drengmóður

drengmóður (2007) fjallar um bernsku skáldsins og kallar upp gamlar slóðir þar sem borg og sveit mætast í bæjarlandinu ekki síst í kringum Elliðaár og hraunið milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
     Ljóðin rifja upp bernskutíð skáldsins og draga fram myndir af Reykjavík, ekki síst mótum borgar og sveitar, yss og kyrrðar, en einnig hættur vatnsfalla og hrauns. Guðstrú fær hér meira rúm en í fyrri bókum. Vísað er í margvíslega atburði í heiminum, t.d. geimkapphlaup og lendingu á tunglinu, morð frægs fólks og fleira.
     Í ljóðum er einnig fjallað um ofbeldi af mörgumtoga innan fjölskyldunnar og einelti gagnvart henni. Drengjakollur ömmu skáldsins kallast svo t.d. á við David Bowie og málmtónlist.

Útgefandi GB útgáfa 2007
105 bls.
Garibaldi
tók myndir á kápu og hannaði bókina alla.

drengmóður

 

tileinkað Baldvini bróður mínum

drengjakollur

á rauða veggnum í stofunni
er mynd sem mér er afar kær

af ömmu minni með drengjakoll
hún er svo frískleg og ung
með þessa frönsku greiðslu
og nefið eins og á frönskum kóngi
eða Goldu Meir hún amma
hafði stundum tíma til að spjalla
við mig barnungan þegar ég
hélt í hespu fyrir hana
eða hjálpaði henni að binda á öngul
og fannst ég fullorðinn og hún
sagði mér að þær systur hún og Eyja
hefðu borið fimmtíu kílóa
kolapoka á bakinu og fengið
fimmaura um tímann
en karlarnir tíu

í stríðinu sem fór framhjá landinu
þegar hún var að eignast
fyrstu börnin og myndin af afa
með barðastóra Stetson hattinn
og yfirskeggið minnir mig á
að löngu síðar skildi ég
af hverju hún gerðist aðventisti

það var ekki bara trúin
og ekki heldur kvenfrelsi
drengjakollsins eins og í París

hann missti pabba sinn
fyrir fæðingu og mömmu sína
nokkrum árum síðar og svo
bara var hann allt í einu
fullorðinn og búinn að þvælast
frá Mýrum suðrí Garð og
til Reykjavíkur lúbarinn
hér og þar og orðinn
ástfanginn af þessari
fögru snót með drengjakollinn
og farinn að drekka og vissi
alltaf hvað hann gerði
svona nautsterkur sem hann var

amma prjónaði sokka og vettlinga
í ellinni handa barnabörnunum
í jólagjöf uns hún gat ekki meir

amma bowie metall
 
hún ber höfuðið hátt
með hægri höndina
á öxl mannsins
sem sagði við hana
fjórtán ára
nýkomna til borgarinnar
í byrjun aldarinnar
þú verður konan mín

efri vörin mjó og inndregin
eins og á mér
ég hef líka frá henni fellingaraugun
eins og Gúndi frændi

tvítug hafði hún fætt tvö börn
fæddi níu börn um ævina
drengur andvana
dóttir lést fyrir aldur fram
tæplega þrítug

og líkvakan
með andaktinni
dró mömmu mína næstum
til dauða

árið sem hún sá Sigurjón sterka
lyfta stóra eikarborðinu
með annarri hönd
á öðrum enda þess
áður en hann gekk
yfir Rauðarána og Háaleitið
niður Sogamýrina
yfir Elliðaárnar framhjá Ártúni
fyrir Grafarvoginn allt upp í Gufunes

hún amma átti þrjú í fertugt
þegar hún hafði fætt öll sín börn
það elsta tæplega tvítug mær
og skýlið já skýlið
ekki beint skýli
fyrir börn og mamma yngst
alin upp með rónunum
sérvitringunum og þeim sem
ekki gengu alfaraveg
fátæklingum og erfiðismönnum

fyrsta minning hennar um strák
með svarbrún gleraugu og mjóa rödd
sem hrópaði út á sjóinn
nei sko rauða boltann
þegar það var hún
sem hafði dottið í sjóinn
tæplega þriggja ára
í uppáhaldsbuxunum
eldrauðum með axlaböndum
og smekk
beint ofan úr glugganum sínum
uppi á lofti skýlisins

