandi molnun er hann tuggði.

Hvaða kaldi draumur knúði hann yfir rúmið?
Hvaða sýking sálarinnar náði taki á munni hans?
Flugu grófir neistar af brotum hans? Kveiktu
í dreifðu laufi ósagðra orða á tungu hans?

Hönd mín hékk frosin yfir honum.
Allar borgirnar óttuðust málmöskur
eina föður míns að gleypa tennur sínar.

              7.

Klukkan var að minnsta kosti þrjú um nótt. Rútustöðin var við langan ólýstan þjóðveg. Það var svo heitt að bakið á manni rann yfir sætið á fitubólstri. Og vatnið var hreint eitur. Við stoppuðum til að fá okkur kók, hreinsa örsmáa rykkögglana úr hálsinum. Þakið var úr gufuljósum; það merlaði, merlaði; mölflugur á stærð við dúfur slógust upp í pípurnar. 2 Bandaríkjamenn stóðu við gluggann að prútta um fargjaldið. Hálfur staðurinn var eins og rökkvaður veitingavagn í hinum enda herbergisins. Bara nokkur borð, þrír stólar við barborð. Ég stóð og starði. Krakki sat við borðið og hrein í skugganum. Hann var á kafi í fiturúllum. Fitan hékk yfir bolkragann hans aftan á hálsinum. Augun voru á stærð við baunir, djúpt sokkin í gult og slakt úttroðið andlit hans. Ég heyrði munn hans vinna, þessi lágu blautu hljóð. Hann hellti sykri í hnefann úr einum af þessum borðsykurkörum með skáskornum krómtoppi. Þekkirðu þau? Hann var að hella sykri í hnefann eins og hnefinn væri kaffibolli, fyllti hnefann og hallaði síðan höfðinu aftur – fitan vall upp á flatan diskinn, hringir Satúrnusar stífluðu púls hans – og hann hellti sykrinum út á. Átti hann þessa 2 við barborðið? Voru það foreldrar? Með bakið í okkur, húkandi gegn hríni hans, örsmá augu hans föst við andlit mitt,  litlir votir smellir hans. Hann sleikti sandinn af vörum sér. Starði. Starði á mig. Lítil hljóð. Hrín. Hella, hella, gleypa, hnefa eftir hnefa, alla nóttina, yfirgefinn.

            Halló sagði ég við hann.
            Bróðir!

                        8.

Faðir minn fölur eins og nögl á fingri
keyrir í æðiskasti
gegnum draugaþunga nóttina.

                        9.

Svo þú ert maður sagði hann. Hvað tekur það mikið líf
að verða maður sagði hann. Hve mikið líf.
Þreyttar konur

                                   á árbakka

            beygðar til móts við skugga sína.

                    Fölir
             eins og páskaegg riðuðu
        steinar.

Einhver hló.

Flaksandi
            rúmföt
                        þanin
                                   eins og fánar
                                                     í óvæntum
                                   blástri!

Endur-
lýstir,
fætur.

Röntgenlýstir.
Þandir:
            hendur teygðar upp:
                                         flug
                                                  á jörðu:
                                                           í
alsælu
hversdagslegt.

Skyrtur, pils, nærbolir.
Bleyjur, brjóstahaldarar, leynilegir
                                   litaðir
                                   kvenna
                                   hlutir,

                                   hent inn
                                   skrúbbaðir
                                   lamdir:

                                   froða
                                        fór af stað
                                   sjálf:

            loftbóludráttarbátar, ísjakar, drekar
            fóru niður
            í gegnum þorpið.

Eitt útvarp gall við: Ást
í borgum enn óséð:
Canta y no llores, porque cantando
se alegran
                                   Cielito Lindo
los corazones!

            Allt þetta svarta hár
            beint
            niður
            eftir baki þeirra
yfir axlir
            að skrifa
            marg
                        fló
                                   kin
vers yfir hálsinn. Berir fætur með fjólubláu mari.    Brenndir sumardökkir. Sviti

strengdur frá hálsi að viðbeini tærar ómetanlegar perlur
                                   slitu
strengina og skullu
í vatni
greyptu lögbók
sem ég reyni
á hverjum degi

að ráða í.