og afi þurfti að stilla
til friðar í matsalnum
í skýlinu
er Oddur af Skaganum
ókyrrðist í sínum hnjávöfðu skóm
og víkingaklæðum
og Jóhannes á Borginni
stjakaði við mönnum
og allt í steik

og bróðir hennar lá síðar
áratugum saman
lamaður af áfengiseitrun
og konan hans hjúkraði honum
fórnaði lífi sínu
fyrir ástina í lífi sínu
í aldarfjórðung
hann lá í rúmi sínu
gat ekki reist sig upp við dogg
lítillega hreyft hendurnar
en brast athygli
eftir fimm mínútur
og þurfti svefn
greipaldinið smakkaði ég þar
svo súrt svo súrt
en hann drakk sko annað
líklega tréspíra sem getur
banað manni

amma hrósaði mér fyrir
að heimsækja hann
mér fannst hún eins
geta hrósað mér
fyrir að draga andann
og var svo fegin að ég
skyldi fara með henni í strætó
það var mér heiður
og hún keypti af mér blöð
kristilegs stúdentafélags
sem ég notaði í annað
keypti mér fótbolta
og strengurinn brast
var hægt að tala í einlægni
þegar maður var syndugur
í augum sjálfs sín
sá ekki guð allt
og tilkynnti ömmu
sem var í sérstöku sambandi

stundum skildi ég ekki ömmu
hvað hún var fegin
alls konar sjálfsögðum hlutum
heitu vatni eða þvottavél
stígvélum og hlýjum peysum
voru þetta ekki mannréttindi
eins og jöfn laun fyrir sömu vinnu
kannski ekki hjá koli og salti hf
en allavega í nútímanum
kalkofninn löngu horfinn
og kalkofnsvegur búinn að glata
tengslum við fortíðina
þegar hún bjó við sjóinn
hjá bæjarins bestu
hefði Clinton þorað þangað
sjálfur Tryggvi Gunn jafn fjarri
og Skálavíkin hennar Júlíönu í Seattle
í Washington í Bandaríkjunum
allt hendingu háð

og amma táraðist
þegar ég laug um heimilið
sagði allt fínt
og ég gæti vel lært
eins og hún vissi betur
grunaði kannski kuta um nætur
og öskur og hvæs
eins og hún þekkti heiminn

ég skildi ekki ömmu
jafnvel þegar hún sagði að karlar
hefðu tvisvar sinnum hærra kaup
við kolaburð á eyrinni
eða þegar hún batt öngla
eða bað mig að heimsækja
systurdóttur sína
og sagðist svo þreytt svo þreytt
þegar hjónin töluðu saman
á hærri nótunum
inni í stofu

það var erfitt að neita ömmu
um nokkurn hlut
svo ég hætti að heimsækja hana
eða tala við hana

hún var ekki fulltrúi guðs
hann var fulltrúi hennar
og alsjáandi auga hans
sagði hennar allt af létta
hverja stund

þegar deilur spruttu
um framtíð bróður míns
sem var sendur í fóstur átta ára gamall
fyrir óknytti og stelsýki
og hann þá átján ára
og mæðurnar deildu
eins og fyrir botni miðjarðarhafs
þá var vitnað í ömmu
eins og hún væri guð
eitt var að venjuleg manneskja brygðist
en að amma brygðist
var sem sjálft syndaflóðið
steinn stóð ekki yfir steini
grundvöllur lífsins
ekki neinn

jólin sem amma sendi ekki gjöf
brugðust jólin
pabbi og mamma með hnífinn
hurfu í skuggann

ég var tólf ára og andlitið hljóp upp
með ofnæmisskellum og kláða
af því ég sagði henni ekki satt
seldi ættinni blöð
og keypti fótbolta
alltaf sami svindlarinn
guð minn amma
Alla gef mér rúgbrauð
sagði ég við ömmu vinar míns
á Skúlagötunni
af því hann sagði það alltaf
en henni var ekki skemmt

og Hörður Torfa var dæmdur
til dauða
af dómstóli alþýðunnar
og mér fannst flott er hann
sagðist hommi