                        10.

Slá því.

Keyri óður gegnum bæinn, útvarpið stillt
á fituspýtandi farandsöngvaraöskur, drukkna hvítkrýnda úlfa,
sexbyssu skáld að rymja heiðin guðspjöll um tekíla
ást
morð
eyðingu.
Sex menn á Volkswagen, óteljandi draugar á þakinu
        sem héngu fyrir dauðann kæra, gúmmí brennur
        á götusteinum er við snarbeygðum
        fyrir enn eitt hornið,
        nístandi gufuorgel
glymjandi hlátursins, hungdá
miðnætti útjaðar
einhvers flugnaskítsbæjar,
kirkjugarður við hliðina
á hóruhúsinu, lengst í burtu
þar sem hróp og skot
og lúðrar og molnun vekja engan.
Strákofar í röð eftir hverfinu þar sem konurnar sofa
hjá baðkörum, sjónvörpum, sælgæti, ljósmyndum, ediki,
sígarettum, tímaritum, útvörpum, minningum, draumum,
næturgögnum, nærbuxum, rakvélablöðum, meiki,
flöskum, ungbörnum, martröðum, og hver með bunka
af teygjubundnum bréfum frá einhverjum draumapilti
sem fór og kom aldrei heim aftur.

Grafa merkin: CLUB VERDE PARA HOMBRES:
            CUELGEN SUS PISTOLAS.
Hengið upp byssurnar, piltar. Feitar löggur við dyrnar
þreifuðu á okkur öllum, leituðu að hörku innanklæða,
drógu úr beltum karlanna 38 calíbera, 44 calíbera,
hengdu þær  á snaga við barinn. Myrkur
fnykur af klósettum
sem lak úr í klefunum. Krjúpandi rónar
krupu við skálarnar, iðrandi biðjendur
til Heilagrar Meyjar Skítsins. Og inni fyrir –
borð á brauðfótum
úr tini – flagnaðir límmiðar fastir
á framhandleggjum okkar, bjartar
pappírsfreknur: TECATE
DOS EQUIS
CORONA
CARTA
BLANCA.

Löng blá augnlok samkynhneigðra barþjóna.

            Steypt dansgólf flekkuð
sem kort af glötuðum heimum
eftir niðurhelltan bjór, eftir skóhæla, eftir flata
kvensandala.
Svart hár litað appelsínugult
eins og ódýrir skór.
Svartar holhandarfjaðrir klesstar af svita.
Í þessu horni rokk og ról:
blindi gítarleikarinn
fylgdi hljóðum
með höfðinu, mjóu eins og priki,
söng:

Old jou need es lob.

Love is all you need.
Love is all you need.
Þú getur keypt hana hér.
Renndu niður hárinu, taktu af þér húðina.
Við horfðum á þau dansa — vinnumenn
hömuðust við að skemmta sér, hórurnar
            uppskáru af þeim og ýttu þeim
            út í aðra uppskeru.

Allir þessir kjólar
í höndum bændanna orðnir linir
rytjulegir
eftir 1000 lófa.
Við dönsuðum með þeim.
Love is all you need.

Umhverfis herbergið
hleyptu ódýrar
viðarhurðir út ljósi
í gulum röndum
frá klefum
hverjum með 1 rúmi, 1
ljósi. 1 krukku. 1 skál.
1 konu.
1 filmukenndu
kynósa stelpumóti
hentu yfir þennan
1 viðarstól.
Engin útgönguleið.

Ég sá krossfestinguna yfir rúminu, svo hana.

Sígarettubrunar flúruðu þvengmjóa handleggi hennar.
Gegnum opnar dyr
sá ég.
Love is all you need.
Hún dýfði knýttri blóma
tusku í skálina, dreypti vatni á brjóstið, á hálsinn,
á fótinn,
            færði lærin sundur og á hinn fótinn
            svo þreytt að hann titraði. Ég vissi
að þunnt hár spratt upp eins
og mistur af röku holdi og reis.
Hún strauk kinkandi brjóst sín undir kjólnum, þvoði af sér hitann,
þvoði af sér þungann af brúnum rifjum, þvoði af
            lyktina, tilfinninguna,
fingraför.