ég meina hvað er það
mér fannst hann gunga að flýja
til Köben
þótt einhver hótaði honum
ekki flúði afi minn
þótt einhver hótaði honum
nei hann slóst
með berum hnefum
eins og listmálari
abstraktbálari

flótti og flótti
ekki alltaf á hreinu

við börðum líka Arabann
sem játaði sinn íslamska sið
á torginu fyrir allra augum
var hann hæddur og laminn
árið sem við höfðum betur
gegn Austur-Þjóðverjum
sem eru ekki lengur til

og Berlín óskipt
skiptist nú skýrt í austur og vestur
jafnvel skýrar en fyrir fallið
og djöfladýrkendur ógna
saklausum metalhausum
á hátíðum rokksins

við erum einskis manns börn
þegar allt kemur til alls
gleymdu orðum mínum og öllu
sem ég hef látið mér um munn fara

nei amma mín hefði ekki skilið bowie
og hans dauðatónlist
og sonur minn elskar metalmúsík
og skilur hvorki bowie né mig né ömmu

afi kallar á kútinn sinn
 
í minni mínu
er veggurinn mosagrænn
fölglóandi mosagrænn
eins og myndum hættir til
að mildast og mótast
í áranna rás
þegar upptökin
eru í frumbernsku
 
veggurinn eins og
séður úr fjarska
yfir mosaþembur hraunsins
gegnum djúpan brunn
 
afi kallar á mig á þriðja ári
síðasta sumarið sitt
áður en hann varð allur
eins og hann vissi hvað
lægi framundan
 
gamall og obbolítið hokinn
þótt mamma hafi alltaf sagt
hann óvenju fattan
sat hann í rúminu sínu
í hvítum spítalajakka
bauð mér ópal og malt
á borðinu hjá biblíunni
og mannakornunum hennar ömmu
 
nú er ég klæddur og kominn á ról
kristur jesú veri mitt skjól
sagði hann hægt með glettni
 
maltflaskan fór ofan í kok
í eina skiptið á ævinni
undrunarefni lengi fram eftir
röddin bland af sterku og veiku
þessi unaðslega afarödd
með seiðandi kraft innan úr brjósti
bað mig ávallt muna
hvað amma væri góð kona
traust og blíð og sterk
 
ritningargreinar frá ömmu
bænir frá ömmu
bón hans beint úr hennar munni
að sitja aldrei með hendur í skauti
heldur hafa alltaf eitthvað að iðja
þó ekki væri annað en lesa blað
 
iðnin veitir yndi mest
inn að hjartarótum
ber þig ætíð að sem best
beint frá huga stórum
 
nokkuð viss um að glugginn
var beint á móti veggnum fölgræna
dulúðug birta sem hjúpur um afa
og hægra eyrað sást ekki
bjöguð hægri kinnin
og munnvikið
virtust alheil eins og hin hliðin
runnin samt saman við ljósið
sem flóði inn í jakkaklæddan búkinn
veggurinn uppljómaður
enn sást ekki gangan í matgarðinn
árið eftir
 
höndin einhvern veginn
laus frá bolnum
án þess að kljúfa loftið
eins og mamma sagði löngu seinna
 
ég veit ekki hvar ég væri
án hennar ömmu þinnar
hún var alltaf mín stoð og stytta
ég alltaf heill en veikur
og vinnandi langa daga
 
víst ertu jesú kóngur klár
sagði hann með veikri hægð
þagnaði
horfði í gaupnir sér
starandi eins og horfinn
á vit annars tíma eða eitthvað
og lognaðist út af í rúminu
 
já ég hefði getað verið betri
við hana blessaða
 
andlátsorð hans
í eyra mitt námfúst
of ungt fyrir söknuð

hjólið
 
hjólið frábæra
hófst kolsvart
upp úr skottinu
í þann mund
sem sólin reis
upp við Vífilfell
og sáldraði roðagulli
yfir hinn nýja dag
 
sumum fannst mikið
leggjast fyrir okkur
í skortsins koti
eins og hjól bæri sótt
úr blásvörtu skottinu
einhverja Biafraveiki
enda var ég ekki
jú einmitt þaninn magi
eins og börnin blökku
suður í álfu myrkursins
 
ekki hjól tímans
hannað fyrir stelpur
og við sjö bræður
á eftir stóru systur
tignarröðin eftir aldri
stolt mitt samt
meðan röðin leyfði
og ugglaust lengur
 
entist okkur öllum
margmáluð funestusfluga
handa fúnikalsbörnum
sem við vorum kölluð
eftir dagsbrúnina gullnu
vorið sextíu og eitt
 