Og leit síðan upp.

Ég brosti yfir herbergið, skömmustulegur þrjótur
í gegnum lög af reyk.
Gláp hennar brenndi bros mitt til ösku.

Þú ert svo brosmildur, muchacho.
Þú þykist  votta mér
samúð, eða eru þetta
viðskipti? Heldurðu
að þú skiljir?

            Love is all you need.

Þú skilur aldrei
fyrr en þú liggur hér
tíu eða tuttugu nætur
og hugsar heim.

            Love is all you need.

Þú getur eytt peningum
til að hvíla í mér.
Ég mun bera þig.
Getur þú borið mig?
Og ef við hittumst á miðnætti?

            Love is all you need.

á plazuela bæjarins,
þú með glósubækurnar þínar
og ég með blómin mín
alltaf að passa mig að heilsa ekki
neinum

            Love is all you need.

þú munt líta undan.
Skammast þín fyrir það sem þú settir hér.

Og ég mun ganga á braut
út úr bænum lengri leiðina
af því að þú keyptir það besta í mér
þögn mína.

            Love is all you need.

Hvorugt lítur um öxl.
Síðan ferð þú
en ég verð eftir
á morgun
og á morgun
og á morgun.

Love is all you need.
Varir hennar voru útataðar, litaðar brostnum brosum.
Ég benti á munn minn. Hún strauk andlit sitt. Hnútur
baðmullarblóma hreinsaði tennur hennar.
Við vinkuðum.

Blindi gítarleikarinn æpandi í horninu.
Skældur Jesúsinn að engjast í kvölum Sínum.
Glampandi myntflóðið sem lenti á rúmi hennar, dökkur ráðsmaðurinn
       að ryðjast inn, hún gaut á mig auga, hendur hennar
       við ennið, hjartað: tákn krossins. Dyrnar að lokast.
She loves you yeah, yeah, yeah.
                       11.

og hann ekur

ég horfi á hann

hann ekur

öll engin brenna svört umhverfis hann

vélin hóstar upp neistum

eldur sleppur

tóm fljót

múmíur kippast til neðanjarðar

hann hlær

ég horfi á hann

vélin hóstar upp blóði

logandi hrafnar skella á framrúðunni

allar þessar fjaðrir

og hann ekur

og ég horfi á.

                        12.

Mi padre, muerto
ya por interminables años, no me deja
en paz: no se quiere ir: lo veo
cada día. Mi viejo se esconde
en los árboles, en el agua, en
las nubes de humo que huyen
de los cigarros de secretarias. O se mete
como ladrón
por mis ventanas
y me roba la comida. Es vivo: es capaz
de esconderse en la luna.
Y me dice,
–             Hijo, no queda nada.
     No queda nada.

Mi padre, sembrado
en su tierra Mejicana, echando retoños
en la pradera obscura del olvido, brilla:
cuando apago la luz, su cara
tira chispas en la esquina. Cuando
hago el amor, viene
corriendo. Cuando salgo
a la calle, me persigue
por los ojos
de niños callejeros.
Usa tacones de oro.
Me huele el café.
Lo veo
sin verlo.
Y me dice,
               – Hijo, no queda nada.
               No queda nada.

Mi padre, muerto ya y hecho polvo, llora
lagrimas de barro. Con voz de piedra me grita, me canta
su último consejo:
               – Hijo, tu vida es una moneda.
               Gástate bien. Porque
               no queda nada.
               No queda nada de mí.

                        13.

Nú veit ég
það sem þú reyndir að segja mér:

vindurinn étur sléttuúlfa.

Hann gleypir okkur líka
sem stöndum kyrrir nógu lengi.
Jafnvel málmgrýtislestarnar þéttar eins og stjörnur
hökta í eyðimerkurvindinum:
flatar að framan eins og nöðrur hverfa
vélarnar.

Vindurinn étur hæðirnar,
steingervingar verða að talki.

Í fjarska leggst sjónbaugurinn saman:
þornurtir bera burt
Mexíkóna okkar:
tíu þúsund mílur af andardrætti
safnast saman undir mánanum,
hósta upp gernýttum nöfnum okkar
og hrærast.