áður en súpan millilenti
á græna hattinum
 
hjólið bar mig brátt
út í óbyggðir hjá heimsenda
og sveitina þar suður af
þetta víðerna land
 
vinirnir stríddu mér
á að vera alltaf einn
pabbi skammaði mig
fyrir að vera fjarri byggð
og taka hjólið traustataki
svona lengi

sagnaseiður
 
eldhúskrókurinn
ekki sjálft hornið kannski
altarið og sagnaseiðurinn
töfrandi röddin hennar
eins og innan úr iðrum
heimsins
 
hér streymdu fram sögur
frá tímum sem lauk
löngu áður en ég fæddist
og gengu svo skringilega
í endurnýjun lífdaga
innan í mér
 
þegar hún var lítil
endalaus sól
og allir góðir
innan í þessari hrjúfu
rödd seiðsins
sem stafaði geislum
guðs og ömmu
yfir allt frá króknum
 
jafnvel slagurinn við gúttó
varð kærleiksríkur
og blandaðist einhvern veginn
saman við Gvend jaka
sextán ára að predika
yfir verkamönnunum
í skýlinu hennar
 
sérvitringar rónar
dúllarar geðveikir
vistkonur púrtkonur
þvottakonur
sérhver átti sögu
og fagra dýrðarstund
þótt engin væri
bíblíumyndin
til staðfestingar
aðeins þessi orð
borin uppi
af röddinni dimmu
sem gat meitt
og seitt

blátt hús við höfnina
 
höfnin var umgjörð
um eitthvað um lífið
þegar ég var strákur
og seldi köllum í bátum
og verbúðum Vísi
með nýjustu fréttir
af skreiðarsvindli
og leigubílstjóramorði
sem skók þjóðina
og svaninn sem pabbi
sigldi á um höfin blá
í miklu meira en sautján ár
 
og þeir sögðu hinir að hann
hann pabbi minn heillaði
þær allar svona tannlaus
það fannst mér þó skrítið
 
og ljósmyndin af bátnum
í hliði hafnarinnar
var gerólík þeirri sem
við pabbi teiknuðum
eftir hans minni
löngu áður en brestandi
bóman á Reykjaborginni
hífði honum
hans mikla heilsubrest
 
sem myndgerðist fyrir augum mér
þegar heiðbláa húsið er brotið
í mauk og ekki stendur
eftir steinn

 

pervisinn pabbi

pabbi minn var sjómaður
sem veiddi stundum
risastóran þorsk eins og
þegar ég vann með honum
til að fá fermingarpeninga

og ég geymdi alla þá stærstu
þar til síðast eins og skinnið
á sunnudagssteikinni
en þeir voru stærri en nokkurt læri
stærri en ég og sá stærsti
stærri en pabbi
sem var lágvaxinn
og eftir að hann veiktist
var hann pervisinn eins og
anórexíustelpa með stóran skalla
nautsterkur og sauðþrár

feyktist eins og lauf í vindi
kommúnismans sagði hann

og ég trúði öllum stóru orðunum
um helvítis íhaldið og fasistadjöflana
sem vildu aðeins arðræna
jörðina og loftið og mennina
og börnin þeirra og konurnar
þessir andskotar
lýður og skríll
sem vill koma heilbrigðri hugsun
undir græna torfu
út í hafsauga eða lengra
nota hold hennar í beitu
á Dornbanka

örfiri
 
Örfirisey
fannst mér alltaf skrítið orð
enda oftast sagt Öffirsey
og þegar ég hafði farið þangað
daglega í mörg ár og séð tankana
og frystihúsin og verbúðirnar
á Grandanum sagðist Sobbeggi afi
baða sig þarna og ég sá
fyrir mér krökkar leirhvítar
Majorkastrendur
 
en maðurinn var allsgáður
og mikilsvirtur og hlaut að vita
hvað hann söng þótt ég hefði
líka lesið að hann hélt sig
vera ófrískan að barni
eins og mamma
 
og pabbi hló
að þessum klikkaða kjána
sem þóttist snillingur
kannski frá því hann fæddi
sjálfan sig undir jökli
í öræfum sem útlendingar
kölluðu eyðimörk og Sobbeggi
sá ekkert líkt við Sahöru
og baðaði sig hjá slorinu
í Effirsey sem hvarf áður fyrr
á flóði og á þátt í nafni Reykjavíkur
samkvæmt nýjustu nýaldarkenningu
Moggans sem pabbi hataði
en keypti alltaf þegar hann
átti peninga en Þjóðviljann
þótt hann ætti ekki fyrir mat
 
og fannst fáránlegt og næstum
svik við karlmennsku sína
að hnykla vöðvana sem eru
þeir flottustu sem  ég hef séð
 