Við komumst ekki undan högginu:
fangelsisrimlar okkar
eru minningar,
eru bein.



            12. ljóð

Lausleg þýðing úr spænsku
Guðrún H. Tulinius þýddi:

Látinn fyrir svo
ótal löngu lætur faðir minn mig ekki
í friði: neitar að fara; ég sé hann
á hverjum degi. Sá gamli felur sig
í trjánum, í vatninu, í
reykskýjunum sem hrökkva
frá vindlingum ritaranna. Eða hann smeygir
sér eins og þjófur
inn um gluggana hjá mér
og rænir mig matnum. Hann lifir: getur
falið sig á tunglinu.
Og segir við mig,
–  Sonur minn, öllu er lokið.
    Öllu er lokið.

Gróðursettur í jörðu Mexíkó
skýtur faðir minn rótum
á dimmum völlum gleymskunnar, skín:
þegar ég slekk ljósið leiftrar
andlit hans úti í horni. Í ástar
leik mínum kemur hann
hlaupandi. Er ég fer út á
götu eltir hann mig
í augum
barnanna á götunni.
Hann er á gullhælum.
Kaffið ilmar að vitum mér.
Ég sé hann
án þess að sjá hann.
Og hann segir við mig,
            Sonur minn, öllu er lokið.
Öllu er lokið.

Dáinn og að moldu orðinn grætur faðir
minn moldartárum. Með bergrómi kallar hann á mig, syngur mér
sitt hinsta ráð:
            – Sonur minn, lífið er peningur.
               Farðu  vel með. Því að
               öllu er lokið.
               Mér er öllum lokið.

Luis Alberto Urrea
fæddist 1955 í Tijuana í Baja Kaliforníu og er móðir hans bandarísk en faðirinn mexíkóskur. Urrea vann um nokkurra ára skeið sem afleysingamaður Mexíkó-megin við landamærin og kenndi námskeið í gagnrýni og skapandi skrifum við Harvard á níunda áratug síðustu aldar. Hann býr jöfnum höndum í Klettafjöllum, Sonoran eyðimörkinni og Mexíkóborg. 1996-1998 vann hann að rannsóknum á ævi og starfi frænku sinnar, Teresu Urrea, sem var uppi á nítjándu öld og varð dýrlingur Cabora. Hún öðlaðist fyrst lækningamátt en varð síðan tákn fyrir baráttu hinna undirokuðu frumbyggja og loks ákærð fyrir að æsa til byltingar gegn einræðisherranum Porfirio Diaz. Árangur þessara rannsókna var skáldsagan The Astonishing Story of the Saint of Cabora (1998) sem Urrea skrifaði í samvinnu við mexíkóska skáldið Brianda Comecq en nýjasti ávöxtur þeirra er skáldsagan The Hummingbird’s Daughter (2005). Meðal bóka Urrea eru einnig sjálfsævisögulega verkið Across the Wire: Life and Hard Times on the Mexican Border (Anchor Books, 1993), skáldsagan In Search of Snow (HarperCollins, 1994, í kilju 1999), ljóðabækurnar The Fever of Being (West End Press, 1994) og Vatos (2000), og ritgerðasafnið By the Lake of Sleeping Children (Anchor Books, 1996), sem fjallar um lífið beggja vegna landamæra Banda­ríkjanna og Mexíkó.
     Urrea hóf ritun „Drauga veiki“ um 1970 og segir um tilurð bálksins: „1970 bjó ég eins og villt barn í Culiacan og á tanganum þar suður frá. Faðir minn hafði dregið mig þangað af ýmsum ástæðum en aðallega til að „gera mig að manni“. Hann skildi mig þar eftir og fór aftur til Kaliforníu. Um sumarið fékk ég taugaveikibróður og var með hitasótt og ofsjónir dag og nótt. Eitt sinn horfði ég á einfalda röð Bandaríkjamanna í skrúðgöngu um himin­inn. Sumrinu lauk með tuttugu og sjö tíma rútuferð heim og einangrunarvist á bandarísku sjúkrahúsi. Ég greindi ekki milli minninga minna og sóttdrauma og þetta ljóð á meginrót sína í leirkenndum dalnum þar á milli.“ (The Best American Poetry 1996).