í þessum grjóthörðu kúlum
með útstæðum æðum
var eitthvert líf og frjómagn
sem ekki sést í fitness
 
og Grandinn var orðinn
saklaus þegar ég labbaði
þangað með nesti handa pabba
á meðan Sobbeggi gekk í hvarf
að hreyfa sig eftir kerfi Muellers
allsnakinn þar sem enginn sá
 
nema sjómenn á leið í land
eða frá landi á haf út
og sáu líklega ekki það sem
þeir hugsuðu í þessu karlmannslíki
sem gat töfrað barn í magann á sér
 
og setti líf sitt í reglulegt klukkuverk
sem minnti á Sjaplín
og Ljósvíkinginn í einni persónu
sem stjáklaði kramin af
berklum og fótasnúningi

úr myrku pergamenti
 
líður hugljúf nótt
um víðar bjartar lendur
heimilið nýja
í garði ása
nærri bústöðum
 
brunasárið á þriðja ári
á hægri fæti
þegar ketillinn valt
og helltist allur
á fótinn svo mamma
klippti óðslega
upp alla skálmina
sagði hún síðar
og í hendingskasti
undir læknishendur
allt gleymt
 
hundurinn stóri svarti
sem ég hefði þurft
að teygja mig
upp til að klappa á trýnið
náði pabba í klof
djöfullinn sjálfur
urrandi eins og hafrót
margra sjóa
upp við hugarströnd
óskýr orðinn
 
sautjándinn árið áður
mannhafið og ísinn
í tjaldinu sem hvarf
en lifir lengi í minni
systur minnar
með pabba
og mömmu heima
 
og amma gaukar að henni
tíeyring fyrir hjálpina
en hún afþakkar
það fæst ekkert
fyrir svona smáræði
amma mín
 
engin búð í nýja hverfinu
þurfum í Lídó
að sækja mjólk
göngum saman
fjögra og sex ára
þessa stundargöngu
kaupum apótekaralakkrís
að gleðja geð
guma og svanna
í húsi fjölmiðlanna
hálfri öld seinna
 
fúlir drullupyttir
hjá öllum húsum
grunnar fullir af botnlausum
aur og óhugnaði
 
fóturinn datt
svo ég datt
oní kjallara
og átti fótum fjör
að launa
í spelkuskónum
 
laugardagsferðir
í kirkju óhafnar
þótt aðrir stundi þær
innri friður fullur
af botnlausum myndum
og orðaskaki
í plati
 
upp af ströndu
rísa tveir hamir
sem ljósspjótin öll
standa á augnablik
baða draumkenndum ljóma
rista þau út úr
myrku pergamenti
leikrit án kynningar
 
andartak tekur fyrir andardrátt
allt stendur á öndinni
 
hann með odd við kverk
hún með blað við hönd
 
samsíða höfuð
í annarlegum stöðum
eins og skekkt
í myndvinnslu
hljóðrás enn óundin
rammar allir eins
og önd í hálsi
 
eins og sjaplínsk sýn
án Sjaplíns og strokudrengsins
ekkert hreyfist
nema blikna spjót
og bogna og berast
að banabaugum
enginn rauðhaus
að ganga úr mynd
 
í Guerníku var heilt þorp
þurrkað af yfirborði jarðar
í Aussvits var heill kynþáttur
þurrkaður út
í Ásgarði heill frændgarður
í afmynd þurrkaður út
af yfirborði pergaments
 
vogaðu ekki
nálægt mér
nýbúinn
að káfa
á brjóstum hennar
djöfull
 
orðin greypt sem forskrift
á berki heilans
myndin máð út
af tjöldum hugans
hvæs sem eggjar
framhald og uppbót
 
blað skilur huga
sem unnast
líkamar vindast
um rúm
hjöltu um egg
 
drengmóður
líður um rúm